Röksemdir með og á móti “Fjármálapakka” ESB

“Fjármálapakkinn” eða “Vaxtar- og stöðuleikasamningur” ESB eða hvaða nafni hið nýgerða samkomulag 26 ríkja ESB mun gegna í framtíðinni, er að sjálfsögðu eitt af afdrifaríkari skrefunum í sögu ESB. Hér á þessari bloggsíðu verður fjallað ítarlega um tilurð þessa samkomulags, efni hans og afleiðingar, en við munum hefja umfjöllunina með því að fara yfir nokkrar röksemdir með og á móti samkomulaginu – séð frá sjónarhóli Dana. Er hér stuðst við ágæta yfirferð dönsku bloggsíðunnar http://euzoo.dk/ þar sem reifuð eru nokkrar algengar röksemdir með og móti þeirri ákvörðun að Danir ættu að gerast aðilar að “fjármálapakka” ESB. Hér er auðvitað ekki um tæmandi lista að ræða en það er fróðlegt skoða málið frá sjónarhóli Dana, sem eru jú aðilar að ESB. Sumar þessarra röksemda hljóma kunnuglega í eyrum Íslendinga, meðan aðrar eru ókunnuglegri.

Röksemdir fyrir því að (Danir) gerist aðilar að nýja samkomulaginu

Pólitísk áhrif. Röksemdirnar hér ganga út á að nauðsynlegt sé (fyrir Dani) að vera eins nálægt kjarna valdsins þar sem ákvarðanir eru teknar. Nú gengur Vaxtar- og stöðugleikasamningurinn mikið út á að einstök ríki eiga að taka til í fjármálunum heima fyrir, en þegar ríkin eiga að hittast einu sinni í mánuði – a.m.k. næsta hálfa árið – verður það þá eina umræðuefnið? Og hvaða áherslur verða lagðar? Blogghöfundar benda á að sú pólitíska óeining sem einkenni ESB ríkin, muni halda áfram að vera til staðar, þrátt fyrir samninginn.

Evru-röksemdin: Þessar röksemdir koma í framhaldi af fyrri röksemdunum: Danir munu taka upp evruna einhvern tíma í framtíðinni og þess vegna er nauðsynlegt að vera með núna, þegar stjórnmálamenn eru að leggja stjórnmálalegan og fjármálalegan ramma. Þessar röksemdir hafa þó aðeins vægi trúi menn því að Danir muni einhvern tíma ganga í Evru-klúbbinn.

Samstöðu-röksemdin: Hún gengur út á að við séum stödd á krepputímum sem getur leitt til samdráttar í efnahagslífinu sem jafnast á við kreppuna um 1930. Þess vegna sé mikilvægt að gera allt sem hægt er til að bjarga evrunni. Með að sýna samstöðu megi ekki aðeins bjarga evru-ríkjunum heldur einnig dönskum efnahag, þar sem þá sé danskur útflutningur til evrulandanna tryggður.

Röksemdin um innri markaðinn. Hún gengur út á að Evrópa sem er skipt upp í mismunandi svæði sem ganga á mismunandi hraða og hafa með ólíkar reglur, sé andstæð viðskiptahagsmunum Dana. Hættan sé sú að innri markaðurinn klofni upp í ólík svæði þar sem sérstakar reglur gildi um hvert svæði. Það þýði í raun að grundvallarhugmyndin um innri markaðinn sé tekin til endurskoðunar. Því sé danskt atvinnulíf mótfallið, sérstaklega ef að Þýskaland, sem er stærsti útflutingsmarkaður Dana, yrði á öðru svæði en Danmörk.

Röksemdin um lánamarkaðinn. Hún gengur út á að verði Danir með í “fjármálapakkanum” þá séu þar með send skilaboð til fjárfesta að þeim sé óhætt að fjárfesta í Danmörku. Þeim mun stærri trú fjárfestar hafi á Danmörku, þeim mun lægri muni vextir vera og því fylgi lægri lánakostnaður sem þýði betri vaxtarskilyrði fyrir dönsk fyrirtæki.

Röksemdir gegn því að Danir taki þátt í samkomulaginu.

Átaks-röksemdin eða Kickstarts- argumentet eins og það heitir á góðri dönsku. Danska ríkisstjórnin hafði heitið í kosningunum að koma hjólum atvinnulifsins á fullan snúning með hraði, með samræmdum aðgerðum og peningainnspýtingu. Þátttaka í “fjármálapakkanum”, sem snýst um niðurskurð og aðhald í ríkisfjármálum, passar ekki vel við kosingaloforðin. Þetta hefur valdið pólitískum deilum í Danmörku og eins og einn þingmanna Einingarlistans orðaði það: “Það á ekki að flokkast undir lúxus að fylgja jafnaðarmannastefnu í efnahagsmálum.”

Fullveldis-röksemdin gengur út á að meðan að Danir hafi byggt upp gott lýðræðisþjóðfélag og að þá hafi það verið útþynnt með afsali fullveldis til Brussel. Það sé ekki aðeins siðferðilega rangt, heldur stríði það gegn heilbrigðri skynsemi, þar sem að eru jú Danir sem vita best hvaða reglur passa best í Danmörku.

Hin félagslega Evrópa. Röksemdirnar eru á þann veg að það séu í raun fámennur hópur borgaralegra stjórnmálamanna sem hafi ýtt hugmyndinni um fjármálapakkann á flot og hafi þrýst á að koma honum í framkvæmd. Hugmyndin sé að innleiða samræmda borgaralega (hægri) stefnu í Evrópu með tilheyrandi niðurskurði á opinberum útgjöldum. Röksemdirnar snerta umræðuna um hver kjarninn í samvinnu aðildarríkja ESB eiginlega er eða á að vera.

Lýðræðisröksemdin. Með nýjum milliríkjasamningi flyst ákvörðunarvaldið frá kjósendum og stjórnmálamönnum sem þeir hafa kosið, til lögfræðinga, embættismanna og ráðherra sem eru kjörnir með óbeinum hætti. Röksemdirnar eru skyldar fullveldi-röksemdunum en þó ekki þær sömu, því að er ekki útlit fyrir að Evrópuþingið fái að hafa neitt um hinn nýja samninginn að segja. Það verður með öðrum orðum sífellt erfiðara að krefjast pólitískrar ábyrgðar á þeim ákvörðunum sem teknar eru.

Gildis röksemdin. Hér er spurt þeirrar spurningar um hvaða gildi enn einn samningurinn um niðurskurð og aðhald í ríkisfjármálum hafi eiginlega, þegar raunverulega vandamálið liggur í ójafnvægi í samkeppnishæfni og viðskiptajöfnuði milli norður og suður Evrópu? Paul Krugman, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði og Martin Wolf, blaðamaður á Financial Times eru meðal þeirra mörgu sem hafa fjallað um þetta sjónarhorn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband