Frankenstein og Ögmundur

Frankenstein-tilskipunin var hún kölluð, þjónustutilskipunin, þegar hún kom fyrst fram 2004. Nafngiftin var tilkomin ekki síst vegna þess hversu gífurlega neikvæð áhrif hún var talin hafa á opinbera almannaþjónustu og var nafnið um tilvísun í nafn þess kommisara ESB sem lagði hana fram, Fritz Bolkenstein. Tilskipunin var talin aðför að réttindum verkalýðshreyfingarinnar og rétt getið afkvæmi nýfrjálshyggjunnar. Bolkenstein þessi hafði áður gegnt hárri stöðu innan Shell olíufélagsins og þótti tilskipunin fagurt dæmi um stéttvísi hans. Hvað sem kann að vera til í því, þá var tilskipunin talin hápólitísk og varð hún til þess að evrópsk verkalýðshreyfing snerist öndverð og hafði í þeirri herför liðsinni fjölmargra félagasamtaka og einstaklinga úr ólíklegustu áttum. Ögmundur Jónasson stóð vaktina í ríkisstjórninni og kom í gegn mikilvægum fyrirvara við tilskipunina, sem er ætlað að vernda réttindi verkafólks og stöðu hinnar opinberu almannaþjónustu.

Ögmundur á vaktinni

Eftir mikil slagsmál var tilskipunin loks samþykkt á Evrópuþinginu í árslok 2006. Hér heima var framlagningu frumvarpsins frestað en það tekið aftur á dagskrá Alþingis 30. mars 2011. Ferðalag þessa frumvarps í gegnum stjórnkerfið var um margt sérstakt. Ögmundur Jónasson, þáverandi heilbrigðisráðherra, stóð lengi einn í ríkisstjórninni á móti upptöku tilskipunarinnar og fékk hann að lokum, þann 26. maí 2009, samþykktan innan ríkisstjórnarinnar sérstakan fyrirvara (yfirlýsingu) við tilskipunina. Þann 9. júni 2009 samþykkti hin sameiginlega EES-nefnd formlega að fella þjónustutilskipunina inn í EES-samninginn.

Alþingi samþykkti svo 25. mars 2010 “með vísan í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um þjónustutilskipun Evrópusambandsins, sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 26. maí 2009, að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, frá 9. júní 2009, um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum (Þjónustutilskipun), og breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við samninginn. “

Yfirlýsingin forsenda samþykktar

Í áliti utanríkismálanefndar, þar sem þessi tillaga kom fram, segir um fyrirvara/yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar; “Yfirlýsing þessi er forsenda þess að íslensk stjórnvöld fallast á innleiðingu þjónustutilskipunarinnar hér á landi.”

Við upptöku þjónustutilskipunarinnar (2006/123/EB) í EES-samninginn er minnt á af hálfu Íslands að tilskipunin hefur m.a. ekki áhrif á ráðningarskilmála og -skilyrði, samskipti milli aðila vinnumarkaðarins, réttinn til þess að semja um og ganga frá kjarasamningum og grundvallarréttindi, s.s. verkfallsréttinn og réttinn til að grípa til aðgerða á vinnustað. Þjónustutilskipunin hefur ekki áhrif á vinnulöggjöf eða þríhliða samvinnu verkalýðsfélaga, vinnuveitenda og stjórnvalda.
Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að hin víðtæka samstaða meðal Íslendinga um að gera áætlanir um aðgerðir, svo og viðeigandi ráðstafanir, sem miða að því að standa vörð um réttindi innlendra og útsendra starfsmanna og góðan aðbúnað á vinnustöðum, stríði ekki gegn þjónustutilskipuninni. Þær ráðstafanir geta m.a. náð yfir skilvirkt kerfi um almenna beitingu kjarasamninga og innleiðingu sameiginlegrar ábyrgðar verktaka og undirverktaka til þess að tryggja að réttindi vinnandi fólks séu virt.
Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að það verði áfram á valdsviði innlendra yfirvalda – á öllum stigum stjórnsýslunnar, ríkisvalds og sveitarstjórna – að ákvarða í hvaða mæli hið opinbera skuli veita þjónustu, hvernig hún skuli skipulögð og fjármögnuð og hvaða sérstöku kvaðir skuli gilda um slíka opinbera þjónustu.

BSRB var í framvarðasveit þeirra sem gagnrýndu þjónustutilskipunina hér heima og var fylgst náið með framvindu hennar. Í september 2009 vann undirritaður umsögn um framkomið frumvarp um þjónustuviðskipti sem ætlað var að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt. Undir lok árs 2010 vann undirritaður svo álitsgerð um ný drög að lögum um þjónustuviðskipti. Það álit verður birt í næsta bloggi, enda veitir það þolinmóðum lesendum nokkra innsýn inn í hvað var í húfi og hversu mikið getur legið í smá letrinu.

-phh


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband