Hver ber ábyrgð á hugsanlegum samningi?

Í framhaldi af síðusta bloggi er rökrétt að spyrja um ábyrgð. Hver ber ábyrgð, fyrir Íslands hönd, á þeirri niðurstöðu sem hugsanlega næst fram í aðildarviðræðum Íslands og ESB? Ef að það er skilyrt af Íslands hálfu í upphafi leiks að niðurstöðu skuli náð – samningur skuli gerður sem borinn verði undir þjóðaratkvæði, -er þá ekki rökrétt að báðir ríkisstjórnarflokkarnir beri jafna ábyrgð og eru þeir ekki skuldbundnir til að standa með niðurstöðunni?

Svo virðist ekki endilega vera. Í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna segir:

Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu.”

Hvernig á að túlka þetta? Hvað eru “stjórnvöld” í þessu samhengi annað en ríkisstjórn? Og hvað er þá “ríkisstjórn” í þessu samhengi? Varla mun forsætisráðherra ráða því ein hvort samningurinn telst ásættanlegur? En Jóhanna og Steingrímur í sameiningu? Eða leyfist kannski hverjum ráðherra fyrir sig að hafa skoðun á samningnum? Má búast við að nokkrir ráðherra segi já og aðrir nei? Má búast við að ráðherrar verði hver með sinn fyrirvara við samningnum? Að Jón Bjarnason verði með fyrirvara um landbúnað og sjávarútveg og aðrir með fyrirvara um aðra þætti samningsins sem að þeim snýr? Hver er á afstaða ríkisstjórnarinnar til samningsins? Ber hún þá enga heildstæða ábyrgð á honum? Utanríkisráðherra kannski, af því hann ber stjórnskipulega ábyrgð?

Ekki er hægt að skrifa upp á hálfan samning

Er það ekki svo að formenn ríkisstjórnarflokkanna verða að skrifa upp á samninginn gagnvart ESB og bera þá ekki ríkisstjórnarflokkarnir báðir ábyrgð á gerðum samningi? Eða munu þeir skrifa upp á samninginn með fyrirvara um einstök efnisatriði hans? Varla mun ESB taka slíkt í mál. Þannig að “fyrirvarar stjórnvalda” hljóta að vera ætlaðir til heimabrúks – gagnvart ESB er annað hvort skrifað upp á eða ekki! Nema auðvitað að annar hvor flokkurinn hafi slíka fyrirvara við samning við ESB um helstu hagsmunamál þjóðarinnar að þeir treysti sér hreinlega ekki til að skrifa upp á samninginn. Og þá erum við aftur komin að spurningunum sem spurt var í síðasta bloggi: Hvenær má hætta?

Á vef utanríkisráðuneytisins, “Umsókn Íslands um aðild að ESB” segir: “...endanlegar ákvarðanir í málefnum tengdum aðildarviðræðum verða í höndum ríkisstjórnar. Í því felst meðal annars að allar ákvarðanir um samningsafstöðu Íslands á einstökum sviðum verða samþykktar í ríkisstjórn að loknu samráðsferli.

Samábyrgð og lýðræði

Og ef að Steingrímur og Jóhanna, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar eru jafnábyrga fyrir niðurstöðunni, munu þau þá ekki vera í mjög slæmri aðstöðu til að gagnrýna samninginn eða mótmæla honum? Lendum við þá ekki í þeim mótsagnakennda veruleika, að því verri samning sem Ísland mun ná, að þeim mun harðar munu þau, sem á honum bera ábyrgð, berjast fyrir honum? Og að hætta sé á að samninganefndin og ríkisstjórnin muni gera sitt ítrasta til að draga fjöður yfir þá agnúa sem á samningnum kunna að vera? Af því að þá fara saman, pólitískir hagsmunir einstakra stjórnmálaleiðtoga við niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu?

Munu þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon setja pólitískt líf sitt að veði með þeirri undirskrift sinni undir samninginn, sem nauðsynleg er, áður en að hægt verði að setja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu? Mun framtíð þá pólitísk framtíð, ekki bara Samfylkingar heldur einnig VG, hanga á þeirri spýtu að þjóðin samþykki aðild að ESB? Jafnvel þó VG hafi aldrei viljað ganga í ESB?

Eða verða formenn ríkisstjórnarflokkanna, ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir alveg ábyrgðarlausir gagnvart þeim samningi sem hugsanlega verður gerður, - af því að á endanum verður þjóðin látin bera ábyrgð með atkvæðagreiðslu sinni?

-phh


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ef mér skilst rétt lesandi upplýsingar hjá ESB þá fara menn þingmenn strax á payrol sem áheyrnarfulltrúar í öllum deildum á þing ESB þ.e. þegar ESB menn eru búnir að segja já. Þeir geta sagt já hvenær sem þeim þóknast. allt þetta þrugl skiptir engu máli því fólk má setjast að hér eins og núna en þetta gerðu Portulalar þegar bretland undanskildi veiðar erlendra í þeirra landhelgi.

Miðað við okkar ráðherraræði þá getur ráðherra viðkomandi málaflokks skrifað undir og þá er ballið byrjað. ESB er þegar komin inn með sitt probaganda fólk. Þeim verður ekki snúið við því umsóknin er ekki með skilyrðum. Skyldyrðin eru á aukapappír sem vinnuskjöl. Síðan verða málaferli já og kannski þjóðarkosningar.

Valdimar Samúelsson, 8.12.2011 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband