Röksemdir með og á móti “Fjármálapakka” ESB

“Fjármálapakkinn” eða “Vaxtar- og stöðuleikasamningur” ESB eða hvaða nafni hið nýgerða samkomulag 26 ríkja ESB mun gegna í framtíðinni, er að sjálfsögðu eitt af afdrifaríkari skrefunum í sögu ESB. Hér á þessari bloggsíðu verður fjallað ítarlega um tilurð þessa samkomulags, efni hans og afleiðingar, en við munum hefja umfjöllunina með því að fara yfir nokkrar röksemdir með og á móti samkomulaginu – séð frá sjónarhóli Dana. Er hér stuðst við ágæta yfirferð dönsku bloggsíðunnar http://euzoo.dk/ þar sem reifuð eru nokkrar algengar röksemdir með og móti þeirri ákvörðun að Danir ættu að gerast aðilar að “fjármálapakka” ESB. Hér er auðvitað ekki um tæmandi lista að ræða en það er fróðlegt skoða málið frá sjónarhóli Dana, sem eru jú aðilar að ESB. Sumar þessarra röksemda hljóma kunnuglega í eyrum Íslendinga, meðan aðrar eru ókunnuglegri.

Röksemdir fyrir því að (Danir) gerist aðilar að nýja samkomulaginu

Pólitísk áhrif. Röksemdirnar hér ganga út á að nauðsynlegt sé (fyrir Dani) að vera eins nálægt kjarna valdsins þar sem ákvarðanir eru teknar. Nú gengur Vaxtar- og stöðugleikasamningurinn mikið út á að einstök ríki eiga að taka til í fjármálunum heima fyrir, en þegar ríkin eiga að hittast einu sinni í mánuði – a.m.k. næsta hálfa árið – verður það þá eina umræðuefnið? Og hvaða áherslur verða lagðar? Blogghöfundar benda á að sú pólitíska óeining sem einkenni ESB ríkin, muni halda áfram að vera til staðar, þrátt fyrir samninginn.

Evru-röksemdin: Þessar röksemdir koma í framhaldi af fyrri röksemdunum: Danir munu taka upp evruna einhvern tíma í framtíðinni og þess vegna er nauðsynlegt að vera með núna, þegar stjórnmálamenn eru að leggja stjórnmálalegan og fjármálalegan ramma. Þessar röksemdir hafa þó aðeins vægi trúi menn því að Danir muni einhvern tíma ganga í Evru-klúbbinn.

Samstöðu-röksemdin: Hún gengur út á að við séum stödd á krepputímum sem getur leitt til samdráttar í efnahagslífinu sem jafnast á við kreppuna um 1930. Þess vegna sé mikilvægt að gera allt sem hægt er til að bjarga evrunni. Með að sýna samstöðu megi ekki aðeins bjarga evru-ríkjunum heldur einnig dönskum efnahag, þar sem þá sé danskur útflutningur til evrulandanna tryggður.

Röksemdin um innri markaðinn. Hún gengur út á að Evrópa sem er skipt upp í mismunandi svæði sem ganga á mismunandi hraða og hafa með ólíkar reglur, sé andstæð viðskiptahagsmunum Dana. Hættan sé sú að innri markaðurinn klofni upp í ólík svæði þar sem sérstakar reglur gildi um hvert svæði. Það þýði í raun að grundvallarhugmyndin um innri markaðinn sé tekin til endurskoðunar. Því sé danskt atvinnulíf mótfallið, sérstaklega ef að Þýskaland, sem er stærsti útflutingsmarkaður Dana, yrði á öðru svæði en Danmörk.

Röksemdin um lánamarkaðinn. Hún gengur út á að verði Danir með í “fjármálapakkanum” þá séu þar með send skilaboð til fjárfesta að þeim sé óhætt að fjárfesta í Danmörku. Þeim mun stærri trú fjárfestar hafi á Danmörku, þeim mun lægri muni vextir vera og því fylgi lægri lánakostnaður sem þýði betri vaxtarskilyrði fyrir dönsk fyrirtæki.

Röksemdir gegn því að Danir taki þátt í samkomulaginu.

Átaks-röksemdin eða Kickstarts- argumentet eins og það heitir á góðri dönsku. Danska ríkisstjórnin hafði heitið í kosningunum að koma hjólum atvinnulifsins á fullan snúning með hraði, með samræmdum aðgerðum og peningainnspýtingu. Þátttaka í “fjármálapakkanum”, sem snýst um niðurskurð og aðhald í ríkisfjármálum, passar ekki vel við kosingaloforðin. Þetta hefur valdið pólitískum deilum í Danmörku og eins og einn þingmanna Einingarlistans orðaði það: “Það á ekki að flokkast undir lúxus að fylgja jafnaðarmannastefnu í efnahagsmálum.”

Fullveldis-röksemdin gengur út á að meðan að Danir hafi byggt upp gott lýðræðisþjóðfélag og að þá hafi það verið útþynnt með afsali fullveldis til Brussel. Það sé ekki aðeins siðferðilega rangt, heldur stríði það gegn heilbrigðri skynsemi, þar sem að eru jú Danir sem vita best hvaða reglur passa best í Danmörku.

Hin félagslega Evrópa. Röksemdirnar eru á þann veg að það séu í raun fámennur hópur borgaralegra stjórnmálamanna sem hafi ýtt hugmyndinni um fjármálapakkann á flot og hafi þrýst á að koma honum í framkvæmd. Hugmyndin sé að innleiða samræmda borgaralega (hægri) stefnu í Evrópu með tilheyrandi niðurskurði á opinberum útgjöldum. Röksemdirnar snerta umræðuna um hver kjarninn í samvinnu aðildarríkja ESB eiginlega er eða á að vera.

Lýðræðisröksemdin. Með nýjum milliríkjasamningi flyst ákvörðunarvaldið frá kjósendum og stjórnmálamönnum sem þeir hafa kosið, til lögfræðinga, embættismanna og ráðherra sem eru kjörnir með óbeinum hætti. Röksemdirnar eru skyldar fullveldi-röksemdunum en þó ekki þær sömu, því að er ekki útlit fyrir að Evrópuþingið fái að hafa neitt um hinn nýja samninginn að segja. Það verður með öðrum orðum sífellt erfiðara að krefjast pólitískrar ábyrgðar á þeim ákvörðunum sem teknar eru.

Gildis röksemdin. Hér er spurt þeirrar spurningar um hvaða gildi enn einn samningurinn um niðurskurð og aðhald í ríkisfjármálum hafi eiginlega, þegar raunverulega vandamálið liggur í ójafnvægi í samkeppnishæfni og viðskiptajöfnuði milli norður og suður Evrópu? Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og Martin Wolf, blaðamaður á Financial Times eru meðal þeirra mörgu sem hafa fjallað um þetta sjónarhorn.


Stéttabarátta á alþjóðavísu

Barátta ítölsku verkalýðsfélaganna gegn niðurskurðaraðgerðum Mario Monti, forsætisráðherra og fyrrum kommissar hjá ESB, er hluti af samræmdum aðgerðum verkalýðsfélaga um alla Evrópu. Og baráttan snýst einmitt um hvort almenningur á að bera byrðarnar af kreppunni, hvort við eigum að þola lækkun launa, afnám réttinda og aukið atvinnuleysi á meðan að bankarnir halda til streitu háum bónusum fyrir stjórana af því þeir eru svo mikilvægir fyrir samfélagið. "Fjármálapakki" ESB er hluti af þessu stríði. Sjá nánar um aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar fyrir skemmstu:

 http://esbogalmannahagur.blog.is/blog/esbogalmannahagur/entry/1208413/


mbl.is Ítalir leggja niður störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meginhagsmunir Íslands fyrir borð bornir í aðildarviðræðunum við ESB

Utanríkisráðuneytinu hefur mistekist að halda til haga þeim meginhagsmunum Íslands “að verja hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu”, sem meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis skilgreindi sem þær forsendur “sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB” og ekki mætti að hvika frá “án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis”. Á því var svo hnykkt í samþykkt Alþingis á þingsályktun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu, en þar segir: “Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.”

Þessa skoðun mína byggi ég á lestri fyrirliggjandi gagna frá Alþingi, utanríkisráðuneytinu og fundargerðum og greinagerðum samningahópa, auk annarra heimilda. Ég tel einnig einsýnt að utanríkisráðuneytið þurfi að taka vinnubrögð sín til endurskoðunar og að endurvinna þurfi samningsafstöðu Íslands í hvað almannaþjónustu varðar.

Í þeirri vinnu sem fram hefur farið hingað til undir verkstjórn utanríkisráðuneytisins, skortir á að þeim áherslum sem lagðar eru af Alþingi sé fylgt, það virðist sem engin tilraun hafi verið gerð til að fjalla með skipulögðum og heildstæðum hætti um almannaþjónustuna eða við hvað átt er með “hinu norræna formi félagslegrar almannaþjónustu. Því skortir alla greiningu á lagalegum þörfum slíkrar almannaþjónustu og þar af leiðandi skortir alla markvissa umfjöllun um þann mismun sem er á lagaumhverfi opinberrar almannaþjónustu á Íslandi og í ESB og hvaða hættur kunna að leynast í þeim efnum. Það eru því hvergi reistar nákvæmar eða nauðsynlegar kröfur svo það megi framfylgja vilja Alþingis. Þeim átökum sem hafa verið um stöðu opinberrar almannaþjónustu innan ESB mörg undangengin ár eru hvergi gerð skil. Og því mætti ætla að nauðsynlegan skilning og þekkingu á málaflokknum hafi skort – eða að aðrir hagsmunir en almannaþjónustunnar hafi verið settir í forgang; að áhersla á að loka samningsköflum sem fyrst hafi orðið til þess að sá ágreiningur og álitamál sem uppi eru hafi ekki verið rædd og þær kröfur sem hugsanlega hafi þurft að móta til að verja meginhagsmuni Íslands hvað varðar almannaþjónustu, hafi verið sópað undir teppið.

Utanríkisráðuneytið stillir málum upp á þann veg að það mætti ætla að að það telji að hagmunir hinnar norrænu almannaþjónustu falli aðeins undir einn (og hálfan) kafla aðildarviðræðnanna og í þeim köflum ( kafli 19 og kafli 3 “að hluta” ) eru allar forsendur ESB samþykktar án athugasemda. Engar kröfur eru reistar af Íslands hálfu. Hvergi eru vandamál almannaþjónustunnar reifuð í þeim anda sem verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur sett fram, né þá heldur eins og margir flokkar á Evrópuþinginu (þeirra á meðal systurflokkar Samfylkingarinnar) hafa lýst þeim og reynt að taka á. Það eru heldur ekki gerðar neinar tillögur um varnir sem Alþingi mætti grípa til á heimavelli. Málið hlýtur því augljóslega að koma til kasta Alþingis um leið og það kemur saman á ný eftir áramót.

Þetta eru stór orð og ég mun reyna að færa rök fyrir hér á eftir, hvað ég tel hafa farið úrskeiðis. Um leið ítreka ég að gagnrýni mín afmarkast við eftirfarandi efnislega umfjöllun, en mér hefur ekki unnist tóm til að fara ítarlega í alla þá þætti sem meirihluti utanríkismálanefndar fjallaði um undir liðnum;” vi. Almannaþjónusta og félagsleg mál.” (En það að hér verði ekki fjallað ítarlega um alla hugsanlega þætti málsins, t.d. hvað varðar Íbúðalánasjóð eða jafnréttismál, verður að sjálfsögðu ekki til að draga úr vægi þeirrar gagnrýni sem hér er sett fram.)

Markmiðin þynnt út og tekin úr samhengi

Það er samningahópur um “EES II, félagsmál, þjónustu, fjárfestingar, umhverfismál o.fl”, eins og hann heitir á sérstakri heimasíðu utanríkisráðuneytisins um aðildarviðræðurnar (esb.utn.is) sem heldur utan um kafla 2,3,4,6,9,10,14, kafla 19, 21,25,26, 27 og 28. Hópurinn er einn tíu samningahópa og er hlutverk hvers hóps skilgreint með tilliti til þeirra 35 kafla sem ESB hefur skipt aðildarviðræðunum upp í. Að auki er hverjum hópi skrifað erindisbréf, væntanlega í nafni utanríkisráðherra, og skiptir ráðuneytið þar upp þeim meginmarkmiðum sem sett skulu í aðildarviðræðunum, samkvæmt áliti meirihluta utanríkismálanefndar, á samningahópana og á sérstaka kafla.

Þegar borin eru saman, greining og lýsing meirihluta utanríkismálanefndar annars vegar á þeim meginhagsmunum hvað varðar almannaþjónustu og svo skjölin “Hlutverk samningahóps um EES II, félagsmál, þjónustu, fjárfestingar, umhverfismál o.fl.” og erindisbréf þess hóps, sem á að móta kröfur varðandi almannaþjónustuna, koma nokkur mjög eftirtektarverð atriði fram.

Í fyrsta lagi hafa nokkrir mikilvægir áherslupunktar þynnst út og horfið:

Texti utanríkismálanefndar er svohljóðandi: “Telur meiri hlutinn nauðsynlegt að íslensk lög og reglur um opinbera almannaþjónustu og framkvæmd hennar verði tekin til skoðunar, t.d. með sérstökum lögum um almannaþjónustu, svo að tryggja megi sem frekast er unnt að lagaumhverfi ESB hafi ekki áhrif á sjálfstætt ákvörðunarvald stjórnvalda til að skipuleggja og fjármagna opinbera almannaþjónustu, né heldur dómaniðurstöður Evrópudómstólsins.

Í skjalinu um hlutverk samningahópsins er textinn þessi:

” · að íslensk lög og reglur um opinbera almannaþjónustu og framkvæmd hennar verði tekin til skoðunar svo að tryggja megi sem frekast er unnt að lagaumhverfi ESB hafi ekki áhrif á sjálfstætt ákvörðunarvald stjórnvalda til að skipuleggja og fjármagna opinbera almannaþjónustu;

Hér hefur með öðrum orðum verið sleppt tveimur mikilvægum atriðum:

Annars vegar þeirri ábendingu utanríkismálanefndar að það geti verið nauðsynlegt að setja sérstök (ramma-) lög um almannaþjónustuna á Íslandi, til að verja sjálfstæði íslenskra íslenskra stjórnvalda til að ákveða hvernig almannaþjónusta er skipulögð og fjármögnuð,

-og hins vegar að þessi vörn taki ekki aðeins gegn gildandi lagaumhverfi ESB, heldur einnig til hugsanlegra dómaniðurstaðna Evrópudómsstólsins sem geta haft neikvæð áhrif á sjálfstæði stjórnvalda til að skipuleggja og fjármagna hið norræna form opinberrar almannaþjónustu. Þetta sést betur þegar tilvitnaður texti utanríkismálanefndar er skoðaður nánar. Þar segir:

“Meiri hlutinn telur að sama skapi ekki síður mikilvægt að Ísland gæti þess að ekki verði lengra gengið í samræmingu reglna á sviði almannaþjónustu og haldi því t.d. fast á lofti að hugsanleg samræming á reglum um þjónustu hafi ekki áhrif á það rekstrarform sem ríki kunna að velja sér á almannaþjónustu af þessu tagi. Gjalda ber varhug við að eitt rekstrarform verði tekið umfram annað í reglum ESB, enda segir í þeim að framkvæmdastjórn ESB sé hlutlaus hvað varðar rekstrarform almannaþjónustu. Á sama tíma þurfa reglur að vera skýrar og afmarkaðar þannig að dómstóll ESB geti ekki snúið þeim gegn þeim meginmarkmiðum sem reglunum er ætlað að ná.”

Það krefst að sjálfsögðu sjálfstæðrar skoðunar að finna út hver í utanríkisráðuneytinu hefur tekið sér Bessaleyfi að breyta samþykktum Alþingis með þessum hætti – eða hver innan ráðuneytisins hefur gefið sérstaka heimild til þess – að Alþingi forspurðu.

Undarleg sýn utanríkisráðherra á opinbera almannaþjónustu

Þegar utanríkismálanefnd Alþingis skilgreinir ákveðið fyrirkomulag á opinberri almannaþjónustu og sjálfstæði stjórnvalda gagnvart ESB til að skipa þar málum, sem meginhagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við ESB, þá getur ekki annað verið en að ákveðinn almennur skilningur hafi verið í huga Alþingis á því hvað flokkast undir hið norræna form opinberrar almannaþjónustu. Það er samkvæmt hefð og almennum málskilningi, þjónusta á borð við heilbrigðisþjónustu, menntamál, félags- og velferðarþjónustu, orkumál, vatnsveitur, bókasöfn og svo framvegis. Og því má velta fyrir sér í framhjá hlaupi hvort, í ljósi undangenginna samfélagsbreytinga, ekki væri rétt að telja banka, sem nú eru í eigu ríkisins, þar á meðal. Má ætla að sáttmáli ríkisstjórnarflokkanna gefi mönnum nokkra vísbendingu um innihald og eðli slíkrar opinberrar almannaþjónustu sem er hornsteinn velferðarþjóðfélagsins, en þar segir m.a. :

Í nýafstöðnum kosningum veitti meirihluti kjósenda jafnaðarmönnum og félagshyggjufólki skýrt umboð til að halda áfram og leiða til öndvegis ný gildi jöfnuðar, félagslegs réttlætis, samhjálpar, sjálfbærrar þróunar, kvenfrelsis, siðbótar og lýðræðis. Ný ríkisstjórn starfar með þessi gildi að leiðarljósi í því skyni að skapa norrænt velferðarsamfélag á Íslandi, þar sem almannahagsmunir eru teknir fram yfir sérhagsmuni.”

Utanríkisráðuneytið virðist hins vegar hafa allt aðra og þrengri sýn á hvað telst vera opinber almannaþjónusta. Eins og fyrr segir skiptir ráðuneytið upp þeim meginmarkmiðum sem sett skulu í aðildarviðræðunum í samræmi við áliti meirihluta utanríkismálanefndar, á samningahópana og síðan nánar, þannig að tilgreint er hvað meginhagsmunamál falla undir sérhvern eða sérhverja kafla.

Eina samningahópnum sem er upp á lagt að passa sérstaklega upp á þá skilgreindu meginhagsmuni Íslands er varða almannaþjónustu, er hópurinn “EES II, félagsmál, þjónustu, fjárfestingar, umhverfismál o.fl” - og þá aðeins hvað varðar að undirbúa samningsmarkmið um kafla 19 – og svo segir reyndar að þetta snerti kafla 3 – að hluta og er þá væntanlega helst átt við þjónustutilskipunina. Hópnum er síðan uppálagt að fylgja öðrum tilgreindum markmiðum, hvað aðra kafla varðar, við undirbúning samningsafstöðu Íslands. (Þannig er hópnum uppálagt að vera á vaktinni varðandi takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi og vegna jarðakaupa í fjórða kafla og í 27 kafla er rætt um mögulegar undanþágur í umhverfismálum. Hvað aðra kafla er undir hópinn falla er einungis talað um að halda í þær undanþágur sem fengist hafa í gegnum EES-samninginn.)

Um hvað fjallar “kafli 19”? Heiti kaflans er “Félagsmála- og atvinnustefna.” Undirfyrirsögn er: “Reglur sem varða lágmarksviðmið á sviði atvinnuréttar, jafnréttis, heilbrigðis og öryggis á vinnustöðum og bann við mismunun falla undir þennan kafla.”

Í greinargerð samningahópsins er efni 19 kafla skilgreint svo:

Efni kafla

Kafla 19 hefur verið skipt í sjö undirkafla:

  1. 1. Vinnuréttur.

  2. 2. Aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

  3. 3. Félagslegar viðræður (e. social dialogue).

  4. 4. Vinnumarkaðsstefna og Evrópski félagsmálasjóðurinn

  5. 5. Félagsleg aðlögun, þar á meðal fatlað fólk.

  6. 6. Félagsleg vernd.

  7. 7. Jöfn meðferð manna og jafnrétti kynja. “

Það verður því tæplega sagt að umfjöllunarefni 19 kafla sé í nánd við að ná utan um opinbera almannaþjónustu, þó ekki sé gert lítið úr mikilvægi kaflans að öðru leyti. Þegar fundargerðir/fundafrásagnir samningahópsins eru skoðaðar hvað varðar kafla 19 og 3 (kafli 3 fjallar um staðfesturétt og þjónustufrelsi) er þar heldur hvergi að finna neina umfjöllun um almannaþjónustuna sem slíka, satt að segja er orðið almannaþjónusta og sérstakir hagsmunir henni tengdir, hvergi nefndir. Þar er hvergi að finna neinu umræðu um sjálfstæða skoðun á íslensku lagaumhverfi, sem miði að því að tryggja sjálfstæði íslenskra stjórnvalda gagnvart löggjöf ESB og Evrópudómsstólnum, né virðist slík skoðun ekki hafa farið fram. Því síður hefur samningahópurinn reifað hugmyndir eða kynnt tillögur um sérstök lög um almannaþjónustu í þessum tilgangi.

Blindur samanburður – skortur á sjálfstæðri skoðun

Hópurinn virðist hins vegar hafa starfað atorkusamlega við að bera saman íslenska löggjöf við löggjöf ESB í því augnamiði að finna gloppur, þar sem á skortir að íslensk löggjöf sé í takt við hina evrópsku. Það er almennt markmið hinnar svokölluðu rýnivinnu og á ekkert sammerkt með því markmiði sem meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis taldi “afar mikilvægt” og snerist um “að verja hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu”. Sem dæmi um þann vinnuanda sem fylgt hefur verið má taka tilvitnun úr fundargerð hópsins frá 16. mars 2009, en þar er verið að fjalla um vinnu hópsins hvað varðar kafla 2 (frjáls för vinnuafls) og kafla 19.: “FEL langt komið að rýna og telja lítil vandamál séu í köflunum. Gerðir og löggjöf eru að langmestu innleidd.” Í fundargerð hópsins frá 25. mai 2010 segir: “Efnahags- og viðskiptaráðuneytið kynnir drög að greinagerð vegna 3. kafla. Engin rýniblöð voru gerð vegna kaflans þar sem kaflinn heyrir allur undir EES-samninginn.” Reyndar segir í beinu framhaldi af þessu að þjónustutilskipunin hafi verið rædd og tilskipun um útsenda starfsmenn og að hagsmunaaðilar hafi sent inn athugasemdir. En síðan er ekkert meira lagt út af því!

Aðaláherslan, ef ekki eina áherslan, virðist því hafa verið á hreina rýnivinnu, þ.e. beinan samanburð um hvað ber á milli löggjafar Íslands og ESB. Á því stigi virðist áhyggjur manna fremur beinast að því hvernig megi aðlaga íslenska löggjöf að ESB, fremur en að skoðað sé hvaða kröfugerð sé eðlileg. Síðan bera skjöl með sér að þaðan hafi hópar undið sér beint í samningu greinagerða og upp úr þeim hafi síðan samningsmarkmiðin (að því marki sem þau eru þegar komin fram) verið soðin. Það skortir m.ö.o. á heildstæða og gagnrýna skoðun og samanburð svo hægt hafi verið að móta sjálfsstæð samningsmarkmið í anda vilja Alþingis.

Búið að loka átta köflum – sem snerta almannaþjónustuna

Hafi það einhvern tíma verið ætlunin að móta sjálfstæða samningsafstöðu Íslands hvað almannaþjónustuna varðar, er augljóst að skoða hefði þurft með skipulegum og samræmdum hætti fyrirfram alla 35 kafla samningsins er beint og óbeint varða almannaþjónustuna, bæði áður en rýniferlið hófst og á meðan á því stóð og svo við gerð samningsafstöðu Íslands. Því miður virðist þess ekki verið gert og er t.d. búið að loka átta köflum er snerta almannaþjónustu á einn eða nnan hátt og geta skilyrt sjálfstæði stjórnvalda til að skipuleggja og fjármagnað hana. Þetta eru kaflarnir um frjálsa för vinnuafls (2) en deilur vegna félagslegra undirboða á vinnumarkaði hafa ekki síst átt rætur að rekja til þessa kafla, félagaréttur, (6) þar sem m.a. eru ákvæði um bókhald fyrirtækja í almannaþjónustu, hugverkaréttur (7) en mjög hefur verið tekist á um réttindi einkaaðila á þessu sviði gagnvart almannahagsmunum, Atvinnu- og iðnstefna (20), Evrópsk samgöngunet (21), sem snertir m.a. öll grunnvirki í samgöngum og orkunet. Stefna ESB í raforkumálum hefur leitt til einkavæðingar, fákeppni, hækkaðs verðs, minna afhendingaröryggis og fækkunar starfsmanna, Réttarvarsla og grundvallarréttindi (23), Vísindi og rannsóknir , Menntun og menning (26) en þjónustutilskipunin seilist m.a. inn á þetta svið.

Þá hafa verið opnaðir mikilvægir kaflar eins og kafli 5 um opinber innkaup, en sá kafli varðar mjög miklu um hvaða kröfur hið opinbera getur gert til birgja varðandi umhverfismál og félagslega þætti, að kjarasamningar séu virtir o.fl.. Þrátt fyrir það eru engar kröfur gerðar til ESB á þessu sviði. Samþykkt hafa verið samningsmarkmið og kaflar opnaðir um Upplýsingatækni og fjölmiðlun og um Framlagsmál (33) en hér er samþykkt að fallast á reglur ESB um hver kostnaður Íslands af aðild muni verða. Allt eru þetta kaflar er færa má rök fyrir að snerti með einum eða öðrum hagsmuni almannaþjónustunnar.

Vandkvæði vegna kaflauppskiptingar ESB þegar kemur að almannaþjónustu

Það má auðvitað segja að samninganefndum Íslands sé ákveðinn vandi á höndum þegar kemur að því að verja þá skilgreindu hagsmuni er liggja í að verja hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu, þar sem kaflauppskipting sú sem ESB hefur ákveðið að hafa á í viðræðunum, tekur ekkert tillit til slíkrar heildstæðrar umfjöllunar. Ákvæði sem snerta almannaþjónustuna með beinum eða óbeinum hætti liggja á víð á dreif í flestum, og þegar nánar er skoðað, sennilega öllum köflum samningaviðræðnanna. Það firrir utanríkisráðherra, sem skv. stjórnarskrá ber stjórnskipulega ábyrgð á viðræðunum, að sjálfsögðu ekki af ábyrgð á því, að fara að tilmælum Alþingis og vinna sjálfstæða greiningarvinnu á því hvaða þjónusta telst falla undir hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu, hvað skilyrði þarf að uppfylla svo hægt sé að framfylgja því fyrirkomulagi og í framhaldi af því hvaða kröfur þarf að gera á hendur ESB svo það sé gerlegt. Um það fékk utanríkisráðuneytið eða framkvæmdavaldið skýr fyrirmæli frá Alþingi:

Telur meiri hlutinn nauðsynlegt að íslensk lög og reglur um opinbera almannaþjónustu og framkvæmd hennar verði tekin til skoðunar, t.d. með sérstökum lögum um almannaþjónustu, svo að tryggja megi sem frekast er unnt að lagaumhverfi ESB hafi ekki áhrif á sjálfstætt ákvörðunarvald stjórnvalda til að skipuleggja og fjármagna opinbera almannaþjónustu, né heldur dómaniðurstöður Evrópudómstólsins.

Tók Alþingi sérstaklega fram að væri ætlunin að hverfa að einhverju leyti frá fyrirmælum þessum yrði að taka slík frávik til umræðu á Alþingi. Ábyrgð utanríkisráðherra er skýr hvað þetta varðar.

Hvaða viðurlög, ef einhver, kunna síðan að vera við því að fara á svig við þessu skýru tilmæli er hins vegar löglærðari manna að kveða upp um. Fer það kannski eftir því hvaða viðbrögð utanríkisráðherra sýnir og hvort hann, undir leiðsögn Alþingis, einhendir sér nú í þá vinnu sem sannanlega hefur ekki verið framkvæmd.

Opinber almannaþjónusta

Hið norræna form opinberrar almannaþjónustu hefur önnur markmið og er byggð á öðrum grunni en almennur rekstur í hagnaðarskyni. Opinber almannaþjónusta hefur að leiðarljósi almannahagsmuni og hagsmuni samfélagsins þar með. Hún er byggð upp með langtímamarkmið í huga, en ekki með því markmiði að hámarka fjárhagslegan gróða eigenda á sem skemmstum tíma.

Breytingar sem hafa í för með sér að opinber almannaþjónusta er færð yfir á forsendur markaðarins, þ.e.a.s. að þjónustan verði byggð á arðsemissjónarmiðum og aðeins þeir sem hafi greiðslugetu fái að njóta hennar myndi gerbreyta eðli samfélagsgerðarinnar. Áherslan færðist frá því, sem stundum er nefnt hið norræna velferðarkerfi, yfir í kerfi þar sem markaðsöflin hafa mun sterkari ítök við veitingu þeirrar þjónustu, sem við þekkjum í dag sem opinbera almannaþjónustu og velferðarþjónustu. Dæmi um hið síðarnefnda er t.d. uppbygging og veiting þessarar þjónustu í Bandaríkjunum, þar sem stór hluti þjóðarinnar hefur ekki efni á að kaupa sér tryggingar hjá einkareknum tryggingafélögum, sem stilla alla skilmála af, ekki svo að hagmunir borgaranna og þar með samfélagsins séu sem best varðir, heldur svo að hagnaður fyrirtækjanna í þágu hluthafa sé sem allra mestur á hverjum tíma. Þegar samningahópar Íslands skoða því hvernig best má verja hagmuni opinberar almannaþjónustu á Íslandi, þarf því að skoða alla samninga sem geta snert grunnuppbyggingu og fjármögnun þjónustunnar.

Að sjóða froskinn yfir hægum hita...

En slagurinn snýst ekki bara um hvort opinber almannaþjónusta er færð markaðinum í hendur með sölu opinberra eigna og einkavæðingu. Breytingarnar sem um er að ræða er oft “fíngerðari” en svo, en engu að síður afdrifaríkar. Markaðsvæðing hinnar opinberu almannaþjónustu hefur átt sér stað, hægt og sígandi, og ekki síst verið drifin áfram af hugmyndafræði nýfrjálshygjunnar. Síauknar kröfur um útboð verkefna á almennum markaði, aukin greiðsluþátttaka almennings, hlutafélagavæðing ríkisfyrirtækja, einkaframkvæmdir og aðrar útgáfur af “samvinnu” einkafyrirtækja og opinberra og breyttir stjórnunarhættir innan almannaþjónustunnar hafa gert mörkin milli hinnar opinberu almannaþjónustu og fyrirtækja reknum á markaðsforsendum sífellt ógreinilegri. Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hefur fundið opinberum rekstri allt til foráttu og iðulega haft þær lausnir einar við vandamálum hinnar opinberu almannaþjónustu að einkavæða eða innfæra stjórnunarhætti einkafyrirtækja. Sú þrönga nálgun hefur iðulega haft neikvæð áhrif á eðlilega framþróun opinberrar þjónustu, komið í veg fyrir samvinnu á milli opinberra aðila og takmarkað skilvirkni og nýsköpun. Til að átta sig á því jákvæða samfélagslega afli sem opinber almannaþjónusta getur verið þarf ekki annað en að skoða sögu Norðurlanda eða Bretlands upp úr síðari heimsstyrjöld.

Afleiðingin er því sú að grafið hefur verið undan hinni opinberu almannaþjónustu sérstaklega þeirri tegund sem kölluð er hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu. Það má til sanns vegar færa að sá gröftur hefur ekki allur verið á ábyrgð Evrópusambandsins og löggjafar þess. Innlend stjórnvöld í hverju landi hafa verið fullfær um að eyðileggja innviði hinnar opinberu almannaþjónustu á eigin spýtur og er ríkisstjórn Margrétar Thatcher og svo ríkisstjórn Tony Blair skýr dæmi um það. Hér hafa íslensk stjórnvöld í gegnum tíðina augljóslega sína ábyrgð að bera, en nú búum við við ríkisstjórn sem kennir sig við vinstri stefnu og hefur sem eitt af sínum helstu stefnumálum að efla hið norræna velferðarkerfi. Það má því gera kröfur til hennar í samræmi við það.

Önnur afleiðing er að hin markaðssýrða opinbera almannaþjónusta færist sífellt nær því að vera skilgreind sem þjónusta á markaði, sem fellur undir löggjöf innri markaðs ESB. Einkaaðilar láta sífellt reyna á þær sprungur sem þannig myndast á skel hinnar opinberu þjónustu og vísa málum til Evrópudómsstólsins eða ESA. Og það hefur ekki alltaf verið auðvelt að segja fyrir um á hvaða forsendum Evrópudómsstólinn hefur byggt málatilbúnað sinn á. Það hefur þó gætt æ ríkari tilhneigingar á seinni árum að dómstólinn leggi fjórfrelsið eitt til megingrundvallar, þó honum hafi verið margar aðrar lögfræðilegar leiðir færar. Um það vitna til dæmis Viking, Laval, Luxemborgar og Rüffert dómarnir. Þar var gengið gegn áliti ríkisstjórna og þekktra lögspekinga, sem og langgrónum hefðum á vinnumarkaði. Sú afstaða Evrópudómsstólsins þarf reyndar ekki að koma á óvart, því ólíkt öðrum dómsstólum hefur Evrópudómsstólinn sérstöku hlutverki að gegna, sem kemur síðan beint fram í dómaframkvæmd hans. Hann hefur sem sagt það hlutverk að vernda grundvallarsáttmála Evrópusambandins og því falla dómar hans iðulega gegn þeim sem með einum eða öðrum hætti ganga gegn eða ógna þeirri undirstöðu.

Hluti af því að verja stöðu almannaþjónustu á Íslandi er því að fara yfir íslenska löggjöf um almannaþjónustu, tryggja að skírt sé kveðið á um forræði hins opinbera yfir henni í hverju tilfelli, kanna með hvaða hætti þjónustan hefur verið markaðsvædd og meta hvaða áhrif það hefur gagnvart löggjöf ESB.

ESB og frjálshyggjan

Evrópusambandið á sínar rætur í efnahagsbandalagi þar sem kjarni hugmyndafræðinnar var að efla viðskipti á grundvelli samkeppni á markaði. Á síðustu þrjátíu árum hefur löggjöf ESB svo mótast æ meir af þeirri ríkjandi hugmyndafræði sem nýfrjálshyggjan er og hefur löggjöf og dómaframkvæmd tekið æ meiri mið af henni. Í stuttu máli má segja að fjórfrelsið hafi orðið að DNA eða ráðandi erfðaefni Evrópusambandins og að öll önnur löggjöf með einum eða öðrum hætti hafi þurft að beygja sig undir þann klafa. Samkeppnislöggjöfin hefur verið ráðandi og þegar sú trú hefur verið við lýði að markaðurinn skili bestum árangri á öllum sviðum, þá hefur farið saman sterk tilhneiging til að færa hina opinberu almannaþjónustuna út á markaðinn eða breyta lögum á þann veg að dregið hefur úr afli hennar á sama tíma og taumur einkarekstar er dreginn. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur oft verið gagnrýnd fyrir að hafa tileinkað sér hugsunarhátt nýfrjálshyggjunnar og því að vera mjög opin fyrir þrýstingi hagsmunaaðila eins og alþjóðlegra stórfyrirtækja. Því miður fer framkvæmdastjórnin ein með löggjafarvaldið innan ESB. Löggjöf eins og samkeppnislög, lög um opinber innkaup og ríkisaðstoð eru skýr merki þessa og hafa oft verið kölluð spennitreyja hinnar opinberu almannaþjónustu.

Það er þess vegna sem að ríkisstjórn Íslands, sem vill verja og efla hið norræna velferðarkerfi og opinbera almannaþjónustu, þarf að átta sig á að það verður ekki gert með því að taka eins og hverju náttúrulögmáli þeirri spennitreyju sem ESB hefur viljað klæða hina opinberu almannaþjónustu í. Og því þarf að tryggja að hin tiltölulega skýra stefnumótun Alþingis berist samninganefndum Íslands og öðrum þeim sem vinna að stefnumótun fyrir Íslands hönd með gerð samningsmarkmiða, til eyrna.

Kröfur verkalýðsfélaga og Evrópuþingsins

Það er hér sem að verkalýðhreyfingin í Evrópu, með Evrópusamband starfsfólks í almannaþjónustu, ESPU, í fararbroddi en dyggilega stutt af ETUC, hefur dregið víglínuna. Árið 2006, í kjölfar samþykktar þjónustutilskipunarinnar, hóf EPSU herferð fyrir því að fá samþykkta svokallaða lárétta tilskipun um almannaþjónustu. Markmið hennar var að draga skýr mörk milli hinnar opinberu almannaþjónustu, sem sinnir almannahagsmunum og svo markaðarins sem sinnir hagsmunum hluthafa. Var vonast til að slík tilskipun myndi aðskilja lagaumhverfi markaðarins og almannaþjónustunnar og almannaþjónustunni yrði hlíft við síauknum ágangi fyrirtækja inn á svið almannaþjónustunnar. Fengu verkalýðsfélögin mikinn stuðning frá hinum ýmsu frjálsu félagasamtökum, stjórnmálaflokkum og einstaklingum. Andstæðingurinn var framkvæmdastjórn ESB, sem fékkst ekki haggað. Án þess að rekja þá baráttu í löngu máli, þá sýna þessi átök nokkuð vel hvað við er að eiga þegar kemur að því að verja hagsmuni hins norræna forms opinberrar almannaþjónustu gegn regluverki ESB, dómaframkvæmd Evrópudómsstólsins og framkvæmdastjórninni sjálfri.

Í þessari baráttu gerðu nokkrir aðilar tilraunir til að skrifa drög að slíkri tilskipun um almannaþjónustuna. Tilgangurinn var m.a. að sýna að það væri vel framkvæmanlegt að skrifa slíka tilskipun, þar sem framkvæmdastjórn ESB neitaði að gera slíkt. Meðal þeirra aðila sem hver fyrir sig skrifuðu slík drög að tilskipun, voru ETUC, Evrópusamband verkalýðsfélaga, CELSIG (Evrópunefnd um almannaþjónustu) og PES, flokkasamsteypa sósialdemókrata á Evrópuþinginu. (Samfylkingin mun væntanlega ganga í þann hóp, verði af því að Ísland gerist aðili að ESB.) Þessar tilskipanir gengu mislangt en þær eiga það sameiginlegt að draga saman efnisatriði kröfu Alþingis, byggt á lögfræðilegri umgjörð ESB. Þær hljóta því að teljast til skyldulesningar fyrir samningahópa utanríkisráðuneytisins. Og hafi ríkisstjórn Íslands til þess áræði þá getur hún leitað og fundið sér gríðarlega sterka bandamenn innan ESB sem væru boðnir og búnir að tryggja framgang kröfu Alþingis um sjálfræði stjórnvalda til að byggja upp opinbera almannaþjónustu á norrænum grunni.

Það er því alveg ljóst að samninganefndir Íslands sem vinna að samningsmarkmiðum á sviði samkeppnismála og annarra þátta er snerta fjórfrelsið og því EES-samninginn, þurfa að bretta upp ermarnar og líta á samningsferlið með opnum augum.

Endurskoðun EES-samningsins kann að vera nauðsynleg

Þeir sem hafa viljað flýta aðildarviðræðunum sem mest, hafa mjög haldið því á lofti að Íslendingar geti farið á hraðferð í gegnum aðildarferlið, þar sem við höfum þegar gert EES- samninginn og því sé nánast formsatriði að loka þeim 22 köflum sem þar falla undir. Þeirra á meðal eru kaflar er varða fjórfrelsið og fleiri kaflar er hafa áhrif á hið norræna form opinberrar almannaþjónustu. Þetta er grundvallar misskilningur. Það eru allir kaflar opnir og til umræðu, líka þeir sem falla undir EES-samninginn. Það sem meira er, þá eru sjálfir grunnsáttmálar ESB opnir þegar um er að ræða inngöngu nýs ríkis í ESB. Um það segir í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis:

Meiri hlutinn áréttar að samningur um aðild ríkis að ESB jafngildir hefðbundnum sáttmála ESB og með slíkum samningi er því unnt að breyta stofnsáttmála og síðari sáttmálum ESB. Það er nauðsynlegt þar sem færa þarf inn í sáttmála ESB-reglur er lúta að stöðu nýs aðildarríkis innan stofnana ESB, svo sem um fjölda þingsæta á Evrópuþinginu. Þannig felur aðildarsamningur þegar af þeirri ástæðu í sér breytingar á stofnsáttmálum ESB.

Þetta þýðir að til þess að fylgja eftir þeim meginhagsmunum Íslands sem Alþingi hefur sett sem forsendur aðildarviðræðnanna við ESB, ber utanríkisráðuneytinu og samninganefndunum skylda til að greina nákvæmlega og með heildstæðum hætti í hverju þeir hagsmunir eru fólgnir og gera kröfur í viðræðunum við ESB til samræmis, óháð því hvort það kallar á endurskoðun á EES-samningnum eða jafnvel kröfur um breytingar á stofnsáttmálum ESB.

Af hverju þetta kæruleysi?

Að lokum lestri þessarar greinar kann að vera að einhverjum lesanda kunni að finnast að utanríkisráðuneytið og Alþingi, sem á nú einu sinni að fylgjast með allri samningagerðinni, að ekki sé talað um ríkisstjórnina sjálfa, hafi verið full kærulaus um framgang þess sem Alþingi hefur eyrnamerkt sem meginhagsmuni landsins. Kunna að vera einhverjar skýringar á þessu kæruleysi, aðrar en yfirgnæfandi vilji ákveðinna afla að ganga í ESB sem allra fyrst? Það kann vissulega að vera skýringin ásamt því að samninganefndirnar hafi ekki nægilega yfirsýn eða kunnáttu til að takast á við verkið. En það kann líka að vera að forsvarsmenn samningaviðræðnanna telji öllu óhætt með ofangreinda markmiðssetningu um að tryggja eigi sjálfstæði okkar til að skipuleggja okkar eigin almannaþjónustu eftir eigin höfði. Sú skoðun kann að eiga tvær rætur; annars vegar að þeir telji okkur best borgið innan ESB því þar sé allt á besta veg og því ekki ástæða til að hafa áhyggjur. Eða þá að þeir telja að við höfum nægar tryggingar fyrir því að sjálfstæði okkar sé í engu ógnað. Burtséð frá þeirri spurningu af hverju Alþingi var þá nokkuð verið að hafa fyrir því að brýna fyrir samninganefndunum að passa sérstaklega upp á þetta meginhagsmunamál þjóðarinnar og burtséð frá öllum þeim átökum sem hafa átt sér stað í Evrópu og feikimiklum skrifum, fræðilegum sem pólitískum um málið, þá kann sú skoðun að eiga sér tvennar orsakir helstar. Önnur er fyrirvari Alþingis og ríkisstjórnarinnar við þjónustutilskipunina, hinn er greinargerð í kafli meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis, þar sem sagt er frá yfirlýsingu leiðtogaráðsins vegna kosninga á Írlandi um Lissabon-sáttmálann frá 19. júní 2009.

Fyrirvari við þjónustutilskipunina

Þjónustutilskipunin er sennilega ein allra umdeildast tilskipun ESB, amk. fram að yfirvofandi samningi ESB um “fjármálapakkann”. Tilskipunin var útfærsla ESB á þeim þætti fjórfrelsins sem snýr að þjónustu. Verkalýsðhreyfingin í Evrópu snerist öndverð gegn tilskipuninni, sem hefði sett réttindabaráttu hennar 100 ár aftur á bak í tímann, hefði verið samþykkt óbreytt í upphaflegu formi. Hú var þó áfram umdeild eftir að hún var samþykkt í árslok 2006 og í kjölfarið komu hinir umdeildu dómar Evrópudómsstólsins um Laval, Viking, Rüffert og Luxemborg. BSRB barðist hart á móti, ASÍ fannst tilskipunin, eins og annað sem kemur frá ESB, bara ágæt. Engu að síður barðist Ögmundur Jónasson, þáverandi heilbrigðisráðherra hart gegn upptöku tilskipunarinnar, en fékk ó ekki við ráðið. Honum tókst þó að fá samþykktan eftirfarandi fyrirvara, sem er efnislega samhljóða fyrirvara sem Norðmenn höfðu við upptöku tilskipunarinnar. Þar í landi hafði LO staðið hart á móti, ekki síst vegna þess að samtökin töldu tilskipunina opna fyrir félagsleg undirboð.

138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 862 — 396. mál.

Við upptöku þjónustutilskipunarinnar (2006/123/EB) í EES-samninginn er minnt á af
hálfu Íslands að tilskipunin hefur m.a. ekki áhrif á ráðningarskilmála og -skilyrði, samskipti
milli aðila vinnumarkaðarins, réttinn til þess að semja um og ganga frá kjarasamningum og
grundvallarréttindi, s.s. verkfallsréttinn og réttinn til að grípa til aðgerða á vinnustað. Þjónustutilskipunin
hefur ekki áhrif á vinnulöggjöf eða þríhliða samvinnu verkalýðsfélaga, vinnuveitenda
og stjórnvalda.
Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að hin víðtæka samstaða meðal Íslendinga um að gera
áætlanir um aðgerðir, svo og viðeigandi ráðstafanir, sem miða að því að standa vörð um réttindi
innlendra og útsendra starfsmanna og góðan aðbúnað á vinnustöðum, stríði ekki gegn
þjónustutilskipuninni. Þær ráðstafanir geta m.a. náð yfir skilvirkt kerfi um almenna beitingu
kjarasamninga og innleiðingu sameiginlegrar ábyrgðar verktaka og undirverktaka til þess að
tryggja að réttindi vinnandi fólks séu virt.
Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að það verði áfram á valdsviði innlendra yfirvalda – á
öllum stigum stjórnsýslunnar, ríkisvalds og sveitarstjórna – að ákvarða í hvaða mæli hið
opinbera skuli veita þjónustu, hvernig hún skuli skipulögð og fjármögnuð og hvaða sérstöku
kvaðir skuli gilda um slíka opinbera þjónustu.“

Fyrirvarinn er vissulega betri en enginn og kostaði átök að fá hann samþykktan. Hins vegar er hann ekki mjög sterklega orðaður: Það er “lögð áhersla á...” og síðan segir ekkert fast um hvað gerist ef gengið er gegn honum. Það fer vissulega eftir vilja og getu stjórnvalda til að berjast fyrir málstaðnum. En því miður er komin reynsla á að sá vilji og geta var ekki mjög mikill þegar á reyndi. Tilskipunin um útsenda starfmenn, sem beint er vísað til í fyrirvaranum, var kynnt sem trygging fyrir því að áhrif þjónustutilskipunarinnar yrðu ekki jafn slæm og af var látið. Sú tilskipun átti að tryggja að starfsmenn, sem sendir voru til starfa í erlendis, nytu launa og réttinda að lágmarki á við heimamenn. Því átti ekki að vera hætta á félagslegum undirboðum. Í meðförum Evrópudómsstólsins var þessu snúið á haus; það sem átti að tryggja að erlendir starfsmenn fengju amk lágmarkslaun, urðu að hámarkslaunum. Með öðrum orðum þá var enginn atvinnurekandi skyldugur til að greiða erlendum launamanni hærri laun en lágmarkslaun og verkalýðfélög máttu ekki berjast fyrir að hann fengi hærri laun en umsamin lágmarkslaun. Þar með voru félagsleg undirboð nánast lögleidd í ríkjum ESB.

ASÍ hafði alltaf talað um að það væri engin hætta á að afleiðingarnar yrðu þessar á Íslandi og tóku þátt í samningu nýrra laga 2007, sem átti að tryggja erlendum verkamönnum mannsæmandi laun og réttindi á Íslandi. ESA-dómstóllinn kollvarpaði þeim lögum, m.a. með tilvísun í þjónustutilskipunina í apríl 2011. Meira hald var ekki í fyrirvaranum þá.

Úr greinagerð í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis

Í frásögn sem finna má í áliti meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis af yfirlýsingu Leiðtogaráðs Evrópu, sem gefin var í tilefni af að Írar höfðu fellt Lissabon-sáttmálann og til stóð að fá þá til að samþykkja hann í annarri umferð, segir:

Í þessu samhengi er mikilvæg yfirlýsing leiðtoga ESB, sem er að finna í lokaskjali frá fundi þeirra nýverið, þar sem áréttuð eru ýmis grundvallaratriði þessu tengd. Þar er staðfest áhersla sambandsins á félagslega velferð og réttindi launþega, almannaþjónustu og rétt yfirvalda (ríkis og sveitarfélaga) til að skipuleggja og veita þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu.”

Þetta má skilja á þann veg að við höfum í raun tryggingu Leiðtogaráðsins fyrir því að yfirvöld hafi rétt til að skipuleggja og veita þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Með öðrum orðum er engin ástæða til að hafa áhyggjur og engin ástæða til að berjast fyrir því markmiði sem utanríkismálanefnd setti er í næstu málgreinum þar á undan.

Um þetta má segja a.m.k. þrennt: Í fyrsta lagi er enginn skortur á fallegum orðum eða fögrum fyrirheitum í mörgum textum frá ESB. En það má misskilja frásögnina í texta meirihluta utanríkismálanefndar. Það er munur á því orðalagi sem er í textanum eftir því hvort er verið að fjalla um almannaþjónustu af efnahagslegum toga (SGEI) eða þá almannaþjónustu sem ESB telur í reynd ekki vera “þjónustu” (SGI), eða eins og segir í yfirlýsingunni:

include, as a shared value of the Union, the essential role and the wide discretion of

national, regional and local authorities in providing, commissioning and organising

services of general economic interest as closely as possible to the needs of the users;

do not affect in any way the competence of Member States to provide, commission and

organise non-economic services of general interest;

Í seinni flokknum (SGI) hafa aðildarríkin “competence”, þ.e. þau ráða þvi ein hvernig þau haga málum, í fyrri flokknum, þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu (SGEI), er talað um “wide discretion”, þ.e. aðildarríkin hafa “vítt svigrúm” til sjálfstjórnar, en það er alls ekki án skilyrða. Það er því misvísandi, eða það má a.m.k. misskilja texta utanríkismálanefndar á þann veg að Leiðtogaráðið hafi lýst því yfir að aðildarríki hafi skilyrðislausan “rétt” til að skipuleggja og veita þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Sá réttur er skilyrtur af samkeppnislögum, lögum um ríkisaðstoð o.s.frv.

Í öðru lagi er þessi yfirlýsing sem slík ekki lagalega bindandi á nokkurn hátt. Prófessor Steve Peers við háskólann í Exess telur þó hugsanlegt að Evrópudómstólinn kunni að líta til yfirlýsingarinnar í túlkun sinni ef viðeigandi mál koma fyrir dómstólinn.

Í þriðja lagi þá má taka Leiðtogaráðið á orðinu; ef þetta er allt klappað og klárt þá ætti það ekki að vera mikið vandamál fyrir samninganefndir Íslands að fá það staðfest, svona til öryggis, með fastri undanþágu frá öllum viðeigandi sáttmálum og lagatextum. En það verður þá auðvitað að láta á það reyna, annað væri ábyrgðarleysi.

Rammalög um íslenska almannaþjónustu

Það eru til nokkrar leiðir að því marki að sem Alþingi hefur sett varðandi almannaþjónustuna. Að Íslandi fái samþykktar breytingar á grundvallarsáttmálum ESB, að fá tímabundnar undanþágur, sem væri vart ásættanlegt í þessu tilfelli eða að berjast á heimavígstöðvum og að Alþingi setji upp lagaramma sem ver almannaþjónustuna – jafnvel með ákvæðum sem kalla á úrsögn úr ESB ef hann er brotinn. Kosturinn við slíkan lagaramma, sem Alþingi hefur reyndar kallað eftir í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar og einnig er kallað er eftir í greinagerð með nýjum þjónustulögum sem sett voru til að innleiða þjónustutilskipunina, er ótviræður. Í þeim ramma er hægt að koma fyrir öllum nauðsynlegum skilyrðum sem tryggi að almannaþjónusta verði veitt á lýðræðislegan hátt samkvæmt norrrænu módeli. Ramminn myndi tryggja lýðræðislega umræðu um málið og setja það í brennipunkt. Hann myndi síðan neyða ESB, nú á tímum aðildarviðræðnanna að gera við hann athugasemdir eða samþykkja hann. Og kosturinn er sá, þó svo ESB muni gera athugasemdir, að þá er hægt að halda uppi heildstæðri umræðu um almannaþjónustuna, í stað þess að hún sé í raun ekki til staðar eins og er í dag.

Það hefur verið sagt að efsta stig valds, sé valdið til að ráða þvi hvaða mál eru ekki á dagskrá. Það vald hefur ESB tekið sér í þessu máli. Nú er kominn tími til að Ísland taki sér vald til að setja málið á dagskrá.

-phh


Einingarlistinn í Danmörku krefst þjóðaratkvæðagreiðslu um fjármálamiðstýringu ESB

Einingarlistinn (Enhedslisten) krefst þess nú að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla í Danmörku um “fjármálapakkann” sem 26 ríki ESB hafa sameinast um. Einingarlistinn, sem er flokka lengst til vinstri á danska þinginu, styður minnihlutastjórn Helle Thorning-Schmidt. Deilur hafa verið um það í Danmörku hvort samþykkt fjármálapakkans kalli á breytingar á stjórnarskrá í Danmörku og þar með á þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni ESB eru, eins og kunnugt er, það sem leiðtogar ESB óttast öðru fremur, enda er á þeim litið á slíkar lýðræðisæfingar sem ónauðsynlegar og til trafala. Nicolai Wammen, Evrópuráðherra sósialdemókrata segir nú að þjóðaratkvæðagreiðsla sé ólíklegri í stöðunni en áður, Ástæða þess mun vera að Manuel Barrosso forseta framkvæmdastjórnar ESB hefur staðhæft að Danmörk muni ekki verða beitt sektum, öðrum íþyngingum né urfi landið að taka á sig nýjar skyldur, samþykki landið fjármálapakkann.

Farið á bak við kjósendur

Nicolaj Villumsen, talsmaður Einingarlistans segir hins vegar að það væri verið að fara á bak við kjósendur í Danmörku ef breyta ætti efnahagsstefnunni í landinu án þess að þeir fái að kjósa um málið. Segir hann að Helle Thorning-Schmidt hafi lofað kjósendum því að gefa efnahag landsins hressilega innspýtingu nú í upphafi kjörtímabilsins til að koma hjólum atvinnulifsins af stað á nýjan leik. Niðurskurðarhugmyndir ESB koma í veg fyrir slíkar efnahagsaðgerðir. Telur Nikolaj fráleitt að hætta við eitt helsta kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna, “bara af því að tveir leiðtogar borgaralegra ríkisstjórna í Þýskalandi og Frakklandi vilja eitthvað annað.”

Óttast vald kjósenda

Málið þykir vandræðalegt, ekki síst fyrir Sósialíska þjóðaflokkinn, SF, helsta keppinaut Einingarlistans á vinstri vængnum, sem hefur setið undir ásökunum um að hafa fórnað flestum stefnumálum sínum til að komast í ríkisstjórn. Beið flokkurinn afhroð í nýafstöðnum þingkosningum og tapaði 7 þingsætum á meðan að Einingarlistinn var helsti sigurvegari kosninganna og bætti við sig átta þingsætum. Ríkisstjórnarflokkarnir tveir eru þó studdir af öllum hægri flokkunum í þessu máli á danska þinginu, nema Danska þjóðarflokknum, og þykja því hafa vissan meirihluta verði málið afgreitt innan veggja Kristjánsborgar. Danska ríkisstjórnin óttast hins vegar, rétt eins og ríksistjórnarkollegar þeirra innan ESB, að leyfa almenningi að segja sína skoðun á “fjármálapakkanum”, en með honum er stigið stórt skref til aukins miðstjórnarvalds í höndum embættismanna framkvæmdastjórnar ESB – á kostnað lýðræðislegs valds almennings í aðildarríkjunum.


Beðið eftir svörum frá ráðherrum og formönnum

Í síðasta bloggi mínu setti ég fram nokkrar mikilvægar spurningar sem varða aðildarviðræðurnar við ESB út frá lýðræðislegu sjónarhorni. Ég nefndi enn fremur að þessum spurningum yrði varpað til forystumanna ríkisstjórnarflokkanna. Því sendi ég þann 8....

Hver ber ábyrgð á hugsanlegum samningi?

Í framhaldi af síðusta bloggi er rökrétt að spyrja um ábyrgð. Hver ber ábyrgð, fyrir Íslands hönd, á þeirri niðurstöðu sem hugsanlega næst fram í aðildarviðræðum Íslands og ESB? Ef að það er skilyrt af Íslands hálfu í upphafi leiks að niðurstöðu skuli...

Í upphafi skal endi skoða

Nú þegar svokallaðri rýnivinnu er lokið og efnislegar samningaviðræður hafnar við ESB, en formlega hófust þær á svokallaðri ríkjaráðstefnu þann 27.júní 2011, er nauðsynlegt að reyna að átta sig á hvaða hvar við, Íslendingar, stöndum með þessar viðræður....

Ég stend fast á stefnu VG

Ætlast til að samþingsmenn mínir í stjórnarliði virði þann sáttmála Viðtal við Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur sætt harðri gagnrýni frá Jóhönnu Sigurðardóttur , forsætisráðherra...

Hingað og ekki lengra!

Verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur fengið nóg og segir “hingað og ekki lengra!” við þeirri stefnu ESB að almenningur eigi að borga bönkunum fyrir þá kreppu sem þeir ollu. Í dag 30. nóvember lætur verkalýðshreyfingin, ETUC, Evrópusamband...

Út í djúpu laugina...

Það er ekki heiglum hent að kasta sér út í þann svelg umræðu um ESB sem nú, loksins, flýtur yfir alla bakka í íslenskum fjölmiðlum. Sú umræða líkist einna helst vorleysingum þar sem straumurinn ber með sér brak af ólíku tagi sem sumt marar í hálfu kafi...

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband