Norðmenn beita EES neitunarvaldi

 

Af hverju ætti að innleiða reglur sem leiða til dýrari og verri þjónustu og mismuna íbúum og fyrirtækjum eftir búsetu? Af hverju ætti að innleiða reglur sem að hafa neikvæð áhrif á umhverfið og auka á mengun og umferðarþunga? Er skynsamlegt að setja reglur sem þvinga ríkið til að borga hundruðir milljóna í ríkisaðstoð, bara svo einkaaðilar geti fleytt rjómann af ábatasömum viðskiptum? Já segir ESB og vill að þriðja pósttilskipunin (no 2008/6/EC) verði innleidd. Nei segir Noregur. Þeir ætla að beita neitunarvaldi skv. EES-samningnum gegn því að innleiða tilskipunina. Það yrði í fyrsta sinn sem látið yrði reyna á rétt EES-ríkjanna í þessum efnum.

Rök, eða réttara sagt trú ESB, er sú að með því að ljúka endanlega markaðsvæðingu á póstmarkaðinum með innleiðingu tilskipunarinnar, muni samkeppnin gera allt betra, auka gæði og lækka verð. Þessi ofurtrú ESB á yfirburði markaðarins sem drifinn er áfram af samkeppnishugsjón hinna frjálsu fyrirtækja, kemur auðvitað ekki á óvart. Hún er hluti af því kalda markaðssamfélagi sem regluverk ESB er að þvinga þjóðir Evrópu til að taka upp. Og eins og hvert annað trúboð byggir sannfæring ESB á því að þurfi að bjarga heiðingjunum frá eigin heimsku. Það þarf því ekki að hlusta á einhvert muldur heiðingjanna um að þeirra kerfi sé bara býsna gott og þeir vilji engar breytingar.

Hingað en ekki lengra

Í þessu tilfelli er ESB að sundra hinu opinbera kerfi póstþjónustu sem dafnað hefur og þjónað íbúum margra landa ESB með ágætum áratugum saman. Með fyrstu og annarri tilskipuninni um póstþjónustuna var öll póstburðarþjónusta, utan bréfa og böggla sem eru 50 gr eða minna, markaðsvædd. Einkaréttur hinnar opinberu póstþjónustu var afnuminn og einkaaðilum hleypt að. Með þriðju tilskipuninni á að ljúka verkinu og markaðsvæða póstþjónustuna að fullu. En nú bregður svo við að Norðmönnum finnst nóg komið. Þeir hafa sagt hingað og ekki lengra. Norska ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita neitunarvaldi sínu samkvæmt EES-samningnum.

Almenningur beygði ESB-sinnaða ráðherra Verkamannaflokksins

Það var þó hinum ESB-sinnuðu ráðherrum Verkalýðsflokkins í Noregi þvert um geð, þeir hafa hingað til beitt áhrifum sínum til að Noregur taki umyrðalaust upp allar tilskipanir ESB. En mótstaðan gegn pósttilskipuninni meðal almennings hefur verið mikil. Hún hefur fundið sér farveg í samþykktum hinna ýmsu verkalýðsfélaga og að lokum samþykkti framkvæmdastjórn LO samhljóða í marsmánuði síðastliðnum að krefjast þess að neitunarvaldi yrði beitt. Á landsfundi Verkamannaflokksins mánuði síðar var svo sama krafa samþykkt. Norskir fjölmiðlar töluðu um að Jens Stoltenberg og aðrir úr framvarðasveit Verkamannaflokksins hafi þar beðið ósigur sem undan sveið. ( “I dag gikk statsminister Jens Stoltenberg og resten av toppledelsen i Arbeiderpartiet på et sviende nederlag i saken om Norge skal innføre EUs tredje postdirektiv.” http://www.nrk.no/nyheter/norge/1.7588168)

Og nú stendur þetta svart á hvítu á heimasíðu ríkisstjórnarinnar: “Direktivet er vedtatt i EU. Norge har meddelt sine EFTA/EØS-partnere at de ønsker å benytte reservasjonsretten som følger av EØS-avtalen artikkel 102. EU-siden blir informert om den norske holdningen på møtet i EØS-rådet 23. mai. “ (Sjá http://www.regjeringen.no/nb/sub/europaportalen/eos-notatbasen/notatene/2008/mars/tredje-postdirektiv.html?id=522963 )

Hér eru því hraktar staðhæfingar margra ESB-sinna á Íslandi, sem einhverra hluta vegna telja að Ísland eigi engra annarra kosta völ en að taka upp allar gerðir skv. EES-samningnum. Um þetta mál verður fjallað nánar í næsta bloggi.

Trúboð og trúgirni

Norðmenn, flestir aðrir en hörðustu markaðssinnar og ESB-fylgjendur, hafa nefnilega ekki látið sannfærast af trúboði ESB. Þeir vita ósköp vel að Pósturinn í höndum hins opinbera hefur sinnt sínu hlutverki með sóma og hafa engan áhuga á að beygja sig undir hina blindu röksemdir Brussel um að markaðurinn muni skila betra verki. Svo trúgjarnir eru Norðmenn ekki. Það vill nefnilega svo til að þeir þekkja betur til í Noregi en skrifræðismennirnir í Brussel og eru tilbúnir að horfa með opnum hætti á hvaða afleiðingar þessi póst-tilskipun kann að hafa. Þeir vilja halda í kosti þeirrar póstþjónustu sem þeir þekkja. Þess vegna eru þeir tilbúnir að samþykkja þau varnaðarorð að markaðsvæðing póstþjónustunnar muni leiða til þess að póstburðargjöld innanlands verði mismunandi eftir því hvaðan og hvert pósturinn er sendur, í stað þess að í dag er eitt jafnaðargjald fyrir hverja tegund pósts. Það mun leiða til þess að það verður dýrara fyrir fólk og fyrirtæki út á landi að notfæra sér póstþjónustuna en áður var. Sem þýðir mismunun milli fólk og fyrirtækja eftir því hvar þau eru búsett/staðsett í landinu. Sem þýðir aftur að dreifbýlið verður minna aðlaðandi fyrir fyrirtæki, skatttekjur sveitarfélaga minnka, þjónusta þeirra dregst saman, fólkið flyst í burtu. Dropinn holar steininn.

Samkeppnin leiðir til ríkisaðstoðar!

Erlendir aðilar sem áhuga hafa á að reka póstþjónustu í Noregi, munu einungis velja sér arðvænleg svæði til að starfa á, sem þýðir fyrst og fremst Osló og nærsveitir. Tilskipunin mun því ekki leiða til neinnar samkeppni annars staðar í landinu. Þvert á móti mun norska póstþjónustan þurfa að eyða meira fé í auglýsingar og markaðssetningu í Osló, sem þýðir að fyrirtækið þarf að ná inn tekjum með hækkuðum póstburðargjöldum fyrir dreifbýlið.

Eina leiðin til að koma í veg fyrir þessa þróun er þá sú að ríkið komi til með að niðurgreiða póstsendingar fyrir önnur svæði en Osló. Og þá hefur tilskipunin leitt til þess að auka ríkissaðstoð til þess eins að einkaaðilar geti nýtt sér “frjálsan póstmarkað” til að fleyta rjómann með viðskiptum á Osló-svæðinu. Aukin samkeppni í póstdreifingu með fleiri fyrirtækjum kallar síðan á margföldun þess bílaflota sem sér um dreifinguna, með aukinni mengun og umferðarálagi.

Þetta skilja Norðmenn. Þetta skilur ekki reglumaskínan í Brussel, sem getur ekki annað en spýtt út úr sér fyrirskipunum/tilskipunum á borð við þessa, enda forrituð með öllum trúarkreddum hægri manna um yfirburði markaðarins, ágæti samkeppninnar og galla hins opinbera rekstrar.

-phh


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband