Hingað og ekki lengra!

Verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur fengið nóg og segir “hingað og ekki lengra!” við þeirri stefnu ESB að almenningur eigi að borga bönkunum fyrir þá kreppu sem þeir ollu. Í dag 30. nóvember lætur verkalýðshreyfingin, ETUC, Evrópusamband verkalýðsfélaga og EPSU, Evrópusamband starfsfólks í opinberri þjónustu svo til skarar skríða gegn samdráttar- og niðurskurðartillögum ESB, með skipulagningu mótmæla og verkfalla um alla Evrópu. Er verkalýðshreyfingin algjörlega á öndverðum meiði við þá stefnu sem Evrópusambandið hefur markað á síðustu mánuðum og telur að ESB lúti vilja fjármálamarkaðarins og peningaaflanna. Afleiðingin af stefnu ESB sé eyðilegging félagslegra réttinda, lækkun launa, niðurskurður velferðarkerfisins. Vill verkalýðshreyfingin sjá nýja og gjörbreytta stefnu með áherslu á félagslegan jöfnuð og velferð.

“Hingað og ekki lengra! Framtíð Evrópu getur ekki byggst á niðurskurði, óöryggi og afturför í félagslegum málum. Við styðjum aðildarfélög okkar í hverju landi fyrir sig og krefjumst þess af leiðtogum Evrópu að þeir láti af þjónkun við fjármálamarkaðina. Evrópa þarf á gjörbreyttri stefnu að halda,” segir Bernadette Ségol, formaður ETUC, Evrópusambands verkalýðsfélaga, í tilefni dagsins.

EPSU, Evrópusamband starfsfólks í opinberri þjónustu, skipuleggur verkföll, aðgerðir og mótmælagöngur í 25 af 27 aðildarlöndum ESB í dag. Verkalýðsfélög í Bretlandi eru í verkfalli í dag, því umfangsmesta síðan 1926. Í Portúgal, þar sem verkalýðsfélögin hafa nýverið farið í allsherjarverkfall, verður mótmælt fyri framan þinghúsið, en þar á að fara fram kosning um niðurskurðaraðgerðir stjórnvalda. Mótmæli og aðgerðir verða í Frakklandi í dag og stefna verkalýðsfélögin að meiriháttar verkfalli eftir tvær vikur. Hér má sjá yfirlit yfir aðgerðir dagsins og komandi aðgerðir (http://www.epsu.org/a/8178 ).NoToAusterity-bc2f1

Evrópa þarf að taka trúverðuga afstöðu til sjálfbærrar þróunar, sanngjarnar skattlagningar, fjárfestinga í opinberri almannaþjónustu, meira jafnréttis og minni fátæktar,” segir Carola Fischbach-Pyttel, formaður EPSU. EPSU krefst þess nú að ESB breyti um aðferðafræði í kreppuráðstöfunum sínum og taki upp skatt á fjármagnshreyfingar (FTT). EPSU vill að tekið verði upp þrepaskipt skattlagning, að skattaskjólum í Evrópu verði útrýmt, barist verði gegn spillingu, skattasvindli og því að stórfyrirtæki komi sér undan skattheimtu.

Þá vilja aðildarfélög ESPU einnig tryggja rétt verkalýðsfélaga til heildstæðra kjarasamninga og sjálfstæði verkalýðsfélaga til samninga við atvinnurekendur. Verkalýðsfélögin krefjast þess að Framkvæmdastjórn ESB og Seðlabanki Evrópu hætti tafarlaust öllum afskiptum af samksiptum á vinnumarkaði og miðlægum kjarasamningum.

Þessi dagur aðgerða í Evrópu er upphaf ferils sem mun gefa þegnum Evrópu raunverulega tilfinningu fyrir samstöðu. Núgildandi stefna valdhafa í Evrópu mun eyðileggja allt sem við höfum barist fyrir áratugum saman. Við segjum nei við samræmdu niðurskurðarbrjálæði og já við félagslegri og lýðræðislegri Evrópu,” sagði formaður EPSU í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband