Ég stend fast á stefnu VG

Ætlast til að samþingsmenn mínir í stjórnarliði virði þann sáttmála

Viðtal við Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra

Jón Bjarnason landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur sætt harðri gagnrýni frá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra og formanni Samfylkingarinnar og hafa margir talað um aðför að ráðherranum. Í umræðum á Alþingi í vikunni, vísaði Jóhanna því hins vegar á bug að hún hafi verið með aðdróttanir eða aðför Jóni. “Málið snýst fyrst og fremst um óásættanleg vinnubrögð í meðferð fiskveiðistjórnunarmálsins, sem hefur verið alltof mikill hægagangur í og vinnubrögðin ekki sem skyldi,” sagði hún þar. Hún hefur einnig gagnrýnt Jón fyrir að hafa ekki tryggt að nægjanleg samvinna væri milli stjórnarflokkanna um málið og sagði að þær hugmyndir sem vinnuhópur á vegum Jóns lagði fram væru langt frá stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu.

-Ef við tökum fyrst gagnrýni hennar um “óásættanleg vinnubrögð” þín í meðferð fiskveiðistjórnunarmálsins. Er sú gagnrýni að einhverju leyti réttmæt að þínu mati?

Ég ætla mér ekki að tjá mig sérstaklega um þessi orð forsætisráðherra en bendi á að málið hefur í tvö ár verið í j_n_bjarnasamráðsferli stjórnarflokkanna, eða allt frá því “sáttanefndinni” var komið á laggirnar vorið 2009. Síðastliðið sumar var málið í fjóra mánuði á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis. Þegar það kom til ráðuneytisins aftur í október var unnið mjög hratt að því að fara yfir þær umsagnir sem höfðu borist og skila því til stjórnarflokkanna til umfjöllunar.

Þær hugmyndir sem vinnuhópurinn leggur til eru að hans mati ákveðið einstigi milli þeirra hugmynda sem eru uppi meðal stjórnarliða. Að einhverju verður það eðli slíkrar málamiðlunar að það er engu okkar algerlega að skapi.

- Nú hefur Jóhanna lagt til að “verkstjórn” málsins verði falin ráðherrunum Katrínu Jakobsdóttur og Guðbjarti Hannessyni. Er verið að taka málið af þér?

Nei, alls ekki. Ráðherranefndin fer yfir það sem liggur fyrir og það er ekki nema gott um það að segja að ráðherrar beri saman bækur sínar um þetta. En málið sjálft er áfram undir minni forystu og míns ráðuneytis.

- Hvert er framhald fiskveiðistjórnunarmálsins á næstunni?

Það er afar fáum mönnum gefið að sjá inn í framtíðina og ég tel mig ekki í þeim hópi. Ég bind vonir við að þetta mál hljóti á næstunni málefnalega og uppbyggjandi umræðu, innan þings og utan.

Það sem við höfum í hendi er að sjá hvað hefur verið gert. Það hafa í tíð ríkisstjórnarinnar verið gerðar verulegar breytingar á stjórn fiskveiða með innleiðingu strandveiða, útboði á skötusel, auknum byggðatengingum og fleira mætti telja.

- Nú eru margir þeirrar skoðunar að raunveruleg ástæða þessara óvenjulegu aðfara forsætisráðherra gegn samráðherra í ríkisstjórn, sé örvænting og reiði forystu Samfylkingarinnar yfir því hversu dræman hljómgrunn helsta stefnumál flokksins hafi meðal þjóðarinnar nú um stundir. Og að þú sért Samfylkingunni slíkur Þrándur í Götu vegna andstöðu þinnar við inngöngu í ESB að við þig þurfi að losna úr ríkisstjórn. Til þess hafi Samfylkingin gert margar atlögur og frægt varð t.d. þegar þegar að Einar Guðfinnsson þingmaður, kallaði ný lög um stjórnarráðið lengsta uppsagnarbréf Íslandssögunnar. Hvert er þitt mat á þessu?

Dæmi nú hver fyrir sig, en það er ekki rétt að ég tjái mig um spurningu sem þessa.

- Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur að ríkisstjórnarflokkarnir séu “... sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína...” Í ljósi þinnar reynslu, hvernig finnst þér að Samfylkingin hafi virt þennan lið stjórnarsáttmálans?

Ég hef í mínu pólitíska starfi talið mig hafa fullan rétt til að halda fram mínum sjónarmiðum í þessu máli og mun gera það áfram. Þar vinn ég eftir stefnu míns flokks og hef til þess sama rétt og þeir sem tala fyrir aðild en stefna flokkanna tveggja er gerólík í þessum málum. Ég ætlast til að samþingsmenn mínir í stjórnarliði virði þann sáttmála sem gerður hefur verið.

Burtséð frá þessu vinnum við öll að umsókninni eins og Alþingi hefur lagt fyrir en við verðum líka að hafa hugfast að í þingsályktun Alþingis eru gerðir sterkir fyrirvarar sem skilyrða umsóknarferlið.

- Snúum okkur þá að VG. Á nýafstöðnum landsfundi VG var samþykkt ályktun þar sem það er talið vera eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar”. Í ljósi þessa orðalags, að það þurfi að “herða róðurinn”,- hefur flokksforysta VG beitt sér sem skyldi að þínu mati, í þessum efnum, eða telur þú að tillitssemi við Samfylkinguna hafi haft letjandi áhrif á málflutning forystu VG?

Afstaða mín í þessu efni hefur legið fyrir og ég hef beitt mér í þessu máli, bæði í orði og verki. Aðrir í forystu flokksins verða að svara fyrir sig.

Í svari sínu á Alþingi sem fyrr var vitnað til, tók Jóhanna skýrt fram að það væri alfarið á hendi VG að ákveða hverjir væru ráðherrar flokksins og að hún “hefði ekkert boðvald yfir þingflokki VG”. Þar með færir hún alla ábyrgð af hugsanlegum brottrekstri þínum af sínum herðum og yfir á Steingrím J. Sigfússon.

Það er þingflokkur VG ákveður ráðherraval flokksins. Ég hef staðið fast á stefnu VG og hef setið á þingi fyrir þann flokk frá því hann var stofnaður. Þar hef ég átt virkan þátt í mótun okkar baráttu og menn vita fyrir hvað ég stend í þeim efnum. Undanfarið hef ég fundið fyrir breiðum og almennum stuðningi almennra flokksfélaga, sagði Jón Bjarnason að lokum.

-phh


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband