Brussel, skrímslið blíða eða sjálfræðissvipting Evrópu

"Hið blíða skrímsli” er það nafn sem einn helsti rithöfundur, ljóðskáld og samfélagsskýrandi Þýskalands, Hans Magnus Enzensberger, velur Evrópusambandinu. Það er einnig heiti nýustu bókar hans sem kom út á síðasta ári, 2011, en í henni beinir hann gagnrýnu kastljósi að ESB; fullur tiltill bókarinnar, “Brussel, hið blíða skrímsli eða sjálfræðissvipting Evrópu”, (Brussels, the Gentle Monster or the Disenfranchisement of Europe) gefur nokkuð til kynna hvers eðlis ESB er í hans augum og á hvaða vegferð það er. Bókin er unnin upp úr ræðu sem Enzensberger flutti þegar honum voru veitt ein virtustu heiðursverðlaun Dana, Sonning-verðlaunin 2010, fyrir “framlag sitt til evrópskrar menningar”. Við það tækifæri lýsti hann ESB sem fyrirbæri sem “læðist um” og lætur eins og það sé “mannvinsamlegt”, en á sama tíma þjáist það af “hóflausu mikilmennskubrjálæði” og “stjórnunaráráttu.” Hans Magnus Enzensberger er vel þekktur á Íslandi og hafa margar bækur hans verið þýddar á íslensku.

 

Í viðtali við danska blaðið Weekendavisen (20.janúar 2012), ræðir Hans Magnús efni bókarinnar og er hér gripið niður í viðtalið.

Við eigum í vandræðum með hinar 500 milljónir Evrópubúa,” segir Hans Magnus. “Þeir eru jú latir og vilja bara lifa sínu eigin lífi. Þeir skilja ekki hvað ESB er fyrir nokkuð. Ég held að það sé meðvitað. ESB er uppbyggt með þeim hætti, að það er betra fyrir okkur að skilja ekki, hvað það snýst eiginlega um. Það verða þá ekki uppþot á meðan.”

Kerfis-villan í ESB

Hans Magnus lýsir ESB sem “post-demókratisku” kerfi, þ.e. kerfi sem tekur við handan við lýðræðið. Það vill hann rekja til þess hann kallar “kerfis-villu” ESB sem á aftur rætur að rekja til upphafsins. Hann minnir á að eftir seinni heimsstyrjöldina var Evrópa í rúst og sama gildir um hið borgaralega samfélag. “Í Þýskalandi voru ekki aðrir á stjái en gamlir nasistar og þó svo Bretar hafi reynt að koma á lýðræði, var óhemju erfitt að koma því við. Það var því freistandi að ýta hinni evrópsku samvinnu úr vör á bak við luktar dyr. Franski diplómatinn Jean Monnet var einn af þeim sem var í fararbroddi. Hann var tæknikrati, maður sem var hrifinn af nefndum en kunni síður að meta pöpulinn, fólkið á götunni.” Kerfis-villan liggur því í hinu dulda embættismannakerfi, sem framleiðir tilskipanir á tungumáli sem enginn vanalegur maður skilur. Þetta er hið “síð-lýðræðislega kerfi.

Þegar blaðamaður bendir á að þrátt fyrir allt sé þingmenn Evrópuþingsins valdir og að ríkisstjórnir útnefni meðlimi framkvæmdastjórnarinnar, svarar Hans Magnus “þreytulega”: “Já, já já. En framkvæmdastjórn ESB er ekki kosin. Við, kjósendur getum ekki hent henni á dyr. Varla er það mjög lýðræðislegt? Ég kann a.m.k. ekki við slíkt, kannski af því að ég er orðinn svo gamall, að ég hef sjálfur reynt að búa í einræðisríki.”

Hin andlýðræðislega framkvæmdastjórn 

Lesandi getur næstum heyrt þegar blaðamanni svelgist á og hann spyr: Ertu að líkja framkvæmdastjórn ESB við einræði (diktatur)?

HME: “Hún er stjórn sem ekki er kosin. Það er and-lýðræði. Ég kæri mig ekki um það. Kosturinn við okkar eigin ríkisstjórnir er sá að ég get kosið þær burtu, ef þær villast af sporinu. Með friðsömum hætti. Ég hef ekki einu sinni þörf fyrir byssu.”

Blm. - Ættu Evrópubúar þá að kjósa með beinum hætti um hverjir sitja í framkvæmdastjórn ESB?

HME: “Að sjálfsögðu. En þannig er kerfið ekki. Við höfum Evrópu-þing, sem ákveður í raun ekki neitt. Í kalda stríðinu höfðu þeir líka þing í Austur-þýskalandi og Búlgaríu. Þing! Það hafa alltaf verið til þing.”

Kerfi ESB mun hrynja að lokum

Í viðtalinu færist talið að fjármálakreppu Evrópu.

HME: “Kerfið er að skapa meiri skuldir. Menn fá milljarða að láni til að borga tilbaka milljarða. Það kallast pýramída-kerfi. Það er augljóst að það mun hrynja að lokum.”

Blm. Hvað getur ESB þá gert?

HME: “Það er algengt í dag að segja að það finnist engir valmöguleikar, en áður fyrr var það svo, að rétt eins og í þínu eigin lífi, þá fundust valmöguleikar í heiminum. Sumir góðir, aðrir slæmir, en valmöguleikar engu að síður. Að halda öðru fram er ansi langt gengið.”

Hans Magnus segist hins vegar ekki hafa neina valmöguleika á takteinum, það sé ekki hans hlutverk. “Ég hef bara óljósa hugmynd um að meira af því sama, sé ekki endilega góð hugmynd, t.d. hvað varðar skuldirnar. Við tökum lán á lán ofan, þar til við stöndum í milljarða-skuldum. Og hver er lausnin? Fleiri milljarða-skuldir. Þegar að því kemur að ég sel ekki fleiri bækur, fer ég ekki út og eyði meiri peningum, ég notast við minna fé. Það er þó valmöguleiki.”

Blm. - Ertu ESB- andstæðingur?

Ég er ekki þeirrar skoðunar að það eigi að leysa ESB upp. En í stað þess að fá sífellt meira af hinu sama, gætu menn reynt að notast við minna af hinu sama. Færri tilskipanir. Leyfið okkur bara að vera smástund í friði, í guðanna bænum. Það væri líka möguleiki.”

Blm.- Ertu ekki smeykur um hvað gerist ef samvinna Evrópulandanna líður undir lok?

HME: “Það eru þegar allt of mörg lönd með í ESB. Að sjálfsögðu verður í framtíðinni skilið á milli Evru-landanna og hinna sem eru án evru. Menn munu fela það undir einni eða annarri skammstöfun – ABCDEF- sem enginn skilur. Það er ekki ætlunin að við eigum að skilja það.”

Blm. - Þessi kerfisvilla sem þú nefndir að hefði skotið upp kollinum við fæðingu ESB, hefur hún eitthvað með vandamál dagsins í dag að gera?

HME: Að sjálfsögðu. Í námunum, eftir að námaverkamennirnir hafa unnið kol í nokkurn tíma, munu myndast litlar sprungur í veggjunum. Fyrst örsmáar, nánast ósýnilegar. En skyndilega hrynur allt saman. Þeim mun stærra sem menn byggja hið evrópska hús, eim mun fleiri sprungur munu myndast.”

Blm.- Hvernig hefur ESB-kerfið tekið bókinni þinni?

HME: “Í Brussel, þar sem rannsóknarvinna mín fór fram, var þessi litla bók lesin undir borðum, rétt eins og hún væri klámblað,” segir Hans Magnus og hlær.

 

p.s.

Orðið Disenfranchisement er nokkuð vandþýtt, það getur þýtt allt frá að dregið sé úr völdum eða réttindum einstaklinga eða hóps yfir í að viðkomandi sé “hnepptur í þrældóm” (enslavement). En það hefur einnig sérstaka skírskotun til kosningaréttar, og hefur þá meininguna ýmist að dregið sé úr vægi kosningaréttar eða það sem vanalegra er, að menn séu sviptir kosningarétti, annað hvort með löggjöf eða með beinum eða óbeinum þvingunum. Þýðingin sjálfræðissvipting getur því orkað tvímælis.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

http://www.visir.is/hagfraediprofessor-segir-leiknum-lokid-fyrir-grikkland/article/2012120129212

GB (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 07:47

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Gott og þarft innlegg. Ég myndi hafa skýrari forsíðu. Ég rakst bara að tilviljun á ESB og Allmannahagur þegar ég fór að rína betur 

Valdimar Samúelsson, 26.1.2012 kl. 08:18

3 identicon

Málefnalegasta gagnrýnin á ESB á Íslandi.

Mér, sem stuðningsmanni ESB, finnst gott og mjög fræðandi að lesa þetta allt saman.

Vonandi breytist þetta ekki. 

Stefán (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 13:00

4 Smámynd: ESB og almannahagur

Ég þakka uppörvandi orð Stefán og Valdimar! Alltaf gott að heyra slík!

ESB og almannahagur, 26.1.2012 kl. 17:50

5 identicon

Sannir listamenn eins og hinn Þýski Hans Magnus sjá oft napran sannleikann í leiktjöldum fáraánleikans, sem almenningi er oft hulinn.

Þó fer þessum efasemdarmönnum sífellt fjölgandi sem sjá að ESB keisarinn ráfar um sviðið klæðalaus og aðeins gjörspillt og ofalin "Clamúteran" í Brussel klappar.

Má þar nefna mæta menn eins og forseta Tékklands Vaclas Claus og Sovéska andófsmanninn Vladímír Bukovsky. En margir fleiri stjórnmálamenn í ESB ríkjunum eru nú að vakna til lífsins um hégómann, lýðræðisleysið og fánýti þessa ofalda og óskilvirka embættismanna lýðræðis ESB Ráðstjórnarinnar í Brussel.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband