Yfirvaldið og undirsátarnir

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur hótar ríkisstjórn Noregs að draga hana fyrir EFTA-dómstólinn, breyti hún ekki reglum um opinber innkaup, sem ESA telur að brjóti í bága við Rüffert-dóminn. (Sjá síðasta blogg hér á undan.) Markmið ESA er að brjóta á bak aftur vilja norskra stjórnvalda til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og um leið, í raun, að fá norsku ríkisstjórnina til að fara á svig við sáttmála Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, ILO nr. 94. sem norska ríkisstjórnin hefur þó fullgilt. Gaf ESA norsku ríkisstjórninni framlengdan frest til 15. nóvember sl. til að gera fullnægjandi breytingar, að öðrum kosti yrði hún dreginn fyrir EFTA-dómstólinn. Í svari sínu til ESA frá 15.11.11 neitar norska ríkisstjórnin að hverfa frá þeirri viðleitni sinni að koma í veg fyrir félagsleg undirboð, en hefur engu að síður gert afdrifaríkar orðlagsbreytingar á gildandi reglugerðum í von um að það megi verða til að friðþægja “Yfirvaldinu”. (ESA = EFTA Surveillance Authority. Í skrifum sínum vísar ESA til sjálfs sín sem “The Authority, eða Yfirvaldið.) Hefur málatilbúnaður ESA valdið miklum usla í Noregi, ekki síst hjá verkalýðshreyfingunni, en einnig hjá ríkisstjórn.

Lýðræðisleg stjórntæki til varnar verkafólki

Ríkisstjórn Noregs, rétt eins og ríkisstjórn Íslands og stjórnvöldum í Neðra Saxlandi, hefur verið verið meðvituð um þann vanda sem opnun vinnumarkaðar Evrópu hefur haft í för með sér og hafa því stjórnvöld á hverjum stað reynt að tryggja réttindi launþega, bæði innlendra sem aðkomufólks, með setningu laga og markvissri beitingu reglna. Þannig hefur norska ríkisstjórnin gert það að kvöð við samninga vegna opinberra innkaupa, (frá janúar 2008) að verktökum eða öðrum launþegum sem greidd eru laun vegna slíkra samninga við hið opinbera, verði að vera tryggð sambærileg laun og tíðkist á viðkomandi svæði og í viðkomandi atvinnugeira. Lítur norska ríkisstjórnin á þær reglur sem innleiðingu á ILO-sáttmála nr. 94 sem norska ríkið hefur fullgilt. Að efni til tryggir sáttmálinn hið sama, þ.e. að við gerð verksamninga vegna opinberra innkaupa, verði verkafólki, sem og framleiðendum og dreifendum vöru og þjónustu , “sambærileg kjör og viðgangast á sama landfræðilega svæði”. (sjá http://www.regjeringen.no/nb/dep/nhd/dok/nou-er/1997/nou-1997-21/11/5.html?id=346651 ) Það sem er athyglisvert er að í samþykkt þessarar stofnunar Sameinuðu þjóðanna, ILO, er ekki talað um að tryggja “lágmarkskjör” heldur “sambærileg kjör” og landsvæðið er ekki endilega afmarkað við landamæri þjóðríkja heldur getur það verið annað og minna svæði.

Rüffert – kúbeinið þrifið á loft

Röksemdir ESA ganga út á að einungis megi setja reglur um vinnumarkað heima fyrir, er fjalli með einhverjum hætti um útsenda starfsmenn, að þær hafi tilvísun í annað hvort heildstæða kjarasamninga er taki til landsins alls eða laga. Reglur sem grundvallast aðeins við opinber innkaup, uppfylli ekki slík skilyrði og séu því ekki leyfilegar.

Í Noregi verða verksamningar um opinber innkaup að innhalda klásúlur sem tryggi að verkamönnum séu tryggð laun og vinnuskilyrði sem séu engu síðri en sagt er fyrir um í heildstæðum kjarasamningum eða samningum sem að öðru leyti gilda fyrir svæðið og atvinnugreinina. Þetta telur ESA brjóta gegn tilskipuninni eins og Evrópudómstóllinn túlkaði hana í Rüffert-dómnum. (Sjá http://www.eftasurv.int/press--publications/press-releases/internal-market/nr/1480 ) Þannig notar ESA Rüffert dóminn sem kúbein til að brjótast inn á vinnumarkað í Noregi og grípa fram fyrir lýðræðislegar ákvarðanir og þjóðréttarlegar skuldbindingar Noregs gagnvart samningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Noregur með öll réttu svörin

Í svari sínu til ESA þann 15. nóvember sl. leggur norska ríkisstjórnin áherslu á mikilvægi þessara reglna til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Telur ríkisstjórnin að opinberi geirinn hafi sérstökum skyldum að gegna við að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og arðrán á verkafólki. Segir ríkisstjórnin að reglur sínar styðjist við heimildarákvæði í tilskipun um opinber innkaup þess efnis að taka megi tillit til félagslegra þátta, auk þess sem með þeim séu innleidd ákvæði samþykktar ILO nr 94. Þar að auki vísar norska ríkisstjórnin til ályktunar Evrópuþingsins frá 25. október 2011um umbætur á tilskipuninni um opinber innkaup, þar sem Evrópuþingið krefst þess “að tilskipun um opinber innkaup fylgi skýr yfirlýsing þess efnis að hún komi ekki í veg fyrir að ríki geti innleitt ákvæði samþykktar Alþjóða vinnumálasambandsins ILO nr 94.” Tilskipunina um útsenda starfsmenn verði að túlka í ljósi tilskipunar um opinber innkaup og samþykktar ILO nr.94. (Sjá http://www.regjeringen.no/en/dep/ad/doc/andre/brev/utvalgte_brev/2011/response-from-the-norwegian-government-t.html?id=663257 )

Á að virða samninga Sameinuðu þjóðanna eða EES?

Það sem að er ekki síst áhugavert við þetta mál er að hér rekast á tvær þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Noregur hefur tekist á hendur, annars vegar gagnvart einni af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, Alþjóða vinnumálastofnuninni, en Noregur hefur fullgilt samþykkt ILO nr. 94 og hins vegar skuldbindingar gagnvart EES-samningunum, eins og þær hafa síðar verið túlkaðar af Evrópudómstólnum. Hanne Bjurstrøm (Ap) atvinnuráðherra Noregs var ómyrk í máli sl. sumar, þegar hótun ESA um að draga Noreg fyrir EFTA-dómsstólinn lá fyrir. “Við viljum heldur styrkja regluverkið, en að veikja að. Það er mjög miður að við fáum slíka ákvörðun frá ESA,” sagði Bjurstrøm þá.

Óttinn við yfirvaldið

Það er hins vegar talandi dæmi um ótta við Yfirvaldið að þrátt fyrir að hafa góðan og réttlátan málstað að verja, þá bakkar norska ríkisstjórnin nú og gerir breytingar á efni umræddrar reglugerðar. Og ekki verður betur séð en að óttinn við ESA hafi orðið viljanum til að fylgja samþykktum ILO yfirsterkari. Nú kveða reglurnar skýrt á um að það eru aðeins lágmarkslaun, eins og þau eru ákveðin í miðlægum kjarasamningum, sem þarf að virða. Í ILO samþykktinni er talað um sambærileg laun. Ekki er lengur vísað til að laun og vinnuaðstæður skuli vera “sambærileg við það svæði og atvinnugrein sem við á”, eins og er gert í ILO-samþykkt 94. Þá er tekið fram í nýju reglunum að aðeins verði miðað við þau atriði sem talin eru upp í tilskipuninni um útsent starfsfólk, samkvæmt gr 3.1 (lágmarkslaun, vinnutími, greiðslur fyrir ferðir, fæði og húsnæði).

Þannig leggst norska ríkisstjórnin niður fyrir Yfirvaldinu, en norsk yfirvöld hafa verið að bakka í þessu máli allt frá byrjun. Megn óánægja ríkið með málavöxtu innan verkalýðshreyfingarinnar en nú er beðið viðbragða ESA við svörum ríkisstjórnar Noregs.

Tilskipun um starfsmannaleigur næsta mál á dagskrá

Verkalýðshreyfingin í Noregi hefur hins vegar einbeitt sér að næstu sendingu frá ESB, sem er tilskipun um starfsmannaleigur. Fagforbundet hefur krafist þess að ríkisstjórnin beiti neitunarvaldi gegn tilskipuninni og í fyrradag (18.janúar 2011) efndu verkalýðsfélög vítt og breitt um Noreg til mótmæla gegn henni. Frá því verður sagt í næsta bloggi. Það er hins vegar hrópandi hversu ólík viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar í Noregi við sendingum frá Brussel, eru viðbrögðum kollega þeirra á Íslandi. Í Noregi er umræðan lífleg og gagnrýnin og henni fylgt eftir með aðgerðum. Hér heima, tja?

-phh


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband