Út í djúpu laugina...

Það er ekki heiglum hent að kasta sér út í þann svelg umræðu um ESB sem nú, loksins, flýtur yfir alla bakka í íslenskum fjölmiðlum. Sú umræða líkist einna helst vorleysingum þar sem straumurinn ber með sér brak af ólíku tagi sem sumt marar í hálfu kafi og snýr ýmist fram eða aftur, eða skýst upp úr kafinu augnablik bara til þess að hverfa á ný í djúpið. Fyrir þá sem standa álengdar á bakkanum og fylgjast með, er erfitt að henda reiður á hvað er hvað og hvert samhengi hlutanna kann að vera.

Frá bakkanum séð glittir í straumnum í eitthvað sem heitir á Íslandi“evrópskt matarverð”, þarna bólaði á hluta af umræðu um fiskveiðikerfi, lengra úti flýtur Jón Bjarnason fram hjá með Jóhönnu á bakinu, þar reis og sökk kínverjinn Nubo og svo virðist vera í uppsiglingu heilmikill brotsjór evrunnar, sem áhöld eru um hvort hafi steytt á grísku skeri eða sé orðinn til af innri mótsögnum Evrópusambandins sjálfs. Hvað leynist svo undir yfirborðinu er, eðli máls samkvæmt, hulið sjónum.

Og í hringiðunni miðri snýst Össur Skarphéðinsson á grein og líkist mest kettinum úr Lísu í Undralandi,- eina stundina ekkert nema brosið, þá næstu er hann horfinn. Þaðan vill hann vísa þjóðinni veginn í eitt eilífðar geggjað teboð samningaferlisins, þar sem tíminn stendur kyrr og gestir skiptast á hálfkveðnum vísum og óráðnum gátum. Hvort íslenska sendinefndin verði í hlutverki hinnar syfjuðu svefnmúsar sem veit ekki hvort hún er vakandi eða sofandi í súrrealistiskum draumi, - eða hvort hún á eftir að ganga á dyr eins og Lísa, hneyksluð á vitleysisganginum, á tíminn eftir að leiða í ljós. En þó Evrópusambandinu svipi um margt til sögunnar um Lísu í Undralandi og sé fullt af rökvillum, innri mótsetningum og þrautum af ýmsu tagi, að þá verður íslenska þjóðin að átta sig á hvert hún vill fara.

1book24

Lísa: "Getur þú vísað mér veginn?"

Kötturinn: "Hvert ertu að fara?"

Lísa: "Ég veit það ekki".

Kötturinn: "Þá skiptir ekki máli hvaða leið þú velur, allar leiðir liggja þangað" !!!

Og við vitum öll hvert kötturinn vill fara.

Það er ætlun höfundar þessarar síðu að gera tilraun til að greiða ögn úr flækjunni og fjalla skipulega um nokkra þætti ESB sem ekki hafa fengið mikla umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum eða bloggheimum. Það kemur ekki í veg fyrir að ýmsar ábendingar og athugasemdir verða látnar fljúga um þau mál sem efst kunna að vera á baugi á hverjum degi í fjölmiðlunum og umræðunni almennt. En meira um það í næsta bloggi.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Færsla sem lofar góðu. Eftir að hafa lesið þrjár fyrstu færslurnar sýnist mér að þetta blogg muni verða flott viðbót og fara í flokk með þeim betri.

Haraldur Hansson, 3.12.2011 kl. 17:33

2 Smámynd: ESB og almannahagur

Kærar þakkir Haraldur! Nú er bara  að reyna að standa undir væntingum!

ESB og almannahagur, 3.12.2011 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband