Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.1.2012 | 16:23
Yfirvaldið og undirsátarnir
Lýðræðisleg stjórntæki til varnar verkafólki
Ríkisstjórn Noregs, rétt eins og ríkisstjórn Íslands og stjórnvöldum í Neðra Saxlandi, hefur verið verið meðvituð um þann vanda sem opnun vinnumarkaðar Evrópu hefur haft í för með sér og hafa því stjórnvöld á hverjum stað reynt að tryggja réttindi launþega, bæði innlendra sem aðkomufólks, með setningu laga og markvissri beitingu reglna. Þannig hefur norska ríkisstjórnin gert það að kvöð við samninga vegna opinberra innkaupa, (frá janúar 2008) að verktökum eða öðrum launþegum sem greidd eru laun vegna slíkra samninga við hið opinbera, verði að vera tryggð sambærileg laun og tíðkist á viðkomandi svæði og í viðkomandi atvinnugeira. Lítur norska ríkisstjórnin á þær reglur sem innleiðingu á ILO-sáttmála nr. 94 sem norska ríkið hefur fullgilt. Að efni til tryggir sáttmálinn hið sama, þ.e. að við gerð verksamninga vegna opinberra innkaupa, verði verkafólki, sem og framleiðendum og dreifendum vöru og þjónustu , sambærileg kjör og viðgangast á sama landfræðilega svæði. (sjá http://www.regjeringen.no/nb/dep/nhd/dok/nou-er/1997/nou-1997-21/11/5.html?id=346651 ) Það sem er athyglisvert er að í samþykkt þessarar stofnunar Sameinuðu þjóðanna, ILO, er ekki talað um að tryggja lágmarkskjör heldur sambærileg kjör og landsvæðið er ekki endilega afmarkað við landamæri þjóðríkja heldur getur það verið annað og minna svæði.
Rüffert kúbeinið þrifið á loft
Röksemdir ESA ganga út á að einungis megi setja reglur um vinnumarkað heima fyrir, er fjalli með einhverjum hætti um útsenda starfsmenn, að þær hafi tilvísun í annað hvort heildstæða kjarasamninga er taki til landsins alls eða laga. Reglur sem grundvallast aðeins við opinber innkaup, uppfylli ekki slík skilyrði og séu því ekki leyfilegar.
Í Noregi verða verksamningar um opinber innkaup að innhalda klásúlur sem tryggi að verkamönnum séu tryggð laun og vinnuskilyrði sem séu engu síðri en sagt er fyrir um í heildstæðum kjarasamningum eða samningum sem að öðru leyti gilda fyrir svæðið og atvinnugreinina. Þetta telur ESA brjóta gegn tilskipuninni eins og Evrópudómstóllinn túlkaði hana í Rüffert-dómnum. (Sjá http://www.eftasurv.int/press--publications/press-releases/internal-market/nr/1480 ) Þannig notar ESA Rüffert dóminn sem kúbein til að brjótast inn á vinnumarkað í Noregi og grípa fram fyrir lýðræðislegar ákvarðanir og þjóðréttarlegar skuldbindingar Noregs gagnvart samningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.
Noregur með öll réttu svörin
Í svari sínu til ESA þann 15. nóvember sl. leggur norska ríkisstjórnin áherslu á mikilvægi þessara reglna til að koma í veg fyrir félagsleg undirboð. Telur ríkisstjórnin að opinberi geirinn hafi sérstökum skyldum að gegna við að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og arðrán á verkafólki. Segir ríkisstjórnin að reglur sínar styðjist við heimildarákvæði í tilskipun um opinber innkaup þess efnis að taka megi tillit til félagslegra þátta, auk þess sem með þeim séu innleidd ákvæði samþykktar ILO nr 94. Þar að auki vísar norska ríkisstjórnin til ályktunar Evrópuþingsins frá 25. október 2011um umbætur á tilskipuninni um opinber innkaup, þar sem Evrópuþingið krefst þess að tilskipun um opinber innkaup fylgi skýr yfirlýsing þess efnis að hún komi ekki í veg fyrir að ríki geti innleitt ákvæði samþykktar Alþjóða vinnumálasambandsins ILO nr 94. Tilskipunina um útsenda starfsmenn verði að túlka í ljósi tilskipunar um opinber innkaup og samþykktar ILO nr.94. (Sjá http://www.regjeringen.no/en/dep/ad/doc/andre/brev/utvalgte_brev/2011/response-from-the-norwegian-government-t.html?id=663257 )
Á að virða samninga Sameinuðu þjóðanna eða EES?
Það sem að er ekki síst áhugavert við þetta mál er að hér rekast á tvær þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Noregur hefur tekist á hendur, annars vegar gagnvart einni af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, Alþjóða vinnumálastofnuninni, en Noregur hefur fullgilt samþykkt ILO nr. 94 og hins vegar skuldbindingar gagnvart EES-samningunum, eins og þær hafa síðar verið túlkaðar af Evrópudómstólnum. Hanne Bjurstrøm (Ap) atvinnuráðherra Noregs var ómyrk í máli sl. sumar, þegar hótun ESA um að draga Noreg fyrir EFTA-dómsstólinn lá fyrir. Við viljum heldur styrkja regluverkið, en að veikja að. Það er mjög miður að við fáum slíka ákvörðun frá ESA, sagði Bjurstrøm þá.
Óttinn við yfirvaldið
Það er hins vegar talandi dæmi um ótta við Yfirvaldið að þrátt fyrir að hafa góðan og réttlátan málstað að verja, þá bakkar norska ríkisstjórnin nú og gerir breytingar á efni umræddrar reglugerðar. Og ekki verður betur séð en að óttinn við ESA hafi orðið viljanum til að fylgja samþykktum ILO yfirsterkari. Nú kveða reglurnar skýrt á um að það eru aðeins lágmarkslaun, eins og þau eru ákveðin í miðlægum kjarasamningum, sem þarf að virða. Í ILO samþykktinni er talað um sambærileg laun. Ekki er lengur vísað til að laun og vinnuaðstæður skuli vera sambærileg við það svæði og atvinnugrein sem við á, eins og er gert í ILO-samþykkt 94. Þá er tekið fram í nýju reglunum að aðeins verði miðað við þau atriði sem talin eru upp í tilskipuninni um útsent starfsfólk, samkvæmt gr 3.1 (lágmarkslaun, vinnutími, greiðslur fyrir ferðir, fæði og húsnæði).
Þannig leggst norska ríkisstjórnin niður fyrir Yfirvaldinu, en norsk yfirvöld hafa verið að bakka í þessu máli allt frá byrjun. Megn óánægja ríkið með málavöxtu innan verkalýðshreyfingarinnar en nú er beðið viðbragða ESA við svörum ríkisstjórnar Noregs.
Tilskipun um starfsmannaleigur næsta mál á dagskrá
Verkalýðshreyfingin í Noregi hefur hins vegar einbeitt sér að næstu sendingu frá ESB, sem er tilskipun um starfsmannaleigur. Fagforbundet hefur krafist þess að ríkisstjórnin beiti neitunarvaldi gegn tilskipuninni og í fyrradag (18.janúar 2011) efndu verkalýðsfélög vítt og breitt um Noreg til mótmæla gegn henni. Frá því verður sagt í næsta bloggi. Það er hins vegar hrópandi hversu ólík viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar í Noregi við sendingum frá Brussel, eru viðbrögðum kollega þeirra á Íslandi. Í Noregi er umræðan lífleg og gagnrýnin og henni fylgt eftir með aðgerðum. Hér heima, tja?
-phh
19.1.2012 | 15:08
Rüffert-dómurinn, lýðræðið og lágmarkslaun
Í skrifum hér á síðunni hefur verið leitast við að gera grein fyrir því hvernig Evrópudómstóllinn og EFTA-dómstólinn í kjölfarið, hafa nýtt dómsmál sem upp hafa komið, til þess að seilast inn á vinnumarkaði Evrópulandanna. Um leið hafa úrskurðirnir komið í veg fyrir að lýðræðislegar ákvarðanir stjórnvalda nái fram að ganga. Fjórfrelsið hefur með öðrum orðum forgang á aðra lagasetningu.
Einn hinna tímamótandi dóma er svokallaður Rüffert-dómur sem kveðinn var upp af Evrópudómstólnum í apríl 2008. Í dómnum er gripið fram fyrir hendur stjórnvalda í Neðra-Saxlandi sem höfðu reynt að koma í veg fyrir félagsleg undirboð í verkefnum á vegum hins opinbera. Rétt eins og í EFTA-dómnum gegn Íslandi, véfengir dómstólinn skilgreiningar stjórnvalda á hvað teljast lögleg/lögbundin lágmarkslaun. Með túlkun sinni á lögbundnum lágmarkslaunum í skilningi tilskipunarinnar um útsenda starfsmenn, kemur dómstólinn í veg fyrir að stjórnvöld geti krafist þess að verktakar sem starfa fyrir hið opinbera, greiði umsamin lágmarkslaun eins og þau gerast á vinnumarkaði hins opinbera. Þau lágmarkslaun, nái samkvæmt skilgreiningu, ekki til alls launamarkaðar í Þýskalandi og því eru þau ekki nothæf viðmiðun. Það er svo sem tilvísun í þennan dóm, sem að ESA er að reyna að knésetja stjórnvöld í Noregi og fá norsk stjórnvöld til að brjóta ILO-samþykkt 94. Ég mun gera nánari grein fyrir því máli í næsta bloggi.
Ég endurbirti því grein um Rüffert-dóminn sem ég ritaði sem alþjóðafulltrúi BSRB í apríl 2008 og er að finna á heimasíðu bandalagsins(http://www.bsrb.is/erlent/nr/1350/). Því er þó við að bæta, að í ljósi reynslunnar og niðurstöðu EFTA-dómsins gegn íslandi, er hreint ekki víst hver vörn er í lögum númer 55 frá 1980, sem kveða á um að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör. Eins og dæmin frá sanna, þá er alls ekki víst að skilningur Evrópudómstólanna á hvað teljist til launa eða lágmarkslauna, samræmist skilningi viðeigandi stjórnvalda heima fyrir. En hér kemur greinin:
Evrópudómstóllinn heggur í sama knérunn
Frelsi til að veita þjónustu framar öllu
Virðist dómstóllinn staðráðinn í að festa í sessi túlkun sem setur fjórfrelsið í fyrsta sæti, þ.e. réttinn til að veita þjónustu sbr. gr. 49. grein stofnsáttmála Evrópusambandsins um frjáls þjónustuviðskipti. Nú er þetta frelsi túlkað á þá lund að verkalýðsfélög hafa ekki rétt til að grípa til aðgerða til að verja umsamin lágmarkskjör (eins og gerðist í Laval - málinu), og nú bætist það við að lýðræðislega kjörin stjórnvöld megi ekki taka um það ákvörðun að hafa beri hliðsjón af kjarasamningum verkalýðsfélaga við útboð og samninga. Þá gerir dómurinn að engu ákvæði tilskipana á borð við þá sem gildir um opinber innkaup frá 2004 en sú tilskipun veitir opinberum aðilum svigrúm til að skilyrða samninga með ýmsum hætti. Enn skal þess getið að dómurinn virðir að vettugi eina af meginreglum Evrópusambandsins, nálægðarregluna, sem byggir á því að ákvarðanir eigi að taka í héraði, nema þær varði heildarhagsmuni Evrópusambandins.
Ólöglegt að virða kjarasamninga
Málsatvik eru nánar þau að Neðra-Saxland, eitt af sambandslöndum eða héruðum Þýskalands, gerir samning við byggingaverktakafyrirtækið Objekt und Bauregie GmbH um að reisa fangelsi. Í lögum Neðra-Saxlands um opinber innkaup er tekið fram að óheimilt sé að gera verksamninga við verktaka eða undirverkataka sem ekki taki mið af gildandi kjarasamningum á svæðinu, að viðlögðum sektum og tók umræddur samningur mið af þeim lögum. Objekt und Bauregie GmbH ræður hins vegar pólskan undirverktaka sem greiddi aðeins 46.57% af umsömdum lágmarkslaunum. Neðra-Saxland sagði þá upp samningnum og fór í mál fyrir héraðsdómstóli og krafðist að verktakar greiddu sektir. Héraðsdómstóllinn var hins vegar ekki viss í sinni sök og sendi því fyrirspurn til Evrópudómsstólsins um hvort frelsið til að veita þjónustu útiloki að opinber aðili beiti framangreindum skilyrðum hvað varðar skírskotun til gildandi kjarasamninga á svæðinu. (Hér er um svipað ferli að ræða og átti sér stað í Laval málinu, þ.e. dómstólar heima fyrir veigra sér við að kveða upp dóma, en vísa spurningum þess í stað til Evrópudómsstólsins.)
Evrópudómstóllinn kemst síðan að þeirri niðurstöðu að sett skilyrði séu í þessu tilfelli ekki samrýmanleg tilskipuninni um útsenda starfsmenn. Í Þýskalandi sé við lýði heildarkjarasamningar á byggingamarkaði og þar séu tilskilin ákveðin lágmarkslaun, en ekki sé hægt að líta á kjarasamninginn í Neðra-Saxlandi sem ákvarðandi gagnvart ákvæðum tilskipunar um útsenda starfsmenn. Þar að auki, segir dómurinn, að lög Neðra-Saxlands um að verktakar skuli greiða samkvæmt kjarasamningum, gildi aðeins um hluta vinnumarkaðarins og taki einvörðungu til opinberra samninga. Þar af leiðandi séu lög Neðra-Saxlands ekki samræmanleg ákvæðum tilskipunar um útsenda starfsmenn. Dómurinn telur m.ö.o. að kjarasamningsbundna vernd á þessu svæði megi líta á sem samkeppnishömlur og þar sem kjarasamningarnir áskilji laun sem eru hærri en tilgreind lágmarkslaun í þýskum heildarkjarasamningum, réttlæti það ekki að hömlur verið settar á frelsi til að veita þjónustu milli landa. Umræddir kjarasamningar hafi ekki verið sérstaklega staðfestir sem almennt viðmið fyrir þýskan vinnumarkað með tilvísun í tilskipun um útsenda starfsmenn.
Kjarasamningar viðskiptahindrun
Dómurinn heggur því í sama knérunn og Laval-dómurinn og staðfestir að ekki sé unnt að knýja erlenda verktaka til að greiða meira en sem sannanlega teljist "lágmarkslaun" skv. tilskipun um útsenda starfsmenn og samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er beiting hennar skilgreind á mjög takmarkandi vísu. Í Svíþjóð/Laval dómnum sagði dómstólinn að skýr ákvæði um lágmarkslaun skorti og því væri ekki hægt að ætlast til að erlend fyrirtæki vissu hvað væru umsamin lágmarkslaun og því ætti tilskipun um útsenda starfsmenn ekki við. (Þrátt fyrir að sænsku verkalýðsfélögin bönkuðu óumbeðin upp á og gerðu þeim skýra grein fyrir hvað teldust lágmarkslaun á svæðinu.)
Í Rüffert-málinu er einu af 16 sambandslöndum Þýskalands meinað að setja lög sem eiga að tryggja sérstaklega að farið sé eftir kjarsamningum og komið sé í veg fyrir félagsleg undirboð.
Hér eru lög sambandsríkis ekki talin nægilega skýr og telur Evrópudómstóllinn því rétt að ganga í berhögg við þau. Í báðum tilfellum er litið framhjá gildandi kjarasamningum og vilja stjórnvalda. Í Rüffert málinum lítur Evrópudómstóllinn enn fremur framhjá tilskipun um opinber innkaup sem heimilar yfirvöldum að setja viss skilyrði við gerð og úthlutun opinberra samninga.
Eru hér komið fram að varnaðarorð ýmissa gagnrýnenda ESB og þess að láta dómstólinn úrskurða um framvindu á vinnumarkaði hafa átt við rök að styðjast. Svo er komið að löglega gerðir kjarasamningar eru undir vissum tilfellum taldir til viðskiptahindrana fyrir fyrirtæki. Telur verkalýðshreyfingin að með þessum dómi sé jafnvel veitt leyfi til félagslegra undirboða.
Upprunalandsreglan í gegnum bakdyrnar?
Evrópsk verkalýðshreyfing telur að þessi dómur sé mjög varasamur og veiki óhjákvæmilega stöðu verkalýðshreyfingarinnar og grafi undan ávinningum hennar frá fyrri tíð.
Svo virðist sem Evrópudómstóllinn hafi fundið hjáleið til að koma ákvæðum "upprunalandsreglunnar" umdeildu í gildi því nú er það talin samkeppnishindrun að erlend fyrirtæki sem flytja starfsmenn milli landa undir regnhlíf frelsis með þjónustu, þurfi að greiða að fullu eftir kjarasamningum gistilandsins. Með hliðsjón af tilskipuninni um útsenda starfsmenn, má aðeins krefjast þess að erlendu fyrirtækin greiði starfsmönnum sínum tilskilin lágmarkslaun og þarf það viðmið að vera uppfyllt með formlega réttum hætti, eigi lágmarksverndarákvæði tilskipunarinnar til að teljast gilt. Gildir það um þá opinberu aðila sem vilja nýta sér ákvæði um opinber innkaup og verkalýðshreyfinguna, sem má semja um laun heima fyrir, en samkvæmt dómnum eru erlend fyrirtæki undanskilin ákvæðum þeirra kjarasamninga umfram það sem sannanlega eru lágmarkslaun. Því má segja að Evrópudómstóllinn hafi snúið við túlkuninni á tilskipun um útsenda starfsmenn; í stað þess að tryggja starfsmönnum lágmarkskjör þá eru umrædd lágmarkskjör farin að virka sem hámarkslaun fyrir aðsenda starfsmenn.Verkalýðshreyfingunni er nú meinað að berjast fyrir hönd aðsendra starfsmanna fyrir launum sem eru í takt við gildandi kjarasamninga á svæðinu, séu þeir umfram skilgreint lágmark.
Á Íslandi hefur verið álitið að íslenskur vinnumarkaður sé ekki í hættu að fá á sig álíka dóma. Lög númer 55 frá 1980 kveða á um að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.
(Sjá dómsniðurstöðu Evrópudómstólsins hér: http://curia.europa.eu/jurisp/cgi-bin/form.pl?lang=EN&Submit=rechercher&numaff=C-346/06 )
(Sjá viðbrögð ETUC við dómnum: http://www.etuc.org/a/4830 )
Sjá upphaflega grein á heimasíðu BSRB: http://www.bsrb.is/erlent/nr/1350/
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.1.2012 | 09:20
Búferlaflutningar og afsökunarbeiðni
Ég bið lesendur velvirðingar á stopulum færslum upp á síðkastið. Ástæðan er sú að ég stend í búferlaflutningum milli landa og það hefur valdið töfum. Ég geri ráð fyrir að úr rætist á næstu dögum og að næsta færsla birtist eigi síðar en á miðvikudaginn.
Ég bendi upplýsingaþyrstum lesendum á hina ágætu síðu http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/ og að sjálfsögðu á síðu Heimssýnar http://heimssyn.is/
Bestu kveðjur, Páll
7.1.2012 | 21:18
Tilskipunin um útsenda starfsmenn endurskoðuð?
Síðustu fréttir eru að líkur séu á að tilskipunin um útsenda starfsmenn verði tekin til endurskoðunar og ný útgáfa lögð fram af framkvæmdastjórninni, jafnvel nú strax í febrúar. Fréttir eru hins vegar mjög óljósar af málinu og menn vita ekki í hvaða formi breytingartillögurnar kunna að verða. Er jafnvel talað um sérstaka útgáfu fyrir Norðurlöndin, sem væri nýmæli! Það er hins vegar engum blöðum um það að fletta að gífurleg óánægja hefur verið með túlkun dómstóla á tilskipuninni innan verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu allri, ekki bara á Norðurlöndum. Með Laval-dómnum var gengið á grundvallarréttindi verkalýðshreyfingarinnar, þ.e. verkfallsréttinn. Dómurinn bannaði með öðrum orðum að verkalýshreyfingin gæti gripið til aðgerða sem vernduðu réttindi sem væru umfram þau lágmarksréttindi sem Evrópudómstólinn taldi að væru tryggð í tilskipuninni um útsenda starfsmenn. Þar með var verkalýðshreyfingunni bannað að grípa til aðgerða gegn þeim félagslegu undirboðum sem dómurinn bauð upp á. Það verður því afar fróðlegt að sjá hvað kemur upp úr kössum framkvæmdastjórnarinnar.
Það sem er einnig áhugavert við þessa þróun er að hún sýnir að það væri röng afstaða hjá samninganefndum Íslands að ganga út frá að öll löggjöf ESB sé óhagganleg - og draga þar af leiðandi þá ályktun að það sé óraunhæft að gera kröfur sem ganga á þessa löggjöf. Allur þrýstingur á breytingar, hvort sem kemur frá verkalýðshreyfingunni eða samninganefnd Íslands þess vegna, kann að skila árangri. Þannig er hreyfing á tilskipun um opinber innkaup, um reglur um ríkisaðstoð ofl. Það er því um að gera að hræðast ekki ESB-valdið - og gera kröfur sem endurspegla raunverulega hagsmuni Íslands þó það kunni að framkalla það sem íslenska samninganefndin kann að óttast mest - yfirlætisfliss hinna kurteisu heimsborgara og viðskálendanna úr samningateymi ESB.
-phh
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.1.2012 kl. 07:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.1.2012 | 14:10
Varðhundar á hælum lýðræðisins
Einbeittur brotavilji
Það vær ætlun ESB með einbeittum brotavilja að koma á slíkum vinnumarkaði á hinum innri markaði ESB með tilurð þjónustutilskipunarinnar. Upprunalandsreglan svokallaða í tilskipuninni gekk einmitt út á þetta; pólskir starfsmenn sem buðu þjónustu erlendis, áttu að vera á pólskum starfskjörum og launum. Það var pólskra yfirvalda að fylgjast með að ekki væri á þeim brotinn réttur, yfirvöld gistilandsins áttu að hafa mjög takmarkaðan rétt til eftirlits og inngripa. Og þrátt fyrir að hörð barátta evrópskra verkalýðsfélaga gegn tilskipunin hafi borið nokkurn árangur, þá er upprunalandsregluna enn að finna, t.d. í nýjum lögum 2011 nr. 76 21. júní um þjónustuviðskipti þegar þjónusta er veitt án staðfestu eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.
Jákvæðri tilskipun...
Á hinum innri markaði ESB gilda meginreglurnar um fjórfrelsið, frelsi til að veita þjónustu, frelsi fjármagnsins, frjáls för verkafólk og frelsi til að selja vörur. Menn sáu því fyrir vandamálin sem upp gátu komið ef slíkt frelsi væri algert og í þeim tilgangi að verja stöðu og réttindi launafólks á hinum innri markaði samþykkti ESB tilskipun 96/71/EC um útsenda starfsmenn. Tilskipuninni var sem sagt ætlað að verja réttindi útsendra starfsmanna, en ekki síður réttindi launafólks í gistilandinu með því að koma í veg fyrir gegndarlaus félagsleg undirboð. En tilskipuninni var einnig ætlað að koma í veg fyrir ósanngjarna samkeppni, því hvernig á sænskt þjónustufyrirtæki með starfsmenn á sænskum launum að standast samkeppni við lettneskt fyrirtæki sem starfar í Svíþjóð en borgar helmingi lægri laun samkvæmt lettneskum kjarasamningum?
...snúið á haus af dómstólum
Það sem að hefur síðan gerst, eftir átökin um þjónustutilskipunina og samþykkt hennar 2006, er að Evrópudómstólinn (ECJ) snýr efni tilskipunarinnar á haus með Laval-dómnum sem kveðinn var upp í árslok 2007. Tilskipunin, sem menn töldu almennt að ætti að tryggja ákveðin réttindi að lágmarki, er túlkuð af dómstólnum sem hámarksréttindi. Þeim atriðum sem verkalýðshreyfingin gerði ESB afturreka með í baráttunni gegn þjónustutilskipuninni, var nú (að hluta til) náð til baka með nýrri tangarsókn Evrópudómstólsins. Tilskipunin um útsenda starfsmenn hefur síðan verið notuð til af dómstólunum (EFTA og ECJ) til að hefta og draga úr réttindum launafólks. Dæmi um það er málarekstur ESA gegn Íslandi sem endaði með dómi EFTA-dómstólsins 28. júní síðasta sumar.
Réttlætið og frelsið
Það mál er um margt mjög áhugavert, ekki síst vegna þess að það sýnir hvar dómstólarnir, í þessu tilviki EFTA-dómstóllinn, telja skyldur sína liggja. Þær skyldur virðast umfram annað vera við ákveðinn hluta af því ESB sem við Íslendingar erum að sækja aðgang að. Ég myndi ætla að flestir Íslendingar búist við réttlátri málsmeðferð fyrir þeim yfirþjóðlegu dómstólum sem Evrópudómstóllinn og EFTA-dómstóllinn eru, ekki síst fyrir þær sakir að þeir eru æðsta dómstigið og skera úr um löggjöf ESB og EES sem gengur framar löggjöf aðildarríkjanna. Ég myndi enn fremur ætla að flestir teldu það ákveðið sanngirnismál að erlendu launafólki væru tryggð sambærileg kjör og réttindi á við innlent, ekki síst þegar það er það tryggir stöðu hins innlenda starfsfólks og kemur í veg fyrir ósanngjarna samkeppni. Og að mörgum þyki það nokkuð sérstakt að tilskipun sem upphaflega er ætlað sérstaklega að gæta hagsmuna launafólks og fyrirtækja gagnvart óheftu frelsi markaðarins, sé meðvitað snúið á haus til þess að passa upp á hagsmuni frelsins. Og að stofnanir, eins og Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, leggi sig í framkróka til að passa upp á að launamenn njóti nú ekki of mikilla réttinda því þegar allt kemur til alls kann það jú að kosta fyrirtækin bæði aukalega fjármuni og fyrirhöfn, en það er nú einu sinni sem þau eiga að vera frjáls undan. Það er frelsið sem dómstólarnir passa eins og varðhundar, skítt veri með önnur gildi og aðra hagsmuni.
Varðhundar á hælum lýðræðisins
Og það er einmitt í hlutverki varðhundsins sem að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, leggur af stað í þennan tiltekna leiðangur strax þann 19. október 2005. Þá er stofnunin farin að hnusa af þágildandi lögum nr 96 frá 2002 um útlendinga og meðfylgjandi reglugerð (53/2003) um útsenda starfsmenn. Þegar að Alþingi árið 2007, í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, hefur svo smíðað og samþykkt ný lög nr. 45 27. mars um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra að þá færist rannsókn ESA yfir á þau. Lögin komu til í kjölfar mikillar umræðu um kjör erlendra verkamanna á Íslandi, um starfsmannaleigur sem snuðuðu þá og nauðsyn þess að bæta úr málum. Sem sagt lýðræðislega tekin ákvörðun af Alþingi Íslendinga í samvinnu við alla helstu hagsmunaaðila og fengin niðurstaða sem var öllum til hagsbóta. Erlendir launamenn fengu réttindi sem voru sambærileg íslenskum og ef þeir hefðu meiri réttindi heiman frá, þá héldu þeir þeim. Samkeppnisstaða fyrirtækja var leiðrétt. Hvert var þá vandamálið?
Of miklar upplýsingar og of mikil réttindi
Að mati ESA var vandamálið tvíþætt; annars vegar hvað varðaði upplýsingaskyldur hins erlenda fyrirtækis til yfirvalda og taldi ESA að greinar 8.,10. og 11. í lögunum stæðust ekki dóma Evrópudómstólsins, þar sem m.a. var vísað til þjónustutilskipunarinnar; of ítarlegar kröfur væru gerðar til fyrirtækja um upplýsinga til fyrirtækja.
Hins vegar taldi ESA að 5. gr. Réttur til launa í veikinda- og slysatilvikum og 7. gr. Slysatryggingar vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku, brytu annars vegar gegn 36. gr. EES-samningsins um frelsi í þjónustuviðskiptum og hins vegar gegn gr. 3.1 í tilskipuninni um útsenda starfsmenn.
Alþingi beygði sig fyrir vilja ESA hvað varðar greinar 8.,10., og 11. og breytti lögum nr. 45 27. mars 2007 með lagabreytingu 15. júní 2010.
Veikindaréttur í vegi þjónustufrelsis
Ísland vildi hins vegar ekki beygja sig hvað varðar gr. 5 og 7 og stefndi ESA því ríkinu fyrir EFTA-dómstólinn. Var Íslandi stefnt fyrir brot gegn 36. gr. EES-samningsins um frelsi í þjónustuviðskiptum og hins vegar gegn gr. 3.1 í tilskipuninni um útsenda starfsmenn.
Article 36(1) EEA reads:
Within the framework of the provisions of this Agreement, there shall be
no restrictions on freedom to provide services within the territory of the
Contracting Parties in respect of nationals of EC Member States and
EFTA States who are established in an EC Member State or an EFTA
State other than that of the person for whom the services are intended.
Uppleggið er sem sagt það að sé hindrun í vegi viðskipta með þjónustu að menn fái greidda veikindadaga og séu slysastryggðir! Situr það ekki vel? En þegar til kastanna kom tók dómurinn ekki afstöðu með hvaða hætti gr. 5 og gr. 7 stríddu gegn þjónustufrelsinu, því hann komst að þeirri niðurstöðu að greinarnar brytu gegn gr. 3.1 í tilskipuninni um útsenda starfsmenn og lét það duga.
Ágreiningsákvæði tilskipunar um útsenda starfsmenn
Fljótt á litið þá virðast ákvæði greinar 3.1 vera nokkuð jákvæð. Tekið er fram að aðildarríki skuli tryggja útsendum starfsmönnum ákveðin réttindi, talin upp í liðum a til g, hvort sem er með lögum eða heildstæðum kjarasamningum. Þá segir að hugtakið lágmarkslaun sé notað eins og það er skilgreint í lögum gistilandsins eða samkvæmt hefð í því landi. Þá segir í 7. gr. að gr. 1-6 skuli ekki koma í veg fyrir að starfsmenn njóti hagstæðari kjara og vinnuskilyrða. Loks segir að aðildarþjóðir megi setja lög, (sem séu í samræmi við EES-samninginn) með tilvísun í public policy. Því gæti virst með eðlilegum lesskilningi, að ákvæði laga 45 um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja... ættu vel að geta rúmast innan þessa ramma, sérstaklega þar sem andi laganna virðist vera sá almennt að veita útsendum starfsmönnum ákveðna vernd og réttindi. (Sjá fullan enskan texta hér að neðan.)
Snúið upp á almenna skynsemi í pólitískum tilgangi
EFTA-dómstólnum, eins og Evrópudómstólnum áður, tekst hins vegar að lesa þennan texta með allt öðrum hætti. Evrópudómstólinn reið á vaðið með Laval-dómnum og EFTA-dómstóllinn fylgir síðan í fótspor hans.
Í úrskurði sínum byrjar dómstólinn á að benda á að formála (preamble) tilskipunarinnar sé að finna grein 13 sem kveði á um að aðildarríkin þurfi að samræma lög sín svo tryggja megi lágmarksvernd útsendra starfsmanna; slíka samræmingu sé einungis hægt að tryggja með ESB-löggjöf. (Greinin er því í raun röksemdafærsla fyrir nauðsyn tilskipunarinnar sem slíkrar.)
Næsta ályktun sem dómurinn dregur af formálagrein 13, er svo þar sem dómurinn byrjar alvarlega að snúa upp á almenna skynsemi í pólitískum tilgangi; Hann segir að þar sem að nauðsyn sé á að samræma löggjöfina, verði að draga þá ályktun að liðir a til g, í grein 3.1 séu tæmandi. Það megi með öðrum orðum ekki tryggja lágmarksréttindi starfsmanna á öðrum sviðum en nákvæmlega þeim sem þar eru talin upp! Ef gefa eigi aðildarríkjum leyfi til að tryggja réttindi á fleiri sviðum, yrði það til að eyðileggja skilvirkni tilskipunarinnar!
Bíðum við! Hvernig má það eyðileggja virkni tilskipunar sem segir að starfsmanni skuli að lágmarki vera tryggð réttindi A og B, þó svo að einhver ríki vilji bjóða honum að auki, réttindi C og D? Fyrir mér, sem ólöglærðum manni, er þetta hreint bull! (EFTA dómstólinn ber reyndar fyrir sig úrskurð Evrópudómstólsins í Laval málinu en hingað til hefur það ekki gert niðurstöður réttari, þó svo sama vitleysan sé endurtekin tvisvar!)
Lagalegar hártoganir á röngum forsendum
Nú þegar dómstóllinn hefur gefið sér þessa (röngu) forsendur, þá fer hann að snúa sér að efni greina 5 og 7 í íslensku lögunum og þá byrja hinar lagalegu hártoganir. Samkvæmt 3.1 c lið megi bara tryggja starfsmönnum lágmarkslaun og þá fer rétturinn að velta fyrir sér hvað teljist til slíkra launa. Ísland, stutt af lagaálitum frá Noregi og Finnlandi, hélt því fram að réttur til greiðslu veikindadaga væri hluti af launum. Dómurinn kemst ekki hjá því að viðurkenna það sem stendur í tilskipuninni að það sé réttur aðildarríkja að skilgreina sjálf hvernig skuli skilgreina lágmarkslaun en segir svo einfaldlega að sá réttur sé ekki óskilyrtur. Dómurinn segir að það skipti engu máli hvernig ILO eða aðrir skilgreini laun og blæs svo aðrar á röksemdir Íslendinga. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að greiðslur fyrir veikindadaga teljist ekki til launa, eins og dómurinn telur að þau eigi að skilgreina. Ergo gr. 5. í lögum nr 45, 2007, er ólögleg og hún skal út!
Hann afgreiðir síðan 7. gr. með svipuðum hætti, slysatrygging falli ekki undir upptalninguna í liðum a til g og dæmir hana ólöglega líka.
Sjálfræði ríkjanna bara að nafninu til
Þá var það síðasta tromp Íslands, sem var að vísa til þess að við hefðum leyfi til að setja svona hræðileg lög með tilvísun í það public policy og myndi orðrétt þýðast sem opinber stefna. En það er ekki meining, eins og EFTA-dómstóllinn vill horfa á málið. Í röksemdafærslu sinni segir hann að undantekningin frá ákvæðum tilskipunarinnar sem megi fá með tilvísun í public policy, sé í raun undantekning frá meginreglunni um frelsið til að veita þjónustu. Þó svo að aðildarríkin séu ennþá, að nafninu til (in principle) frjáls til að ákveða hvað heyri undir public policy í ljósi hagsmuna og þarfa hvers aðildarríkis, þá verði að túlka public policy í samhengi EES, og sérstaklega þegar til public policy er vísað sem réttlætingar á undantekningu frá meginreglunni um frjáls þjónustuviðskipti, þröngt. Annars geti aðildarríkin bara túlkað public policy eins og þeim sýnist án nokkurrar stjórnar stofnana EEA! Dómstólinn kemst því að þeirri niðurstöðu að aðildarríki megi bara vísa til public policy sem ástæðu til að setja lög eftir eigin höfði, ef að það telst vera raunveruleg og nægjanlega alvarleg ógn sem steðji að grundvallarhagsmunum þjóðfélagsins! Að sjálfsögðu kemst dómstólinn að þeirri niðurstöðu að það sé ekki ógn við grundvallarhagsmuni íslensks þjóðfélags þó svo að greinar 5 og 7 verði fjarlægðar!
(The public policy exception is, more fundamentally, a derogation from the principle of freedom to provide services. While the EEA States are still, in principle, free to determine
the requirements of public policy in the light of their national needs, the notion of
public policy in the EEA context, particularly when it is cited as justification for
a derogation from a fundamental freedom, must be interpreted strictly, so that its
scope cannot be determined unilaterally by each EEA State without any control
by the EEA institutions. It follows that a public policy provision may be relied
upon only if there is a genuine and sufficiently serious threat to a fundamental
interest of society.)
Lýðræðislegri og skynsamri lagasetningu rústað í nafni frelsins
Þar með er búið að rústa lögum nr. 45 27. mars um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra. Búið er að þrýsta á að gr. 8.,10., og 11. hefur verið breytt þannig að nú er erfiða fyrir Vinnumálastofnun að gegna eftirlitshlutverki sínu en áður, og nú bíður Alþingis að gera enn á ný breytingar á lögunum með afnámi greina 5. og 7.
Það sem að þessi saga sýnir er að menn verða vera mjög á varðbergi gagnvart dómstólum eins og EFTA-dómstólnum og Evrópu-dómstólnum. Þeir eru ekki eins hver annar dómstóll sem er að reyna að komast að réttlátri niðurstöðu í deilum tveggja. Þeir hafa hvor um sig hliðstæð hlutverk; að passa upp á grunnsáttmála ESB og EES-samninginn, sem byggir á sömu grunnsáttmálum um fjórfrelsið. Til þess að geta gegnt því hlutverki varðhundsins skirrast þeir ekki við að beita öllum þeim meðölum og rökum sem þeir þurfa.
-phh
Hér á eftir kemur svo grein 3.1. í tilskipuninni um útsenda starfsmenn sem til er vitnað:
(3)1. Member States shall ensure that, whatever the law applicable to the
employment relationship, the undertakings referred to in Article 1(1)
guarantee workers posted to their territory the terms and conditions of
employment covering the following matters which, in the Member State
where the work is carried out, are laid down:
- by law, regulation or administrative provision, and/or
- by collective agreements or arbitration awards which have been
declared universally applicable within the meaning of paragraph 8,
insofar as they concern the activities referred to in the Annex:
(a) maximum work periods and minimum rest periods;
(b) minimum paid annual holidays;
(c) the minimum rates of pay, including overtime rates; this point does not
apply to supplementary occupational retirement pension schemes;
(d) the conditions of hiring-out of workers, in particular the supply of
workers by temporary employment undertakings;
(e) health, safety and hygiene at work;
(f) protective measures with regard to the terms and conditions of
employment of pregnant women or women who have recently given
birth, of children and of young people;
(g) equality of treatment between men and women and other provisions on
non-discrimination.
For the purposes of this Directive, the concept of minimum rates of pay
referred to in paragraph 1(c) is defined by the national law and/or
practice of the Member State to whose territory the worker is posted.
...
7. Paragraphs 1 to 6 shall not prevent application of terms and
conditions of employment which are more favourable to workers.
...
8. Collective agreements or arbitration awards which have been
declared universally applicable means collective agreements or
arbitration awards which must be observed by all undertakings in the
geographical area and in the profession or industry concerned.
...
10. This Directive shall not preclude the application by Member States, in
compliance with the EEA Agreement, to national undertakings and to the
undertakings of other States, on a basis of equality of treatment, of:
- terms and conditions of employment on matters other than those
referred to in the first subparagraph of paragraph 1 in the case of public
policy provisions,
- terms and conditions of employment laid down in the collective
agreements or arbitration awards within the meaning of paragraph 8 and
concerning activities other than those referred to in the Annex.
4.1.2012 | 23:36
Frelsi fyrirtækjanna og frelsi fólksins
Fjórðungur íbúa ESB við fátækramörk
Barátta ESB fyrir aukinni samkeppnishæfni sambandsins hefur því fremur falist í því að gera ESB að samkeppnishæfara um ódýrt og hreyfanlegt vinnuafl í samkeppni við lönd eins og Kína og Indland, en að öll áhersla hafi legið á þekkingarsköpun og dýrari störf. Í þeim mæli sem þróunin hefur gengið í báðar áttir, hefur gjáin milli hinna betur stæðu og hinna sem minna hafa milli handanna, aukist. Árið 2005 töldust 78 milljónir íbúa ESB vera við eða undir fátæktarmörk eða um 16%. Og samkvæmt Eurostat býr nú rétt tæpur fjórðungur af öllum íbúum ESB, um 120 milljónir manna, við hættu á að falla undir fátækramörk eða lenda í félagslegri útskúfun! (Sjá People at risk of poverty or social exclusion by age and gender. http://appsso.eurostat.ec.europa.eu/nui/show.do?dataset=ilc_peps01&lang=en)
Samkvæmt Evrópusambandi verkalýðsfélaga, ETUC, voru að minnsta kosti 15% vinnuafls í íhlaupavinnu (fixed term work) árið 2009. Af þeim sem hafa vinnu, fá 8% svo lág laun að þau falla undir fátækramörk. ESB hefur markvisst unnið því að normalisera það sem hefur verið kölluð óviss vinna eða precarious work og margir hafa gagnrýnt að hugmyndir ESB um flexicurity hafi ýtt undir óöryggi launafólks á vinnumarkaði. Atvinnuleysi í ESB er nú að meðaltali um 10%. Þetta er sú hlið á ESB sem yfirleitt fær litla umfjöllun, a.m.k. hjá þeim sem sjá sambandið í rósrauðum bjarma og vilja ólmir fá landsmenn til að gerast meðlimir í sælufélaginu.
Dómar sem brjóta múrana
Við munum því á næstunni líta til þess með hvaða hætti ESB hefur seilst inn á vinnumarkaði aðildarríkjanna, sem er reyndar svið sem á að vera á hendi hvers aðildarríkis fyrir sig og utan áhrifasviðs ESB. Við munum því skoða nánar nokkrar tilskipanir sem hafa haft mikil áhrif á þessu sviði og ekki síst vegna þeirra túlkunar sem Evrópudómsstólinn hefur gefið með dómum sínum. Nýjasta dæmið er löggjöf ESB um efnahagslega stjórnun, svokallaður six-pack, en einnig er um að ræða tilskipanir eins og þjónustutilskipunina sem hafði þann yfirlýsta tilgang að ryðja öllum hindrunum úr vegi fyrirtækja, meðal slíkra hindrana töldust ítök verkalýðsfélaga og ýmis lög og reglur sem talin voru standa í vegi fyrir óheftu frelsi fyrirtækjanna. En við munum einnig líta á sem og tilskipanir eins og 2008/104/EC um starfsmannaleigur og tilskipun 96/71/EC um útsenda starfsmenn. Evrópudómstólinn hefur fellt nokkra fræga og umdeilda dóma eins og Laval-dóminn, Viking-dóminn, Luxemborgar-dóminn og Rüffert-dóminn, sem allir hafa seilst með einum eða öðrum hætti inn á hefðir og/eða löggjöf á vinnumarkaði.
En það eru færri sem vita að við Íslendingar höfum okkar eigin dóm á þessu sviði, sem EFTA-dómstólinn kvað upp 28. júní 2011. Sá dómur greip með beinum hætti fram fyrir hendurnar á Alþingi. Og í næsta bloggi mun ég skoða þann dóm nokkuð ítarlega, þar sem hann sýnir nokkuð vel hvaða áherslur þessir tvíburadómstólar, Evrópudómstólinn og EFTA-dómstólinn leggja þegar kemur að því að vega og meta réttindi verkafólks annars vegar og réttindi fyrirtækja eins og þau eru tryggð með fjórfrelsinu, í þessu tilfelli frelsinu til að veita þjónustu.
-phh
2.1.2012 | 12:05
Við fylgjumst með, Steingrímur!
Nú árið er liðið og Jón Bjarnason og Árni Páll Árnason ekki lengur í tölu ráðherra. Hvaða þýðingu kann sú breyting að hafa í sambandi við aðildarviðræðurnar? Árni Páll var staðfastur Já-maður og harður á því að við ættum að ganga inn í ESB, á meðan að Jón telur andstöðu sína við ESB hafi verið meginorsök brottrekstrar síns. Við ráðuneytum beggja tekur væntanlega formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon.
Jón Bjarnason sagði í yfirlýsingu sem hann gaf um leið og hann hvarf úr ráðherrastólnum að undir hans forystu hafi mikil vinna farið fram innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við aðildarumsókn að ESB í samræmi við fyrirmæli Alþingis. En hann bætti jafnframt við:
Þess hefur jafnframt verið gætt að í engu sé farið út fyrir það umboð sem Alþingi veitti ríkisstjórninni með þingsályktunartillögu sinni þann 16. júlí 2009. Slík varfærni og ábyrgð er afar mikilvæg þegar um er að ræða meðferð íslenskra hagsmuna í milliríkjasamningum.
Spurningin er því hvort Steingrímur J. Sigfússon verður jafn varfærinn og passi að í engu verði farið út fyrir það umboð Alþingis sem ríkisstjórnin fékk? Eða mun hann láta undan þrýstingi Samfylkingarinnar og breyta um stefnu? Það verður því vandlega fylgst með hvaða stefnu Steingrímur mun fylgja í aðildarviðræðunum hvað varðar þá málaflokka sem undir þessi ráðuneyti falla.
Er Ísland að sækja um undanþágur frá Maastricht?
Í athyglisverðri frétt sem birt var á Vísi.is þann 30. desember sl. (http://www.visir.is/ovist-hvort-ad-steingrimur-muni-fylgja-aaetlun-arna-pals-eftir/article/2011111239916) er það sagt óvíst hvort Steingrímur J. muni fylgja eftir þeirri stefnu sem Árni Páll hefur haft í mótun samningsmarkmiða fyrir efnhags- og viðskiptaráðuneytið. Nánar tiltekið segir:
Vegna breytinganna í ríkisstjórninni er nú algjör óvissa uppi um risavaxið mál sem Árni Páll Árnason hafði í vinnslu í ráðuneyti sínu sem efnahags- og viðskiptaráðherra, en hann hafði í undirbúningi að ná samningi við Evrópusambandið um undanþágu frá Maastricht-skilyrðunum til að geta afnumið gjaldeyrishöftin og tekið upp evru sem gjaldmiðil samhliða aðild.
Ein ástæða þess að þessari frétt hefur ekki verið gert hærra undir höfði, fyrir utan ráðherraskipti og önnur stórmál sem á hana hafa skyggt, er sennilega að fréttin er fremur ónákvæm og sundurlaus. Þannig segir t.d. í greinagerð samningahóps um gjaldmiðilssamstarf:
Við inngöngu í ESB er umsóknarríki í sjálfsvald sett hvenær það gerist aðili að gengissamstarfinu ERM II. Þátttaka í ERM II í að minnsta kosti tvö ár er skilyrði fyrir upptöku evru, en auk þess þarf að uppfylla önnur efnahagsleg og fjármálaleg skilyrði fyrir upptöku evru (Maastricht-skilyrði).
Það er því ólíklegt, svo ekki sé meira sagt, að það sé talið raunhæft markmið að taka upp evruna samhliða aðild. Tímasetning fréttarinnar er hins vegar áhugaverð og undir kringumstæðum átaka um ráðherrastóla, má telja nokkrar líkur á að efni hennar hafi verið lekið úr ráðuneytinu, til að sýna styrk fráfarandi ráðherra Árna Páls Árnasonar. Það kann að styrkja trúverðugleika hennar.
Er harðari kröfugerð framundan, Steingrímur?
Ef það meginatriðið fréttarinnar er hins vegar rétt, að Árni Páll hafi staðið í viðræðum um að fá undanþágu af einhverju tagi frá Maastricht-skilyrðunum, að þá þykja mér það mjög jákvæðar fréttir! Ekki vegna þess að ég telji að við eigum að fá undanþágur til að taka upp evruna, heldur vegna þess að það sýnir að það má reisa kröfur á öllum sviðum og af öllum toga, jafnvel þó þær varði undanþágur frá meginsáttmálum ESB. Ef að Ísland hefur sótt um undanþágur frá Maastricht-skilyrðunum (og það á tímum sem að allt ESB leikur á reiðiskjálfi vegna þess að það er verið að herða öll þau skilyrði og afnema allar undanþágur) að þá gefur það að sjálfsögðu vonir um að Ísland muni vera ódeigt í kröfugerð sinni á öðrum sviðum, eins og t.d. hvað varðar almannaþjónustuna, landbúnað og sjávarútveg! Megi guð láta á gott vita!
Og Steingrímur, við viljum gjarna fá að vita hvað er satt í þessum efnum! Er hér komið fordæmi úr ranni Samfylkingarinnar sem gefur VG kjark til stærri handahreyfinga og djarfari kröfugerðar sem líkleg er til að verja hagsmuni Íslands?
-phh
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.1.2012 kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
28.12.2011 | 17:21
Er verið að plata fólk?
Í fyrra bloggi mínu Meginhagsmunir Íslands fyrir borð bornir í aðildarviðræðunum við ESB gagnrýndi ég hvernig staðið hefur verið að þeim viðræðum. Bloggið var langt og ítarlegt en hér verða dregnir saman nokkrir helstu punktarnir.
Alþingi leggur línurnar ...
Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis skrifaði greinagerð um tillögu um aðildarumsókn Íslands að ESB og tilgreindi þar nokkur atriði sem Alþingi vildi skilgreina sem meginhagsmuni Íslands. Um þetta atriði segir m.a. í álitinu:
Nefndin hefur fjallað ítarlega um þá meginhagsmuni sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB. Mat meiri hlutans er að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og að tiltekin skilyrði í umboði ríkisstjórnarinnar muni ekki skila neinu umfram það. Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða. Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu.
Meginhagsmunir skilgreindir
Í kafla VII. Greinargerð um meginhagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við ESB fjallar utanríkismálanefnd svo um meginhagsmuni Íslands og skiptir umfjöllun sinni í eftirtalda kafla: 1.Orku- og auðlindamál. 2. Sjávarútvegsmál. 3.Landbúnaðar- og byggðamál. 4.Umhverfismál. 5. Atvinnu- og iðnaðarmál. 6. Almannaþjónusta og félagsleg mál. 7. Gjaldmiðilsmál. 8. EES-mál 9. Öryggis- og varnarmál. 10. Skatta- og tollamál. 11. Fjármál og fjárlög ESB. Í þessum er að finna almenna umfjöllun en einnig eru þar skilgreindir meginhagmunir Íslands, sem ríkisstjórn og samninganefnd er ætlað að fylgja.
Skýr fyrirmæli um almannaþjónustuna
Í blogginu beini ég eingöngu sjónum að kafla sex Almannaþjónusta og félagsleg mál. Í raun er kaflanum skipt í tvo aðgreinda kafla þar sem annars vegar er fjallað um almannaþjónustu og hins vegar um félagsleg mál. Hér beini ég fyrst og fremst athygli að almannaþjónustunni en efni kaflanna er um margt tengt og snertir umfjöllun því oft efni beggja kafla. Í kaflanum um almannaþjónustuna eru skilgreind nákvæmlega nokkur atriði sem meginhagsmunir Íslands og gefnar ákveðnar línur sem fylgja skuli í aðildarviðræðunum:
a. Telur meiri hlutinn afar mikilvægt að verja hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu. Að mati meiri hlutans er það grundvallaratriði í þessu efni að hvert og eitt ríki geti haldið ákvörðunarvaldi um skipulag sinnar almannaþjónustu að því tilskildu að allir íbúar viðkomandi aðildarríkis fái notið þjónustu og sitji við sama borð. Þannig er eðlilegt að megináhersla Íslands sé á að hið norræna félagslega fyrirkomulag sé áfram við lýði.
b. Meiri hlutinn telur að sama skapi ekki síður mikilvægt að Ísland gæti þess að ekki verði lengra gengið í samræmingu reglna á sviði almannaþjónustu og haldi því t.d. fast á lofti að hugsanleg samræming á reglum um þjónustu hafi ekki áhrif á það rekstrarform sem ríki kunna að velja sér á almannaþjónustu af þessu tagi.
c. Telur meiri hlutinn nauðsynlegt að íslensk lög og reglur um opinbera almannaþjónustu og framkvæmd hennar verði tekin til skoðunar, t.d. með sérstökum lögum um almannaþjónustu, svo að tryggja megi sem frekast er unnt að lagaumhverfi ESB hafi ekki áhrif á sjálfstætt ákvörðunarvald stjórnvalda til að skipuleggja og fjármagna opinbera almannaþjónustu, né heldur dómaniðurstöður Evrópudómstólsins.
Skilgreiningar skortir
Spurningin sem ég spyr er hvað hefur verið gert svo fylgja megi þessum skýru tilmælum Alþingis til framkvæmdavaldsins og hvernig hefur þeim verið fylgt? Fyrsta forsenda þess að framkvæmdavaldið geti fylgt tilmælum Alþingis er auðvitað að það liggi fyrir skýr og sameiginlegur skilningur á því hvað telst vera hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu. Ekki verður séð af þeim pappírum sem liggja frammi um aðildarviðræðurnar og ég hef lesið, að slík skilgreiningarvinna hafi nokkru sinni farið fram af hálfu utanríkisráðuneytis, ríkisstjórnar né Alþingis. Þar með stefnir auðvitað strax í óefni um hvaða kröfur skuli reisa í viðræðum við ESB svo að verja megi almannaþjónustuna byggða á félagslegum grunni. Afleiðingin er sú, að þó svo að viðeigandi samningahópi sé upp á lagt að fylgja sundurliðuðum tilmælum Alþingis í erindisbréfi, að hvergi er að sjá í vinnuskjölum hópsins neina frekari tilvísun til þeirra né að sérstakar kröfur séu taldar nauðsynlegar svo verja megi umrædda meginhagsmuni. Skýr afstaða ríkisvaldsins um hvernig opinber almannaþjónusta skuli skipulögð og skilgreind er því forsenda þess að hægt sé að verja almannahagsmuni á þessu sviði.
Vilji Alþingis virtur að vettugi
Tilmæli Alþingis, þess efnis að nauðsynlegt (sé) að íslensk lög og reglur um opinbera almannaþjónustu og framkvæmd hennar verði tekin til skoðunar, t.d. með sérstökum lögum um almannaþjónustu, svo að tryggja megi sem frekast er unnt að lagaumhverfi ESB hafi ekki áhrif á sjálfstætt ákvörðunarvald stjórnvalda til að skipuleggja og fjármagna opinbera almannaþjónustu, né heldur dómaniðurstöður Evrópudómstólsins hafa verið virt að vettugi, - að því sem best verður séð. (Og hér tek ég fram að ég byggi þetta álit mitt á þeim gögnum sem ég hef séð og gerð hafa verið opinber, en mikil áhersla var lögð á það af hálfu Alþingis að hafa öll gögn er varða almannahagsmuni í aðildarferlinu opin almenningi.)
Hvers konar almannaþjónustu vill ríkisstjórnin?
Greining af þessu tagi hefði verið nauðsynleg til að hægt væri að átta sig á hvað væri t.d. talið ásættanlegt hvað lið b varðar: Svo dæmi sé tekið þá hafa laga og reglubreytingar hjá ESB á sviði raforku leitt til þess að opinberum fyrirtækjum á þessu sviði hefur verið skipt upp og þau að að hluta eða alfarið sett á markað. Núverandi ríkisstjórnarflokkar voru mjög gagnrýnir þegar Valgerður Sverrisdóttir fyrrum iðnaðarráðherrra Framsóknarflokkins innleiddi þær reglugerðir og töldu margir að undanskilja hefði mátt Íslands frá þeim. Hvaða skoðun hefur ríkisstjórnin á þessu í dag og eru önnur svið þar sem viðlíka breytingar í markaðsátt innan ESB gætu leitt til þess að opinber almannaþjónusta yrði einkavædd? Og hvað kröfur er þá nauðsynlegt að reisa til að koma í veg fyrir það og verja hið norræna form opinberrar almannaþjónustu?
Alvarlegar brotalamir
Þegar við bætist að tilmæli Alþingis ná ekki óbreytt í gegn til samningahópanna heldur eru þau skorin við trog, og að utanríkisráðuneytið telur að aðeins þurfi að huga að þeim hvað varðar einn samningskafla, sem sannarlega tekur ekki á almannaþjónustunni nema að litlu leyti, að þá er ljóst að um mjög alvarlega brotalöm er að ræða hvað varðar aðildarviðræðurnar.
Aðlögunarviðræður ekki samningar
Það er því ljóst að þar sem engin greiningarvinna hefur farið fram sem skýrir hvað Alþingi átti í raun við með skilgreiningu meginhagsmuna Íslands að þá hefur vinna viðkomandi samningshóps einungis falist í rýnivinnu. Löggjöf Íslands og ESB hefur verið skoðuð og kannað hvar hún passar saman eða ekki, greinagerðir hafa verið unnar á þeim grunni og samningsmarkmiðin síðan soðin saman upp úr því. Aðildarviðræðurnar eru því ekki samningaviðræður um almannaþjónustuna, heldur einungis réttnefndar aðlögunarviðræður.
Almenningur afvegaleiddur?
Og spurningin sem vaknar er því hvernig í ósköpunum á almenningur á Íslandi að taka upplýsta afstöðu til væntanlegs samnings þegar breitt hefur verið yfir fjölmörg álitamál og ágreiningsatriði með þessum hætti? Þeir sem eru í forsvari láta eins og allt sé í himnalagi og tala um það sem mælikvarða á velgengi viðræðnanna hversu hratt það gengur að loka samningsköflum! Jafnvel þó það þýði að stjórnvöld séu þar með að mála sig út í horn með að geta gætt fyrirfram skilgreindra meginhagsmuna Íslands. Sýna þessi vinnubrögð ekki að það er verið að afvegaleiða almenning um eðli og framgang viðræðnanna við ESB, þvert á öll hátíðlegu loforðin?
Hver gætir eftirlitsmannana?
Það átti að girða fyrir að svona nokkuð gæti gerst með því að láta aðila málsins hafa gætur hver á öðrum. Í áliti meirihluta utanríkisnefndar segir:... að ráðherrar auk samningamanna komi reglulega á fund utanríkismálanefndar, auk þess sem öll gögn sem lögð eru fram í aðildarviðræðum komi á borð nefndarinnar. Þá segir enn fremur: Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að Alþingi komi með sem beinustum hætti að ferlinu á öllum stigum þess. Tryggja verður að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þátttakandi og eftirlitsaðili frá upphafi og í ferlinu öllu. Á upplýsingasíðu utanríkisráðuneytisins segir síðan: Tryggt verður að Alþingi komi með sem beinustum hætti að ferlinu á öllum stigum þess. Í beinni aðkomu utanríkismálanefndar að ferlinu felst meðal annars að hún mun eiga reglulega fundi með aðalsamningamanni og fulltrúum í samninganefnd og eftir atvikum ráðherrum, haft verði samráð við nefndina áður en samningsafstaða Íslands á einstökum sviðum verði samþykkt og reglulegir upplýsinga- og samráðsfundir verði haldnir um framvindu viðræðna og opnun og lokun einstakra samningskafla.
Alþingi ber ábyrgð ekki síður en ríkisstjórnin
Það virðist því ljóst að Alþingi ber skýra ábyrgð á þessum vinnubrögðum, ekki síður en utanríkisráðherra og ríkisstjórnin. Það er því spurning hver þessara aðila, ef nokkur, vill taka málið til umræðu þegar Alþingi kemur saman á nýjan leik?
Hvernig eru þá vinnubrögðin annars staðar?
Og að lokum; ef að þetta eru vinnubrögðin hvað varðar skilgreinda meginhagsmuni Íslands er varða almannaþjónustuna hvernig er þá staðan í öðrum málaflokkum?
-phh
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.12.2011 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.12.2011 | 11:07
Gleðileg jól!
Nú eru komin jól og ég óska öllum lesendum gleðilegra jóla! Þráðurinn verður tekinn upp fljótlega milli jóla og nýárs.
Þá munum við halda áfram að skoða samningaferlið og hvernig að því hefur verið staðið. Ég hef eftir áreiðanlegum heimildum að greiningin á hvernig staðið hefur verið að aðildarviðræðunum hafi verið rætt "á æðstu stöðum" þannig nú verður fylgst með hvernig stjórnvöld muni bregðast við framsettri gagnrýni.
Gleðileg jól!
21.12.2011 | 17:30
Við nennum ekki að hlusta á ykkur! Frakklandsforseti sýnir forsætisráðherra Dana hroka og dónaskap
"Þið standið fyrir utan. Þið eruð lítið land og þú ert ný. Við nennum ekki að hlusta á ykkur"! Þessum miður kurteisu og hrokafullum orðum skellti Sarkozy Frakklandsforseti framan í Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra Dana, á nýafstöðnum leiðtogafundi ESB þann 9. desember sl. að því sem The Financial Times hermir. Mun Helle hafa tjáð sig jákvætt um að finna málamiðlunartillögu milli tillagna James Cameron annars vegar og Sarkozy og Merkels hins vegar og uppskorið þessi viðbrögð hjá Frakklandsforseta.
Sören Söndergaard, danskur Evrópuþingmaður segir í þessu tilefni á Facebook-síðu sinni að "Sarkozy sé uppblásinn bjáni, en hegðun hans sýni, hvernig bakhliðin á ESB líti út.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)