Nýtt Magma í pípunum eða samhengi hlutanna

Um vatnsveitur sveitarstjórna á Íslandi gilda gölluð og hættuleg lög. (2004 nr. 32 7. maí). Verður hér rakið af hverju þau eru hættuleg og af hverju þau bjóða heim hættu á nýjum OR-REI hneykslum og öðrum og stærri Magma-málum. Það er ekki síst í tengslum við EES-löggjöf og hin nýju þjónustulög sem að hætta skapast á að Íslendingar missi tökin á okkar helstu náttúruauðlind, vatninu.

Sveitarfélag má í fyrsta lagi, samkvæmt lögunum, setja sérstaka stjórn yfir vatnsveituna og daglegan rekstur. Það fjarlægir sveitarstjórnarmenn, bæði hvað ábyrgð, innsýn og kunnáttu á rekstri vatnsveitunnar. Það verða til sjálfstæðar stjórnir sem gætu freistast til taka ákvarðanir umfram sitt valdsvið, sbr. Orkuveitu Reykjavíkur. Það kitlar slíka stjórnendur að hugsa til þess að verða bossar í hlutafélagi, með skerta upplýsingarskyldu og þægilegra rekstarumhverfi, meiri laun og bónusa.
Það þrýstir því á heimildina til að stofna hlutafélag. Fjárskortur sveitarfélagsins, hégómagirnd og von um persónulegan ávinning stjórnenda fyrirtækisins gerir það síðan líklegt að utanaðkomandi “fjárfestum”, hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir, verður tekið fagnandi. Hafi það ekki þegar verið gert, mun sveitarfélagið geta nýtt sér heimild til að selja eignir sveitarfélagsins í vatnsveitunni og til að framselja til hlutafélags einkarétt þann sem sveitarfélag hefur á vatnsveitunni til allt að 65 ára. Að þeim tíma liðnum hefur hlutafélagið forgangsrétt til að framlengja einkaréttinn um önnur 65 ár.

Hvenær koma hákarlarnir?
Einhverjir kunna að segja þetta rugl og það sé alls enginn áhugi á eigum sveitarfélaga, hvorki meðal innlendra eða erlendra fjárfesta, eins og dæmin sanna. En spurning sem vaknar er; ef það var ekki ætlun stjórnvalda að opna á þessa möguleika og selja vatnveitur á markaði, af hverju eru lögin þá svona eins og þau eru? Af hverju þurfti BSRB að berjast með kjafti og klóm fyrir að hlutafélögin sem lögin heimila að stofnuð verði um vatnveiturnar, færu ekki að öllu leyti á markað eins og var ætlunin, heldur yrðu þau að vera í meirihluta eigu opinberra aðila? Hvað varðar svo áhuga fjárfesta og þá kannski helst alþjóðlegra fjárfestingar- og vatnsfyrirtækja eins og Suez, að þá er þetta að mínu mati ekki spurning um hvort þau komi, heldur hvenær. Reynslan sýnir að alþjóðleg vatnsfyrirtæki hafa á seinni árum haft aukin áhuga á að koma sér fyrir á “þróuðum” mörkuðum. Hvenær koma þau? Hvenær kveikja þau á perunni að þau geta eignast 49% allra vatnsréttinda vatnveitnanna á Íslandi fyrir slikk? Og með í kaupunum fylgir stöndugur hópur 315 þúsund Íslendinga sem eiga ekki í önnur hús að venda? Byggingarnar, rörin, markaðurinn, veitukerfin, rukkunarkerfin, þetta er allt falt fyrir smáaura á góðu gengi.

Eitt leyfi er nóg...
Kannski finnst einhverjum mikið upp í sig tekið og telja að jafnvel þó að svo ólíklega tækist til að eitthvert eitt ævintýrafyrirtæki reyndi kannski fyrir sér, þá væri óraunhæft að tala um að vatnsveitur landsins séu í hættu. Það er þó ekki jafn fjarlægt og gæti virst. Ef að alþjóðlegu vatnsfyrirtæki teldi sér hagstætt að geta flaggað því á mörkuðum og auglýsinga-pésum, að það hefði á lager helming vatns á Íslandi, þess hreinasta og besta sem finnst í heiminum, þá er ekkert til þess að stoppa það nema veikur vilji fjárvana sveitarstjórnarmanna. Nú þegar búið verður að innleiða þjónustutilskipun ESB, með nýjum lögum um þjónustuviðskipti, þá hefur erlent þjónustufyrirtæki sem fengið hefur leyfi til rekstar vatnsveitu í hlutafélagaformi í einu sveitarfélagi, leyfi til sambærilegs rekstrar um allt land.* Fjárfestirinn þarf bara að ná samkomulagi við viðkomandi sveitarfélög um kaup á hlutafé – og það er fjármagn sem sveitarfélög eru alltaf í þörf fyrir.

(*Í athugasemdum við lög um þjónustuviðskipti segir m.a.: “Með lögunum er ekki hróflað við því hver veiti leyfi á tilteknu svæði en sveitarfélög veita t.d. margs konar leyfi innan síns landsvæðis. Sú staðreynd að leyfisveiting liggur hjá einstökum sveitarfélögum er hins vegar ein og sér ekki næg röksemd fyrir því að leyfi sé takmarkað við ákveðið landsvæði. Ef eitt lögbært yfirvald, t.d. sveitarfélag, hefur veitt þjónustuveitanda leyfi er því meginreglan sú að önnur lögbær yfirvöld verða einnig að viðurkenna leyfið og þjónustuveitandi á því ekki, með rökstuddum undantekningum þó, að þurfa að sækja aftur um leyfi vilji hann veita sömu þjónustu á öllu Íslandi. Með þessu ákvæði er innleidd 4. mgr. 10. gr. þjónustutilskipunarinnar.”)

Er vatnið markaðsvara?
Hvað varðar síðan þá væntanlegu mótbáru að þetta sé nú klárlega bull, opinber þjónusta sé undanskilin ákvæðum þjónustutilskipunarinnar og því falli vatnsveitur sveitarfélaga ekki undir ný lög um þjónustu, þá er því til að svara að það er út af fyrir sig rétt – svo langt sem það nær. Því hér er hins vegar ekki lengur um að ræða hreinan rekstur sveitarfélagsins, þegar það hefur selt bæði tæki og tól og einkarétt til sérstaks hlutafélags. Það hlutafélag er eins og hvert annað, nema að svo vill til að sveitarfélag á þar hlutabréf. Það má jafnvel færa rök fyrir því að þetta fyrirtæki sé á markaði.

Andstæðingar einkavæðingar almannaþjónustunnar hafa löngum haldið því fram að hér sé ekki um raunverulegan markað að ræða, þar sem það sé ekki raunhæft að leggja margar vatnsleiðslur í hvert hús og íbúar þess skrúfa svo frá og fyrir eftir því sem þau skipta um vatnsveitu. Að vatnsveitur séu það sem kallast náttulegur einokunarmarkaður og því væri það vitlausasta sem hægt sé að gera að selja þær til einkafyrirtækja því þær sætu þau í einokunaaðstöðu.

Markaðssinnar ESB og víðar hafa hins vegar gengið hart fram í því að “skapa markað” með því að einkavæða vatnsveiturnar og verður þeim því væntanlega ekki skotaskuld úr að finna markaðsröksemdirnar. “Vatn er orðin söluvara, sveitarfélög hafa farið með vatnveitur á markað, þau hafa gefið defacto frá sér einkaréttindin... “ Hún verður í öllu falli ekki gefin fyrirfram niðurstaðan, þegar Evrópudómsstóllinn tekur fyrir fyrstu kæruna fyrir frá Íslandi og á þetta verður látið reyna. Hafi eitt eða tvo stórfyrirtæki komið sér fyrir á markaðinum, en þetta jafnvel enn líklegra. Það er því fátt sem stöðvar röð af nýjum Magma-málum í vatnveitugeiranum.

Meirihlutaeign einkaaðila á vatnsveitum möguleiki?

Það er svo einnig spurning hvort svona erlent vatnsfyrirtæki geti ekki náð meirihluta í vatnsveitu á Íslandi. Þrátt fyrir “BSRB-ákvæðið” um að stofnun eða félag sem að sveitarstjórn felur skyldur sínar og réttindi varðandi vatnsveitur, verði að vera að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga. Það fer væntanlega eftir því hvernig lögin verða túlkuð, en samkvæmt 3.gr. vatnveitulaganna er sveitarstjórnum heimilt að leggja og reka sameiginlega vatnsveitu. Ef að sveitarfélag A á vatnsveitu að 51% á móti 49% hlut fyrirtækisins X og það sama fyrirtæki X á einnig 49% hlut í vatnsveitu nágrannasveitarfélagsins B og sveitarfélögin A og B ákveða að reka vatnsveituna sameiginlega – þá er fyrirtækið X augljóslega komið í meirihlutaaðstöðu. Hér væri vissulega verið að fara á svig við það sem virðist laganna hljóðan, en annað eins hefur jú gerst. Og því má ekki gleyma að það er EFTA-dómstóllinn eða Evrópudómstóllinn sem munu hafa síðasta orðið í slíkum túlkunum, verði málum vísað í þann farveg.

Vatn er ekki vatn á Íslandi

Hvað tekur það slíkt erlent fyrirtæki langan tíma að fara að leita að leiðum til að bæta við fjárfestingar sínar og auka arðinn á fjárfestingunni? Íslenskar vatnsveitur líkt og aðrar vatnsveitur búa að átthagabundnum og því traustum viðskiptavinum. Því er alltaf “svigrúm til hækkana” upp að því hámarki sem lögin segja til um (0,5% af fasteignamati viðkomandi fasteignar) En svo má alltaf búast við stórfelldum vatnsútflutningi og meðfylgjandi landakaupum. Það vatn verður ekki sótt í yfirborðsvatn heldur grunnvatn. Það þýðir hins vegar að allt það vatn er háð eignarrétti, því grunnvatn er, samkvæmt hugmyndum lagasmiða laga um auðlindir í jörðu, alveg óháð öðru vatni. Telja má víst að grunnvatn og yfirborðsvatn sé hvergi talið til ólíkra efna með jafnskírum hætti og í íslenskum lögum. Þessi ólíku og væntanlega ótengdu efni verðskulda hvort sína löggjöfina og um þau gilda ólíkar réttarheimildir.

     

Svikin í vatnamálinu

Erum við þá komin að hinni nýju vatnalögum, en afgreiðsla þeirra er að mínu mati stærsti skandall sem núverandi ríkisstjórn hefur gert sig seka um. Samfylkingin, undir forystu Katrínar Júlíusardóttur iðnaðarráðherra, lagði fram nýtt vatnafrumvarp og fékk samþykkt sem lög, sem svíkur allt það sem flokkurinn talaði fyrir í umræðum á Alþingi, þegar Valgerður Sverrisdóttir lagði fram sitt einkavæðingarfrumvarp um vatn 2006. Með afgreiðslu nýrra vatnalaga skilur “vinstri stjórnin” allt grunnvatn og þar með drykkjarvatn eftir í einkaeigu landeiganda! Nákvæmlega það sem barist var gegn í lengstu umræðulotu sem fram hefur farið á Alþingi, þegar ríkisstjórnarflokkarnir börðust gegn vatnalagafrumvarpi Valgerðar.

Eini ráðherrann sem beitti sér gegn þessu nýja frumvarpi var Ögmundur Jónasson og náði hann að þvinga í gegn loforð í ríkisstjórninni um upptöku auðlindalaganna frá 1998. Það loforð er hins vegar mjög loðið og lítill áhugi virðist á efndum. Á meðan að það er ekki efnt og allt grunnvatn, þaðan sem 98% drykkjarvatns landsmanna kemur, er í einkaeigu landeiganda, tala ég óhikað um svik ríkisstjórnarinnar í vatnamálinu.

Samhengi hlutanna

Þegar þessi lög koma saman; vatnveitulögin sem að gefa sveitarstjórnum heimildir til að selja vatnveitur og einkarétt á þeim í hendur fyrirtækja með þeim hætti sem hér hefur verið greint frá, EES-löggjöfin sem leyfir EES skráðum fyrirtækjum starfrækslu hér á landi; nýju þjónustulögin sem opna á að erlend fyrirtæki hafa leyfi til að slá sér niður um allt land, svo fremi þau fá leyfi á einum stað og svo nýju vatnalögin, sem gefa landeigendum heimildir til að nýta grunnvatn til stórfellds vatnsútflutnings og iðnaðarnota – þá verður fátt um varnir þegar hákarlar á borð við Suez hugsa sér til hreyfings á Íslandi. Náttúruauðlindin vatn á Íslandi er því í mikilli hættu á að verða að markaðsvöru erlendra stórfyrirtækja. Hér ber núverandi ríkisstjórn mikla ábyrgð – og það er hennar að breyta lögum um vatnsveitur og hinum nýju vatnalögum hið fyrsta.

-phh


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk kærlega fyrir stórfróðlega grein.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 6.3.2012 kl. 15:23

2 Smámynd: ESB og almannahagur

Takk sömuleiðis Ómar! Ég mun skrifa meira um þessi mál, þ.e. samspil innlendrar löggjafar og ESB-löggjafar, því útkoman er oft önnur og hættulegri en menn gera sér grein fyrir.

ESB og almannahagur, 7.3.2012 kl. 10:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband