LO í Noregi segir nei við starfsmannaleigutilskipuninni

Sameiginleg stjórn LO kemur saman í dag, mánudaginn 30. janúar 2012, og er fastlega búist við að þar taki Alþýðsambandið upp harða afstöðu gegn því að tilskipunin um starfsmannaleigur (2008/104) verði tekin upp í norskan rétt. Samkvæmt könnun norska ríkisútvarpsins, NRK, þá eru hafa þau verkalýðsfélög sem eru á móti tilskipuninni um 75% allra félaga LO innan sinna vébanda. Þar er stærst og fremst í flokki Fagforbundet með um 320.000 félaga innan heilbrigðisgeirans, hjá sveitarfélögum og bæði einkareknum og opinberum stofnunum. Jan Davidsen Fellesforbundet“Tilskipunin getur leitt til þess að það verði til nokkurs konar C-lið á norskum vinnumarkaði. Við lítum á tilskipunina sem ógn við það fyrirkomulag sem er á vinnumarkaðinum í dag.” segir Jan Davidsen, formaður Fagforbundet í samtali við norska fjölmiðla.   

Þá hefur andstaða við tilskipunina verið mjög hörð innan Fellesforbundet, en það er stærsta félagið innan LO sem starfar innan einkageirans, með 150 þúsund félaga. Síðasti landsfundur Fellesforbundet, sem haldinn var í haust, samþykkti að skora á ríkisstjórnina og Stortinget að beita neitunarvaldi sínu gegn upptöku tilskipuninarinnar. Arve Bakke, formaður Fellesforbundet skrifar á heimasíðu félagsins að það sé heimilt samkvæmt EES-samningnum og það beri að gera nú þegar slagurinn stendur um að vernda það fyrirkomulag á norskum vinnumarkaði sem þróast hefur síðast liðna öld.

Verkamannaflokkurinn norski hefur hins vegar ákveðið að tilskipunin skuli innleidd og hefur atvinnumálaráðherra flokksins, Hanne Bjurstrøm, látið hafa eftir sér að ríkisstjórnin muni ekki láta LO beygja sig í málinu. En Verkamannaflokkurinn er ekki bara upp á kannt við verkalýðshreyfinguna í þessu máli, því hinir ríkisstjórnarflokkarnir hafa miklar efasemdir um tilskipunina. Sósíalistiski vinstri flokkurinn, SV, er alfarið á móti upptöku tilskipunarinnar og margt bendir til að Miðflokkurinn, Senter Partiet, komist að sömu niðurstöðu. Norski verkamannaflokkurinn verður því að leita á náðir borgaralegu flokkanna til að koma málinu í gegn. Verkalýðsfélögin hafa þegar farið í pólitísk verkföll gegn tilskipuninni fyrr í þessum mánuði og því er margt sem bendir til að frekari átök, bæði utan og innan ríkisstjórnar Noregs, séu í uppsiglingu út af tilskipuninni um starfsmannaleigur.

-phh


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://www.dailymail.co.uk/news/article-2094103/Unemployed-Brits-UK-bosses-recruit-thousands-Romania.html

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 07:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband