Starfsmannaleigutilskipunin dregur dilk á eftir sér

Þann fimmta desember sl. rann út frestur aðildarlanda ESB til að hafa rutt úr vegi öllum hindrunum sem gætu staðið í vegi fyrir óheftri framkvæmd tilskipunar um starfsmannaleigur, sem upphaflega var samþykkt 2008 (2008/104EC). Tilskipunin er umdeild, enda fjallar hún um vinnumarkaðsmál, sem vanalega eru ekki á forræði ESB. Og hún er óvanaleg að því leyti að hægt er að líta á hana sem framför á vinnumarkaði, en um leið er hún tákn um afturför. Með tilskipuninni eru lágmarkskjör starfsmanna sem starfa á vegum starfsmannaleiga gerð tryggari og er það út af fyrir sig af hinu góða. Hins vegar er tilvist starfsmannaleiga tákn um breyttan vinnumarkað, þar sem hinn hefðbundni vinnumarkaður með fastráðna starfsmenn sem búsettir eru í nálægð við vinnustaði, á nú undir högg að sækja. Það sem er að gerast með öðrum orðum er að það er verið að gera starfsmannaleigur að “eðlilegum” hluta vinnumarkaðarins. Og því geta fylgt fleiri og alvarlegri annmarkar en við blasa við fyrstu sýn.

Tilskipunin plástur á tilbúið mein

Þó svo að löggjöf ESB tryggi nú starfsmönnum starfsmannaleiga ákveðin lágmarkskjör, þá er það önnur löggjöf ESB sem hefur valdið því vandamáli sem hér er verið að reyna að takast á við. Frjáls för á vinnumarkaði, félagsleg undirboð í kjölfar dóma Evrópudómstólsins, áhersla á flexicurity, þar sem atvinnurekendum er gert auðveldara er að segja upp starfsfólki, að viðbættu umróti á vinnumarkaði í kjölfar stækkunar ESB og nú vegna þeirrar upplausnar sem ríkir í Evrópu, hafa skapað grundvöllinn undir starfsmannaleigurnar. Nú er svo komið að í mörgum löndum ESB deila og drottna starfsmannaleigur yfir drjúgum hlutum vinnumarkaðarins. Í Osló sýna tölur að 6 stærstu starfsmannaleigurnar bjóða upp á helmingi fleiri starfsmenn í byggingariðnaðinum en 6 stærstu byggingarfyrirtækin gera.

Ástæða til að óttast Evrópudómstólana

Og í Noregi, sem eins og Ísland tekur ekki sjálfkrafa upp alla löggjöf ESB um leið og hún hefur verið samþykkt, er nú hvatt til þess af verkalýðsfélögum að stjórnvöld beiti neitunarvaldi skv. EES-samningnum. Segjast Norðmenn hafa það góða löggjöf á þessu sviði að ekki aðeins sé löggjöf frá ESB óþörf, heldur sé hún beinlínis afturför. Að auki fylgir sá stóri böggull skammrifi að verði tilskipunin samþykkt í Noregi að þá mun þessi hluti vinnulöggjafar í Noregi eiga undir EFTA-dómstólinn og Evrópudómstólinn um framtíðartúlkun. Þá óttast þeir að vinnuverndarlöggjöf sín muni verða illa úti þegar kemur að árekstrum milli hennar og túlkunar Evrópudómstólanna á tilskipuninni um starfsmannaleigur. Í ljósi þess hvernig þeir dómstólar túlkuðu tilskipunina um útsenda starfsmenn og sneru þeirri réttindavernd sem átti að vera í henni fólgin á haus, er ekki skrítið þó verkalýðshreyfingin í Noregi sé uggandi.

Víðtæk neikvæð áhrif

Norðmenn líta einnig á áhrifin, verði tilvist starfsmannaleiganna lögfest með þessum hætti, ekki bara á vinnumarkaðinn, heldur einnig á byggðaþróun, stöðu verkalýðsfélaga og stöðu velferðarkerfisins. Við lögfestingu tilskipunarinnar verður ekki lengur hægt að koma í veg fyrir eða hamla starfsemi starfsmannaleiga, nema þær verði brotlega við lög. Það á sem sagt að gera starfsmannaleigur að hluta hins hefðbundna atvinnumarkaðs. Starfsmenn slíkra útleigufyrirtækja eru oftast leigðir út til skamms tíma í senn, í tímabundin verkefni. Oftar en ekki vinna þeir á einu vinnusvæði núna og öðru næst. Þeir koma oft erlendis frá og þá tala sjaldan norsku. Gallarnir sem þessu fylgja eru margir.

Byggðaröskun og veiking verkalýðsfélaga

Aukin notkun starfsmanna frá starfsmannaleigum þýðir að verkamennirnar mynda minni tengsl við vinnustaðinn, það verða færri félagar í verkalýðsfélögum og starfsmenn búa við minna atvinnuöryggi og þar með minna tekjuöryggi. Ótryggar tekjur leiða hins vegar af sér að erfiðara er að fá lán og útvega sér fast húsnæði. Margir óttast einnig að aukin notkun starfsmannaleigustarfsmanna muni leiða í lengdina til minni fagþekkingar og nýliðunar. Það muni skorta á stöðugt atvinnuumhverfi, fyrirtæki sem geta tekið á móti lærlingum og þannig viðhaldið og aukið fagkunnáttu. Það muni í lengdina leiða síðan til lakari gæða og minni framleiðni.

Þá óttast menn að starfsmannatilskipunin muni hafa neikvæð áhrif á byggðaþróun. Þegar mikilvæg fyrirtæki og stofnanir í héraði verða mannaðar fólki frá starfsmannaleigum, þá komi það niður á búsetu í héraðinu. Það leiði til minni skatttekna og tekjur sjálfstætt starfandi verði ótryggari. Þetta þýðir að geta byggðarlagsins minnkar og það verður erfiðara að reka menningar og frístundastarfsemi. Niðurstaðan verði fólksflótti frá dreifbýli til stærri þéttbýliskjarna.

Við þessu hafa mörg verkalýðsfélög og stjórnmálaflokkar sagt nei. SV, Sósíalíski Vinstri flokkurinn, stór hluti af Miðflokknum og félög innan LO, eins og Fellesforbundet vilja að Noregur beiti neitunarrétti sínum. Verkamannaflokkurinn undir forystu Jens Stoltenberg er hins vegar hallur undir ESB og hefur atvinnumálanefnd flokksins samþykkt að lögbinda tilskipunina, þó með breytingum sem eiga að slá á mestu óánægjuna.

-phh


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Sæll Páll, já nú er þessi djöfullsskapur að festa sig í sessi og virðist sem fólk átti sig ekki á þessu fyrirbæri. Það er talað um lámarkslaun séu þá tyggð, en það hefur sýnt sig að það eru hámarkslaun í staðinn fyrir lægstu laun. Þannig fór það í Noregi og þar er líka allt í þvælu með starfsmannaleigur. Þetta er bara brot af þessum ósóma sem á að lögleiða á Íslandi, því miður.

Eyjólfur Jónsson, 26.1.2012 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband