Er verið að plata fólk?

 

Í fyrra bloggi mínu “Meginhagsmunir Íslands fyrir borð bornir í aðildarviðræðunum við ESB” gagnrýndi ég hvernig staðið hefur verið að þeim viðræðum. Bloggið var langt og ítarlegt en hér verða dregnir saman nokkrir helstu punktarnir.

Alþingi leggur línurnar ...

Meirihluti utanríkismálanefndar Alþingis skrifaði greinagerð um tillögu um aðildarumsókn Íslands að ESB og tilgreindi þar nokkur atriði sem Alþingi vildi skilgreina sem meginhagsmuni Íslands. Um þetta atriði segir m.a. í álitinu:

    Nefndin hefur fjallað ítarlega um þá meginhagsmuni sem stjórnvöldum ber að hafa að leiðarljósi í aðildarviðræðum við ESB. Mat meiri hlutans er að það sé fullnægjandi veganesti fyrir stjórnvöld og að tiltekin skilyrði í umboði ríkisstjórnarinnar muni ekki skila neinu umfram það. Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða. Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu.”

     

Meginhagsmunir skilgreindir

Í kafla VII. “Greinargerð um meginhagsmuni Íslands í aðildarviðræðum við ESB” fjallar utanríkismálanefnd svo um meginhagsmuni Íslands og skiptir umfjöllun sinni í eftirtalda kafla: 1.Orku- og auðlindamál. 2. Sjávarútvegsmál. 3.Landbúnaðar- og byggðamál. 4.Umhverfismál. 5. Atvinnu- og iðnaðarmál. 6. Almannaþjónusta og félagsleg mál. 7. Gjaldmiðilsmál. 8. EES-mál 9. Öryggis- og varnarmál. 10. Skatta- og tollamál. 11. Fjármál og fjárlög ESB. Í þessum er að finna almenna umfjöllun en einnig eru þar skilgreindir meginhagmunir Íslands, sem ríkisstjórn og samninganefnd er ætlað að fylgja.

 

Skýr fyrirmæli um almannaþjónustuna

Í blogginu beini ég eingöngu sjónum að kafla sex “Almannaþjónusta og félagsleg mál”. Í raun er kaflanum skipt í tvo aðgreinda kafla þar sem annars vegar er fjallað um “almannaþjónustu” og hins vegar um “félagsleg mál”. Hér beini ég fyrst og fremst athygli að “almannaþjónustunni” en efni kaflanna er um margt tengt og snertir umfjöllun því oft efni beggja kafla. Í kaflanum um almannaþjónustuna eru skilgreind nákvæmlega nokkur atriði sem meginhagsmunir Íslands og gefnar ákveðnar línur sem fylgja skuli í aðildarviðræðunum:

    a. “Telur meiri hlutinn afar mikilvægt að verja hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu. Að mati meiri hlutans er það grundvallaratriði í þessu efni að hvert og eitt ríki geti haldið ákvörðunarvaldi um skipulag sinnar almannaþjónustu að því tilskildu að allir íbúar viðkomandi aðildarríkis fái notið þjónustu og sitji við sama borð. Þannig er eðlilegt að megináhersla Íslands sé á að hið norræna félagslega fyrirkomulag sé áfram við lýði.”

    b. “Meiri hlutinn telur að sama skapi ekki síður mikilvægt að Ísland gæti þess að ekki verði lengra gengið í samræmingu reglna á sviði almannaþjónustu og haldi því t.d. fast á lofti að hugsanleg samræming á reglum um þjónustu hafi ekki áhrif á það rekstrarform sem ríki kunna að velja sér á almannaþjónustu af þessu tagi.”

    c. Telur meiri hlutinn nauðsynlegt að íslensk lög og reglur um opinbera almannaþjónustu og framkvæmd hennar verði tekin til skoðunar, t.d. með sérstökum lögum um almannaþjónustu, svo að tryggja megi sem frekast er unnt að lagaumhverfi ESB hafi ekki áhrif á sjálfstætt ákvörðunarvald stjórnvalda til að skipuleggja og fjármagna opinbera almannaþjónustu, né heldur dómaniðurstöður Evrópudómstólsins.”

 

Skilgreiningar skortir

Spurningin sem ég spyr er hvað hefur verið gert svo fylgja megi þessum skýru tilmælum Alþingis til framkvæmdavaldsins og hvernig hefur þeim verið fylgt? Fyrsta forsenda þess að framkvæmdavaldið geti fylgt tilmælum Alþingis er auðvitað að það liggi fyrir skýr og sameiginlegur skilningur á því hvað telst vera “hið norræna form félagslegrar almannaþjónustu.” Ekki verður séð af þeim pappírum sem liggja frammi um aðildarviðræðurnar og ég hef lesið, að slík skilgreiningarvinna hafi nokkru sinni farið fram af hálfu utanríkisráðuneytis, ríkisstjórnar né Alþingis. Þar með stefnir auðvitað strax í óefni um hvaða kröfur skuli reisa í viðræðum við ESB svo að verja megi almannaþjónustuna byggða á félagslegum grunni. Afleiðingin er sú, að þó svo að viðeigandi samningahópi sé upp á lagt að fylgja sundurliðuðum tilmælum Alþingis í erindisbréfi, að hvergi er að sjá í vinnuskjölum hópsins neina frekari tilvísun til þeirra né að sérstakar kröfur séu taldar nauðsynlegar svo verja megi umrædda meginhagsmuni. Skýr afstaða ríkisvaldsins um hvernig opinber almannaþjónusta skuli skipulögð og skilgreind er því forsenda þess að hægt sé að verja almannahagsmuni á þessu sviði.

 

Vilji Alþingis virtur að vettugi

Tilmæli Alþingis, þess efnis að “nauðsynlegt (sé) að íslensk lög og reglur um opinbera almannaþjónustu og framkvæmd hennar verði tekin til skoðunar, t.d. með sérstökum lögum um almannaþjónustu, svo að tryggja megi sem frekast er unnt að lagaumhverfi ESB hafi ekki áhrif á sjálfstætt ákvörðunarvald stjórnvalda til að skipuleggja og fjármagna opinbera almannaþjónustu, né heldur dómaniðurstöður Evrópudómstólsins” hafa verið virt að vettugi, - að því sem best verður séð. (Og hér tek ég fram að ég byggi þetta álit mitt á þeim gögnum sem ég hef séð og gerð hafa verið opinber, en mikil áhersla var lögð á það af hálfu Alþingis að hafa öll gögn er varða almannahagsmuni í aðildarferlinu opin almenningi.)

 

Hvers konar almannaþjónustu vill ríkisstjórnin?

Greining af þessu tagi hefði verið nauðsynleg til að hægt væri að átta sig á hvað væri t.d. talið ásættanlegt hvað lið b varðar: Svo dæmi sé tekið þá hafa laga og reglubreytingar hjá ESB á sviði raforku leitt til þess að opinberum fyrirtækjum á þessu sviði hefur verið skipt upp og þau að að hluta eða alfarið sett á markað. Núverandi ríkisstjórnarflokkar voru mjög gagnrýnir þegar Valgerður Sverrisdóttir fyrrum iðnaðarráðherrra Framsóknarflokkins innleiddi þær reglugerðir og töldu margir að undanskilja hefði mátt Íslands frá þeim. Hvaða skoðun hefur ríkisstjórnin á þessu í dag og eru önnur svið þar sem viðlíka breytingar í markaðsátt innan ESB gætu leitt til þess að opinber almannaþjónusta yrði einkavædd? Og hvað kröfur er þá nauðsynlegt að reisa til að koma í veg fyrir það og verja hið norræna form opinberrar almannaþjónustu?

 

Alvarlegar brotalamir

Þegar við bætist að tilmæli Alþingis ná ekki óbreytt í gegn til samningahópanna heldur eru þau skorin við trog, og að utanríkisráðuneytið telur að aðeins þurfi að huga að þeim hvað varðar einn samningskafla, sem sannarlega tekur ekki á almannaþjónustunni nema að litlu leyti, að þá er ljóst að um mjög alvarlega brotalöm er að ræða hvað varðar aðildarviðræðurnar.

 

Aðlögunarviðræður – ekki samningar

Það er því ljóst að þar sem engin greiningarvinna hefur farið fram sem skýrir hvað Alþingi átti í raun við með skilgreiningu meginhagsmuna Íslands – að þá hefur vinna viðkomandi samningshóps einungis falist í rýnivinnu. Löggjöf Íslands og ESB hefur verið skoðuð og kannað hvar hún passar saman eða ekki, greinagerðir hafa verið unnar á þeim grunni og samningsmarkmiðin síðan soðin saman upp úr því. Aðildarviðræðurnar eru því ekki samningaviðræður um almannaþjónustuna, heldur einungis réttnefndar aðlögunarviðræður.

 

Almenningur afvegaleiddur?

Og spurningin sem vaknar er því hvernig í ósköpunum á almenningur á Íslandi að taka upplýsta afstöðu til væntanlegs samnings þegar breitt hefur verið yfir fjölmörg álitamál og ágreiningsatriði með þessum hætti? Þeir sem eru í forsvari láta eins og allt sé í himnalagi og tala um það sem mælikvarða á velgengi viðræðnanna hversu hratt það gengur að loka samningsköflum! Jafnvel þó það þýði að stjórnvöld séu þar með að mála sig út í horn með að geta gætt fyrirfram skilgreindra meginhagsmuna Íslands. Sýna þessi vinnubrögð ekki að það er verið að afvegaleiða almenning um eðli og framgang viðræðnanna við ESB, þvert á öll hátíðlegu loforðin?

 

Hver gætir eftirlitsmannana?

Það átti að girða fyrir að svona nokkuð gæti gerst með því að láta aðila málsins hafa gætur hver á öðrum. Í áliti meirihluta utanríkisnefndar segir:”... að ráðherrar auk samningamanna komi reglulega á fund utanríkismálanefndar, auk þess sem öll gögn sem lögð eru fram í aðildarviðræðum komi á borð nefndarinnar.” Þá segir enn fremur: “Meiri hlutinn leggur ríka áherslu á að Alþingi komi með sem beinustum hætti að ferlinu á öllum stigum þess. Tryggja verður að þingið standi ekki frammi fyrir orðnum hlut heldur sé virkur þátttakandi og eftirlitsaðili frá upphafi og í ferlinu öllu.” Á upplýsingasíðu utanríkisráðuneytisins segir síðan: “Tryggt verður að Alþingi komi með sem beinustum hætti að ferlinu á öllum stigum þess. Í beinni aðkomu utanríkismálanefndar að ferlinu felst meðal annars að hún mun eiga reglulega fundi með aðalsamningamanni og fulltrúum í samninganefnd og eftir atvikum ráðherrum, haft verði samráð við nefndina áður en samningsafstaða Íslands á einstökum sviðum verði samþykkt og reglulegir upplýsinga- og samráðsfundir verði haldnir um framvindu viðræðna og opnun og lokun einstakra samningskafla.”

 

Alþingi ber ábyrgð – ekki síður en ríkisstjórnin

Það virðist því ljóst að Alþingi ber skýra ábyrgð á þessum vinnubrögðum, ekki síður en utanríkisráðherra og ríkisstjórnin. Það er því spurning hver þessara aðila, ef nokkur, vill taka málið til umræðu þegar Alþingi kemur saman á nýjan leik?

 

Hvernig eru þá vinnubrögðin annars staðar?

Og að lokum; ef að þetta eru vinnubrögðin hvað varðar skilgreinda meginhagsmuni Íslands er varða almannaþjónustuna – hvernig er þá staðan í öðrum málaflokkum?

-phh


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Þessir hagsmunir með umræðum  um ESB  eru mjög einfaldir eins og - þeir sem vinna að þeim.

   ÞAR ER EIN STEFNA- AÐ FÁ FUNDARSETUR MEÐ FÍNA FÓLKINU OG FERÐAST  OG DVELJA LANGDVÖLUM Á 5 STJÖRNU HÓTELUM OG VIÐ BORGUM !

   bESTU KV. ERLA MAGNA

Erla Magna Alexandersdóttir, 28.12.2011 kl. 19:29

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Spurning um að heimsækja ESB trúboðið og svara þessum "ásökunum".  Þeim er greinilega órótt með skrif þín og reyna að gera lítið úr þeim með non sequitur í anda málefnahefðar þeirra.

Jón Steinar Ragnarsson, 29.12.2011 kl. 14:57

3 identicon

Það vantar betri linka á þessa síðu. ESB er alveg eins og USA. Þar eru þeir hættir að reiða sig á ódýrt kínverskt vinnuafl því vinnuframlag bandarískra fanga gefur mun meira af sér.

http://www.alec.org/

http://alecexposed.org/wiki/ALEC_Exposed

http://daviddegraw.org/2011/08/fascism-in-america-the-american-legislative-exchange-council-prison-labor/

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 30.12.2011 kl. 18:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband