20.1.2012 | 16:23
Yfirvaldið og undirsátarnir
Lýðræðisleg stjórntæki til varnar verkafólki
Ríkisstjórn Noregs, rétt eins og ríkisstjórn Íslands og stjórnvöldum í Neðra Saxlandi, hefur verið verið meðvituð um þann vanda sem opnun vinnumarkaðar Evrópu hefur haft í för með sér og hafa því stjórnvöld á hverjum stað reynt að tryggja réttindi launþega, bæði innlendra sem aðkomufólks, með setningu laga og markvissri beitingu reglna. Þannig hefur norska ríkisstjórnin gert það að kvöð við samninga vegna opinberra innkaupa, (frá janúar 2008) að verktökum eða öðrum launþegum sem greidd eru laun vegna slíkra samninga við hið opinbera, verði að vera tryggð sambærileg laun og tíðkist á viðkomandi svæði og í viðkomandi atvinnugeira. Lítur norska ríkisstjórnin á þær reglur sem innleiðingu á ILO-sáttmála nr. 94 sem norska ríkið hefur fullgilt. Að efni til tryggir sáttmálinn hið sama, þ.e. að við gerð verksamninga vegna opinberra innkaupa, verði verkafólki, sem og framleiðendum og dreifendum vöru og þjónustu , sambærileg kjör og viðgangast á sama landfræðilega svæði. (sjá http://www.regjeringen.no/nb/dep/nhd/dok/nou-er/1997/nou-1997-21/11/5.html?id=346651 ) Það sem er athyglisvert er að í samþykkt þessarar stofnunar Sameinuðu þjóðanna, ILO, er ekki talað um að tryggja lágmarkskjör heldur sambærileg kjör og landsvæðið er ekki endilega afmarkað við landamæri þjóðríkja heldur getur það verið annað og minna svæði.
Rüffert kúbeinið þrifið á loft
Röksemdir ESA ganga út á að einungis megi setja reglur um vinnumarkað heima fyrir, er fjalli með einhverjum hætti um útsenda starfsmenn, að þær hafi tilvísun í annað hvort heildstæða kjarasamninga er taki til landsins alls eða laga. Reglur sem grundvallast aðeins við opinber innkaup, uppfylli ekki slík skilyrði og séu því ekki leyfilegar.
Í Noregi verða verksamningar um opinber innkaup að innhalda klásúlur sem tryggi að verkamönnum séu tryggð laun og vinnuskilyrði sem séu engu síðri en sagt er fyrir um í heildstæðum kjarasamningum eða samningum sem að öðru leyti gilda fyrir svæðið og atvinnugreinina. Þetta telur ESA brjóta gegn tilskipuninni eins og Evrópudómstóllinn túlkaði hana í Rüffert-dómnum. (Sjá http://www.eftasurv.int/press--publications/press-releases/internal-market/nr/1480 ) Þannig notar ESA Rüffert dóminn sem kúbein til að brjótast inn á vinnumarkað í Noregi og grípa fram fyrir lýðræðislegar ákvarðanir og þjóðréttarlegar skuldbindingar Noregs gagnvart samningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
Noregur með öll réttu svörin
Í svari sínu til ESA þann 15. nóvember sl. leggur norska ríkisstjórnin áherslu á mikilvægi þessara reglna til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Telur ríkisstjórnin að opinberi geirinn hafi sérstökum skyldum að gegna við að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og arðrán á verkafólki. Segir ríkisstjórnin að reglur sínar styðjist við heimildarákvæði í tilskipun um opinber innkaup þess efnis að taka megi tillit til félagslegra þátta, auk þess sem með þeim séu innleidd ákvæði samþykktar ILO nr 94. Þar að auki vísar norska ríkisstjórnin til ályktunar Evrópuþingsins frá 25. október 2011um umbætur á tilskipuninni um opinber innkaup, þar sem Evrópuþingið krefst þess að tilskipun um opinber innkaup fylgi skýr yfirlýsing þess efnis að hún komi ekki í veg fyrir að ríki geti innleitt ákvæði samþykktar Alþjóða vinnumálasambandsins ILO nr 94. Tilskipunina um útsenda starfsmenn verði að túlka í ljósi tilskipunar um opinber innkaup og samþykktar ILO nr.94. (Sjá http://www.regjeringen.no/en/dep/ad/doc/andre/brev/utvalgte_brev/2011/response-from-the-norwegian-government-t.html?id=663257 )
Á að virða samninga Sameinuðu þjóðanna eða EES?
Það sem að er ekki síst áhugavert við þetta mál er að hér rekast á tvær þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Noregur hefur tekist á hendur, annars vegar gagnvart einni af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, Alþjóða vinnumálastofnuninni, en Noregur hefur fullgilt samþykkt ILO nr. 94 og hins vegar skuldbindingar gagnvart EES-samningunum, eins og þær hafa síðar verið túlkaðar af Evrópudómstólnum. Hanne Bjurstrøm (Ap) atvinnuráðherra Noregs var ómyrk í máli sl. sumar, þegar hótun ESA um að draga Noreg fyrir EFTA-dómsstólinn lá fyrir. Við viljum heldur styrkja regluverkið, en að veikja að. Það er mjög miður að við fáum slíka ákvörðun frá ESA, sagði Bjurstrøm þá.
Óttinn við yfirvaldið
Það er hins vegar talandi dæmi um ótta við Yfirvaldið að þrátt fyrir að hafa góðan og réttlátan málstað að verja, þá bakkar norska ríkisstjórnin nú og gerir breytingar á efni umræddrar reglugerðar. Og ekki verður betur séð en að óttinn við ESA hafi orðið viljanum til að fylgja samþykktum ILO yfirsterkari. Nú kveða reglurnar skýrt á um að það eru aðeins lágmarkslaun, eins og þau eru ákveðin í miðlægum kjarasamningum, sem þarf að virða. Í ILO samþykktinni er talað um sambærileg laun. Ekki er lengur vísað til að laun og vinnuaðstæður skuli vera sambærileg við það svæði og atvinnugrein sem við á, eins og er gert í ILO-samþykkt 94. Þá er tekið fram í nýju reglunum að aðeins verði miðað við þau atriði sem talin eru upp í tilskipuninni um útsent starfsfólk, samkvæmt gr 3.1 (lágmarkslaun, vinnutími, greiðslur fyrir ferðir, fæði og húsnæði).
Þannig leggst norska ríkisstjórnin niður fyrir Yfirvaldinu, en norsk yfirvöld hafa verið að bakka í þessu máli allt frá byrjun. Megn óánægja ríkið með málavöxtu innan verkalýðshreyfingarinnar en nú er beðið viðbragða ESA við svörum ríkisstjórnar Noregs.
Tilskipun um starfsmannaleigur næsta mál á dagskrá
Verkalýðshreyfingin í Noregi hefur hins vegar einbeitt sér að næstu sendingu frá ESB, sem er tilskipun um starfsmannaleigur. Fagforbundet hefur krafist þess að ríkisstjórnin beiti neitunarvaldi gegn tilskipuninni og í fyrradag (18.janúar 2011) efndu verkalýðsfélög vítt og breitt um Noreg til mótmæla gegn henni. Frá því verður sagt í næsta bloggi. Það er hins vegar hrópandi hversu ólík viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar í Noregi við sendingum frá Brussel, eru viðbrögðum kollega þeirra á Íslandi. Í Noregi er umræðan lífleg og gagnrýnin og henni fylgt eftir með aðgerðum. Hér heima, tja?
-phh
19.1.2012 | 15:08
Rüffert-dómurinn, lýðræðið og lágmarkslaun
Í skrifum hér á síðunni hefur verið leitast við að gera grein fyrir því hvernig Evrópudómstóllinn og EFTA-dómstólinn í kjölfarið, hafa nýtt dómsmál sem upp hafa komið, til þess að seilast inn á vinnumarkaði Evrópulandanna. Um leið hafa úrskurðirnir komið í veg fyrir að lýðræðislegar ákvarðanir stjórnvalda nái fram að ganga. Fjórfrelsið hefur með öðrum orðum forgang á aðra lagasetningu.
Einn hinna tímamótandi dóma er svokallaður Rüffert-dómur sem kveðinn var upp af Evrópudómstólnum í apríl 2008. Í dómnum er gripið fram fyrir hendur stjórnvalda í Neðra-Saxlandi sem höfðu reynt að koma í veg fyrir félagsleg undirboð í verkefnum á vegum hins opinbera. Rétt eins og í EFTA-dómnum gegn Íslandi, véfengir dómstólinn skilgreiningar stjórnvalda á hvað teljast lögleg/lögbundin lágmarkslaun. Með túlkun sinni á lögbundnum lágmarkslaunum í skilningi tilskipunarinnar um útsenda starfsmenn, kemur dómstólinn í veg fyrir að stjórnvöld geti krafist þess að verktakar sem starfa fyrir hið opinbera, greiði umsamin lágmarkslaun eins og þau gerast á vinnumarkaði hins opinbera. Þau lágmarkslaun, nái samkvæmt skilgreiningu, ekki til alls launamarkaðar í Þýskalandi og því eru þau ekki nothæf viðmiðun. Það er svo sem tilvísun í þennan dóm, sem að ESA er að reyna að knésetja stjórnvöld í Noregi og fá norsk stjórnvöld til að brjóta ILO-samþykkt 94. Ég mun gera nánari grein fyrir því máli í næsta bloggi.
Ég endurbirti því grein um Rüffert-dóminn sem ég ritaði sem alþjóðafulltrúi BSRB í apríl 2008 og er að finna á heimasíðu bandalagsins(http://www.bsrb.is/erlent/nr/1350/). Því er þó við að bæta, að í ljósi reynslunnar og niðurstöðu EFTA-dómsins gegn íslandi, er hreint ekki víst hver vörn er í lögum númer 55 frá 1980, sem kveða á um að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör. Eins og dæmin frá sanna, þá er alls ekki víst að skilningur Evrópudómstólanna á hvað teljist til launa eða lágmarkslauna, samræmist skilningi viðeigandi stjórnvalda heima fyrir. En hér kemur greinin:
Evrópudómstóllinn heggur í sama knérunn
Frelsi til að veita þjónustu framar öllu
Virðist dómstóllinn staðráðinn í að festa í sessi túlkun sem setur fjórfrelsið í fyrsta sæti, þ.e. réttinn til að veita þjónustu sbr. gr. 49. grein stofnsáttmála Evrópusambandsins um frjáls þjónustuviðskipti. Nú er þetta frelsi túlkað á þá lund að verkalýðsfélög hafa ekki rétt til að grípa til aðgerða til að verja umsamin lágmarkskjör (eins og gerðist í Laval - málinu), og nú bætist það við að lýðræðislega kjörin stjórnvöld megi ekki taka um það ákvörðun að hafa beri hliðsjón af kjarasamningum verkalýðsfélaga við útboð og samninga. Þá gerir dómurinn að engu ákvæði tilskipana á borð við þá sem gildir um opinber innkaup frá 2004 en sú tilskipun veitir opinberum aðilum svigrúm til að skilyrða samninga með ýmsum hætti. Enn skal þess getið að dómurinn virðir að vettugi eina af meginreglum Evrópusambandsins, nálægðarregluna, sem byggir á því að ákvarðanir eigi að taka í héraði, nema þær varði heildarhagsmuni Evrópusambandins.
Ólöglegt að virða kjarasamninga
Málsatvik eru nánar þau að Neðra-Saxland, eitt af sambandslöndum eða héruðum Þýskalands, gerir samning við byggingaverktakafyrirtækið Objekt und Bauregie GmbH um að reisa fangelsi. Í lögum Neðra-Saxlands um opinber innkaup er tekið fram að óheimilt sé að gera verksamninga við verktaka eða undirverkataka sem ekki taki mið af gildandi kjarasamningum á svæðinu, að viðlögðum sektum og tók umræddur samningur mið af þeim lögum. Objekt und Bauregie GmbH ræður hins vegar pólskan undirverktaka sem greiddi aðeins 46.57% af umsömdum lágmarkslaunum. Neðra-Saxland sagði þá upp samningnum og fór í mál fyrir héraðsdómstóli og krafðist að verktakar greiddu sektir. Héraðsdómstóllinn var hins vegar ekki viss í sinni sök og sendi því fyrirspurn til Evrópudómsstólsins um hvort frelsið til að veita þjónustu útiloki að opinber aðili beiti framangreindum skilyrðum hvað varðar skírskotun til gildandi kjarasamninga á svæðinu. (Hér er um svipað ferli að ræða og átti sér stað í Laval málinu, þ.e. dómstólar heima fyrir veigra sér við að kveða upp dóma, en vísa spurningum þess í stað til Evrópudómsstólsins.)
Evrópudómstóllinn kemst síðan að þeirri niðurstöðu að sett skilyrði séu í þessu tilfelli ekki samrýmanleg tilskipuninni um útsenda starfsmenn. Í Þýskalandi sé við lýði heildarkjarasamningar á byggingamarkaði og þar séu tilskilin ákveðin lágmarkslaun, en ekki sé hægt að líta á kjarasamninginn í Neðra-Saxlandi sem ákvarðandi gagnvart ákvæðum tilskipunar um útsenda starfsmenn. Þar að auki, segir dómurinn, að lög Neðra-Saxlands um að verktakar skuli greiða samkvæmt kjarasamningum, gildi aðeins um hluta vinnumarkaðarins og taki einvörðungu til opinberra samninga. Þar af leiðandi séu lög Neðra-Saxlands ekki samræmanleg ákvæðum tilskipunar um útsenda starfsmenn. Dómurinn telur m.ö.o. að kjarasamningsbundna vernd á þessu svæði megi líta á sem samkeppnishömlur og þar sem kjarasamningarnir áskilji laun sem eru hærri en tilgreind lágmarkslaun í þýskum heildarkjarasamningum, réttlæti það ekki að hömlur verið settar á frelsi til að veita þjónustu milli landa. Umræddir kjarasamningar hafi ekki verið sérstaklega staðfestir sem almennt viðmið fyrir þýskan vinnumarkað með tilvísun í tilskipun um útsenda starfsmenn.
Kjarasamningar viðskiptahindrun
Dómurinn heggur því í sama knérunn og Laval-dómurinn og staðfestir að ekki sé unnt að knýja erlenda verktaka til að greiða meira en sem sannanlega teljist "lágmarkslaun" skv. tilskipun um útsenda starfsmenn og samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er beiting hennar skilgreind á mjög takmarkandi vísu. Í Svíþjóð/Laval dómnum sagði dómstólinn að skýr ákvæði um lágmarkslaun skorti og því væri ekki hægt að ætlast til að erlend fyrirtæki vissu hvað væru umsamin lágmarkslaun og því ætti tilskipun um útsenda starfsmenn ekki við. (Þrátt fyrir að sænsku verkalýðsfélögin bönkuðu óumbeðin upp á og gerðu þeim skýra grein fyrir hvað teldust lágmarkslaun á svæðinu.)
Í Rüffert-málinu er einu af 16 sambandslöndum Þýskalands meinað að setja lög sem eiga að tryggja sérstaklega að farið sé eftir kjarsamningum og komið sé í veg fyrir félagsleg undirboð.
Hér eru lög sambandsríkis ekki talin nægilega skýr og telur Evrópudómstóllinn því rétt að ganga í berhögg við þau. Í báðum tilfellum er litið framhjá gildandi kjarasamningum og vilja stjórnvalda. Í Rüffert málinum lítur Evrópudómstóllinn enn fremur framhjá tilskipun um opinber innkaup sem heimilar yfirvöldum að setja viss skilyrði við gerð og úthlutun opinberra samninga.
Eru hér komið fram að varnaðarorð ýmissa gagnrýnenda ESB og þess að láta dómstólinn úrskurða um framvindu á vinnumarkaði hafa átt við rök að styðjast. Svo er komið að löglega gerðir kjarasamningar eru undir vissum tilfellum taldir til viðskiptahindrana fyrir fyrirtæki. Telur verkalýðshreyfingin að með þessum dómi sé jafnvel veitt leyfi til félagslegra undirboða.
Upprunalandsreglan í gegnum bakdyrnar?
Evrópsk verkalýðshreyfing telur að þessi dómur sé mjög varasamur og veiki óhjákvæmilega stöðu verkalýðshreyfingarinnar og grafi undan ávinningum hennar frá fyrri tíð.
Svo virðist sem Evrópudómstóllinn hafi fundið hjáleið til að koma ákvæðum "upprunalandsreglunnar" umdeildu í gildi því nú er það talin samkeppnishindrun að erlend fyrirtæki sem flytja starfsmenn milli landa undir regnhlíf frelsis með þjónustu, þurfi að greiða að fullu eftir kjarasamningum gistilandsins. Með hliðsjón af tilskipuninni um útsenda starfsmenn, má aðeins krefjast þess að erlendu fyrirtækin greiði starfsmönnum sínum tilskilin lágmarkslaun og þarf það viðmið að vera uppfyllt með formlega réttum hætti, eigi lágmarksverndarákvæði tilskipunarinnar til að teljast gilt. Gildir það um þá opinberu aðila sem vilja nýta sér ákvæði um opinber innkaup og verkalýðshreyfinguna, sem má semja um laun heima fyrir, en samkvæmt dómnum eru erlend fyrirtæki undanskilin ákvæðum þeirra kjarasamninga umfram það sem sannanlega eru lágmarkslaun. Því má segja að Evrópudómstóllinn hafi snúið við túlkuninni á tilskipun um útsenda starfsmenn; í stað þess að tryggja starfsmönnum lágmarkskjör þá eru umrædd lágmarkskjör farin að virka sem hámarkslaun fyrir aðsenda starfsmenn.Verkalýðshreyfingunni er nú meinað að berjast fyrir hönd aðsendra starfsmanna fyrir launum sem eru í takt við gildandi kjarasamninga á svæðinu, séu þeir umfram skilgreint lágmark.
Á Íslandi hefur verið álitið að íslenskur vinnumarkaður sé ekki í hættu að fá á sig álíka dóma. Lög númer 55 frá 1980 kveða á um að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.
(Sjá dómsniðurstöðu Evrópudómstólsins hér: http://curia.europa.eu/jurisp/cgi-bin/form.pl?lang=EN&Submit=rechercher&numaff=C-346/06 )
(Sjá viðbrögð ETUC við dómnum: http://www.etuc.org/a/4830 )
Sjá upphaflega grein á heimasíðu BSRB: http://www.bsrb.is/erlent/nr/1350/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.1.2012 | 09:20
Búferlaflutningar og afsökunarbeiðni
Ég bið lesendur velvirðingar á stopulum færslum upp á síðkastið. Ástæðan er sú að ég stend í búferlaflutningum milli landa og það hefur valdið töfum. Ég geri ráð fyrir að úr rætist á næstu dögum og að næsta færsla birtist eigi síðar en á miðvikudaginn.
Ég bendi upplýsingaþyrstum lesendum á hina ágætu síðu http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/ og að sjálfsögðu á síðu Heimssýnar http://heimssyn.is/
Bestu kveðjur, Páll
7.1.2012 | 21:18
Tilskipunin um útsenda starfsmenn endurskoðuð?
Síðustu fréttir eru að líkur séu á að tilskipunin um útsenda starfsmenn verði tekin til endurskoðunar og ný útgáfa lögð fram af framkvæmdastjórninni, jafnvel nú strax í febrúar. Fréttir eru hins vegar mjög óljósar af málinu og menn vita ekki í hvaða formi breytingartillögurnar kunna að verða. Er jafnvel talað um sérstaka útgáfu fyrir Norðurlöndin, sem væri nýmæli! Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta að gífurleg óánægja hefur verið með túlkun dómstóla á tilskipuninni innan verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu allri, ekki bara á Norðurlöndum. Með Laval-dómnum var gengið á grundvallarréttindi verkalýðshreyfingarinnar, þ.e. verkfallsréttinn. Dómurinn bannaði með öðrum orðum að verkalýshreyfingin gæti gripið til aðgerða sem vernduðu réttindi sem væru umfram þau lágmarksréttindi sem Evrópudómstólinn taldi að væru tryggð í tilskipuninni um útsenda starfsmenn. Þar með var verkalýðshreyfingunni bannað að grípa til aðgerða gegn þeim félagslegu undirboðum sem dómurinn bauð upp á. Það verður því afar fróðlegt að sjá hvað kemur upp úr kössum framkvæmdastjórnarinnar.
Það sem er einnig áhugavert við þessa þróun er að hún sýnir að það væri röng afstaða hjá samninganefndum Íslands að ganga út frá að öll löggjöf ESB sé óhagganleg - og draga þar af leiðandi þá ályktun að það sé óraunhæft að gera kröfur sem ganga á þessa löggjöf. Allur þrýstingur á breytingar, hvort sem kemur frá verkalýðshreyfingunni eða samninganefnd Íslands þess vegna, kann að skila árangri. Þannig er hreyfing á tilskipun um opinber innkaup, um reglur um ríkisaðstoð ofl. Það er því um að gera að hræðast ekki ESB-valdið - og gera kröfur sem endurspegla raunverulega hagsmuni Íslands þó það kunni að framkalla það sem íslenska samninganefndin kann að óttast mest - yfirlætisfliss hinna kurteisu heimsborgara og viðskálendanna úr samningateymi ESB.
-phh
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.1.2012 kl. 07:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.1.2012 | 14:10
Varðhundar á hælum lýðræðisins
4.1.2012 | 23:36
Frelsi fyrirtækjanna og frelsi fólksins
2.1.2012 | 12:05
Við fylgjumst með, Steingrímur!
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2012 kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.12.2011 | 17:21
Er verið að plata fólk?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.12.2011 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.12.2011 | 11:07
Gleðileg jól!
21.12.2011 | 17:30
Við nennum ekki að hlusta á ykkur! Frakklandsforseti sýnir forsætisráðherra Dana hroka og dónaskap
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)