8.12.2011 | 14:17
Í upphafi skal endi skoða
Nú þegar svokallaðri rýnivinnu er lokið og efnislegar samningaviðræður hafnar við ESB, en formlega hófust þær á svokallaðri ríkjaráðstefnu þann 27.júní 2011, er nauðsynlegt að reyna að átta sig á hvaða hvar við, Íslendingar, stöndum með þessar viðræður. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að átta sig betur á því hvernig samningaferlið er lýðræðislega samansett af Íslands hálfu og síðan að reyna að grafast fyrir um hvaða kröfur Ísland gerir í viðræðunum og hvort þær kröfur tryggi að þeim meginhagsmunum Íslands í viðræðunum, sem hafa verið skilgreindir, sé til skila haldið. Næstu blogg munu fjalla um þessa mikilvægu þætti.
Álit meirihluta utanríkismálanefndar við þingályktunartillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu (137. löggjafarþing 2009. Þskj. 249 38. mál.) er lykilskjal í viðræðunum við ESB. Þar er farið yfir samningaferilinn eins og Alþingi vill sjá hann og þar skilgreinir Alþingi Íslendinga þá meginhagsmuni Íslands sem það telur nauðsynlegt að verði varðir í samningum við ESB.
En í þessu bloggi verður fyrst litið til nokkurra spurninga sem varða lýðræðislega meðferð. Ég tel að þessum spurningum hafi ekki verið nægjanlega svarað. Svörin hefðu auðvitað átt að liggja skýr fyrir, jafnvel áður en Alþingi greiddi atkvæði um að ganga til viðræðna við ESB. En spurningarnar hafa gildi og er brýnt að þeim verði svarað, ekki síst vegna þess hversu langt viðræðurnar eru formlega komnar.
Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar stendur: Innan flestra stjórnmálasamtaka eru skiptar skoðanir um aðild Íslands að ESB. Engu síður er það almenn skoðun að aðild Íslands að ESB verði aldrei leidd til lykta nema í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvenær slík atkvæðagreiðsla getur farið fram og á hvaða stigi er hins vegar umdeilt. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna er kveðið á um að lögð skuli fram tillaga til þingsályktunar um aðildarviðræður við ESB en að niðurstöður þeirra skuli lagðar fyrir þjóðina.
Með öðrum orðum: 1. Farið skal í aðildarviðræður. 2. Niðurstöður lagðar fyrir þjóðina og þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. En hvenær slík atkvæðagreiðsla getur farið fram og á hvaða stigi er hins vegar umdeilt. Þá vaknar óumflýjanlega spurningin:
Hvenær má hætta?
Má hætta viðræðum ef að það er ljóst að ESB gerir kröfur á ákveðnum sviðum sem Ísland telur óásættanlegar?
Á að skrifa upp á slíkar kröfur og setja svo slíkan óásættanlegan samning í þjóðaratkvæði?
Á að halda áfram samningaviðræðum þó ekki sé útlit fyrir að ESB gefi eftir? Hversu lengi?
Á að setja spurninguna um hvort slíta eigi viðræðum, vegna þess að ekki náist ásættanleg niðurstaða fyrir Ísland um tiltekið atriði, í þjóðaratkvæðagreiðslu?
eða á að efna til þjóðaatkvæðagreiðslu um það einstaka ágreiningsmál? Og halda svo viðræðunum áfram eða hætta, eftir því hvernig þjóðin kýs?
Forsenda þess að samninganefnd og ríkisstjórn geti metið hvenær um óásættanlegar kröfur ESB geti verið að ræða, er auðvitað að fyrir liggi skýr sýn á hverjir eru meginhagsmunir Íslands. Því fylgir að nauðsynlegt er að Ísland hafi skýra stefnu, sem er lögð fram sem mótaðar kröfur, á öllum sviðum kröfur sem unnar eru út frá hinum tilgreindu meginhagsmunum. Annars er hætt við að hagsmunir Íslands verði fyrir borð bornir og að almenningur geti ekki gert sér grein fyrir hvað er í húfi á hverjum tíma.
Til þess að þessar lýðræðislegu vangaveltur séu raunhæfar þá er nauðsynlegt að allt samningaferlið og sérstaklega ágreiningsmál, séu á hverjum tímapunkti, gegnsæ og upp á borðinu aðgengileg fyrir almenning.
Og í framhaldi af þessu má spyrja:
Hvað gerist ef að annar ríkisstjórnarflokkurinn er ósáttur við að gangast inn á vissar kröfur ESB? Hefur hann rétt til að stöðva viðræðurnar? Er hægt að hefta lýðræðislegan rétt þess flokks til að gera ágreining um samningaviðræður og kalla eftir stöðvun viðræðna, með því að hóta stjórnarslitum?
Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna
Nú eru þeir eflaust til sem telja þessar spurningar ónauðsynlegar, þeim hafi verið svarað í Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna. Þar segi orðrétt: Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Að það sé með öðrum orðið þegar ákveðið fyrirfram, að sama hvaða skilmála ESB muni bjóða upp á, þá muni Ísland á endanum skrifa upp á uppsettan samning. Lýðræðinu sé bjargað með því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu þegar samningur hefur verið undirritaður.
En þá má benda á að þegar álit meirihluta utanríkismálanefndar er skrifað, að þá lá ríkisstjórnarsáttmálinn fyrir. Engu að síður kvað utanríkismálanefnd upp úr með að hvenær slík atkvæðagreiðsla getur farið fram og á hvaða stigi er hins vegar umdeilt. Málið var því ekki útkljáð samkvæmt skilningi meirihluta nefndarinnar.
Og þá má velta fyrir sér hversu skynsamlegt það er að hefja samninga, með fyrirfram útgefinni skuldbindingu um þeim skuli lokið óháð því hvert innihald þeirra kann að reynast. Vissulega er það oftast svo að aðilar sem vilja ná samningum, vonist til og stefni á að slíkir samningar verði að raunveruleika, en það er ekki það sama og að skuldbinda sig fyrirfram til að skrifa upp á samninginn óháð væntanlegu innihaldi hans. Mér vitanlega hefur ESB ekki skuldbundið sem neinum sambærilegum hætti, enda veikir það óneitanlega samningsstöðu að gera slíkt. Það er heldur ekki hægt að ímynda sér að ESB muni vísa í þessa setningu í stjórnarsáttmálanum og krefjast, á grundvelli hennar, að Íslendingar haldi samningaviðræðum áfram fari svo að þeir kjósi að ganga frá samræðunum áður en samningar eru endanlega undirritaðir.
Því er ekki óeðlilegt að ætla að hugsunin bak setninguna; Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum, sé skilyrt þannig að EF samningar takast, þá muni að sjálfsögðu verða efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Spurningar til stjórnmálamanna
Því er þessum spurningum varpað fram núna, bæði til þín kæri lesandi, en einnig til þeirra stjórnmálamanna, sem vald hafa til að svara þeim með skilgreinandi hætti. Því verðar þessar spurningar sendar út til valinna stjórnamálamanna og svörin birt hér á vefnum, þegar og ef þau berast.
-phh
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.